Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 04:01:41 (2504)


[04:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er yfir mig hissa á því að þingmaðurinn hefur ekki lesið það sem hefur verið lagt hér á borð fyrir hann. 600 millj. til sveitarfélaganna, ég byrja á því. Það voru 500 í fyrra, en í fyrra var líka skerðing á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, þ.e. Lánasjóði sveitarfélaga. Það er hvergi að finna þar núna. 500 plús 100 gera 600, það hélt ég að hv. þm. vissi. Honum var kennd það vel stærðfræði.
    Í öðru lagi var landsútsvar á ÁTVR. Það breytist líka. Það eru langsamlega stærstu upphæðirnar. Þá kem ég að því að reikna fyrir --- ég er vanur að kenna þingmanninum að reikna og ég vona að hann læri núna. Í fyrsta lagi, í fyrra eru það 4 þús. millj. sem er samtals tekjuskattur einstaklinga, hækkar um 1,5% það eru 3.400 millj. plús hátekjuskattur plús persónuafsláttur. Það eru 600 millj. samtals.
    Hvernig lækkar þetta á móti? Þetta lækkar á móti með því að 3.400 millj. hverfa út úr dæminu með því að hækkunin um 1,5% fellur niður. Niðurfellingin á skrifstofu- og verslunarhúsnæði 470 millj., framlag til Jöfnunarsjóðsins, 500 millj., það eru hér um bil 1.000 millj. En það sem kemur á móti inn í ríkissjóð eru 325 millj. af ÁTVR og 140 millj. vegna hækkunar á bensíngjaldi. Það sjá náttúrlega allir menn

að munurinn er 55 millj. sem er innan skekkjumarka, því það reyndust ekki vera nema 3.960 millj. sem var skilað til baka af útsvarinu, en ekki 4.000 millj. Með öðrum orðum, þar munar 40 millj. Þetta er nú reikningurinn og ég veit að hv. þm., sem er mjög vel að sér í stærðfræði, hlýtur að skilja þetta þegar gamall kennari hans fer í gegnum þetta með þessum hætti.