Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 04:04:47 (2506)


[04:04]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Það er nánast kominn morgunn, klukkan er 10 mínútur gengin í fimm, og umræðan búin að standa í fjórtán og hálfa klukkustund og sennilega búið að segja allt sem segja þarf, enda er ekki meining mín að lengja umræðuna mikið úr því sem komið er. Vissulega er af nógu að taka og hægt að segja margt um þetta frv., en ég kvaddi mér hljóðs upphaflega fyrir um 10 tímum síðan, til þess að fjalla hér um tvær brtt. sem hafa verið lagðar fram og lýsa yfir stuðningi við þær. Þær brtt. koma fram á þskj. 342 og þskj. 345.
    En áður en ég sný mér að þeim vil ég aðeins taka undir þær hugmyndir sem komu fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um störf fjárln. og hans hugmyndir um það hvernig ætti að ræða einstaka málaflokka í einstökum fagnefndum þingsins og um hugsanleg fjárlög til lengri tíma heldur en nú er. Þingmaðurinn nefndi þrjú ár, það getur þess vegna verið miðað við kjörtímabil. En ég vil alla vega taka undir þá hugsun sem fram kom í máli þingmannsins.
    Ég hef sjálfur margoft gagnrýnt hvernig störf nefnda í þinginu fara fram. Ég hef gagnrýnt það mjög stíft að þingheimur sem slíkur skuli ekki fá að taka afstöðu til mála, heldur séu það eingöngu kannski fimm menn í viðkomandi þingnefnd sem taka afstöðu til máls. Þetta tel ég vera nánast árás á lýðræðið og frelsi þingmanna til að móta afstöðu til mála. Ég tel að öll mál eigi að koma út úr nefndum og það sé þingið í heild, þeir 63 þingmenn sem eru kjörnir af þjóðinni sem eigi að taka afstöðu til hvers og eins máls, svo framarlega sem það kemur nógu snemma til nefndar og hún nær að vinna í málinu.
    Einnig vil ég benda á það að öllum málum er vísað til nefndar og 2. umr. og þar með tel ég að þingið hafi tekið til þess afstöðu að mál skuli koma aftur inn í þingið. Þar með eigi þau ekki að daga uppi í nefndum og nefndir hafi þar af leiðandi engin völd og engan rétt til þess að láta mál sofna eða afgreiða ekki mál frá sér.
    Þá vil ég einnig geta þess að ég álít að nefndir eigi að fá til umfjöllunar þær brtt. sem koma fram við frumvörp. Þetta hef ég áður minnst á og ætla ekki að gera langt mál úr þessu, en af því að um þetta hefur svolítið verið rætt í þessari umræðu, þá taldi ég sjálfsagt að ítreka þetta enn eina ferðina.
    Þær brtt. sem ég vildi lýsa stuðningi við eru, eins og ég sagði áðan, annars vegar á þskj. 345 og er það tillaga frá hv. þm. Framsfl. Finni Ingólfssyni, Stefáni Guðmundssyni og Ingibjörgu Pálmadóttur, en þar er farið fram á það að framlag til Ungmennafélags Íslands verði hækkað úr 10 millj. kr. upp í 14 millj. kr. og framlag til ÍSÍ eða Íþróttasambands Íslands verði hækkað úr 24 millj. upp í 32 millj. Samtals er þetta hækkun upp á 12 millj. kr.
    Ég vil byrja á því að þakka þingmönnunum fyrir þann velvilja og þann stuðning sem þeir vilja sýna íþróttahreyfingunni og hef áður reynt þessa þingmenn af slíku og fagna því að sjálfsögðu að enn finnast þingmenn sem vilja styðja íþróttahreyfinguna. Það vill nefnilega brenna við að á tyllidögum séu allir tilbúnir að styðja íþróttahreyfinguna og mæla fögur orð í hennar garð, en þegar kemur að því að veita fjármuni til hreyfingarinnar, þá kveður við annan tón og fáir eru tilbúnir til slíks.
    Þó að ég hafi ekki heyrt mælt fyrir þessari brtt. þá þykist ég vita að ástæðan fyrir henni sé sú að nú á að taka upp virðisaukaskatt á samgöngur og það mun leggjast mjög þungt á íþróttahreyfinguna. Sú hækkun sem hér er talað um, 12 millj. kr., mun ekki dekka þann aukakostnað sem fellur á íþróttahreyfinguna, þannig að hér er mjög varlega í sakirnar farið og af fullri sanngirni. Ég tel því að það ætti ekki

að verða nokkrum til tjóns að ljá þessu atkvæði sitt. Ég geri frekar ráð fyrir því að þessi tillaga verði látin bíða 3. umr. og ætla því að spara mér frekari rökstuðning með þessu máli. Ef ég á að segja alveg eins og er þá er orðið það áliðið að ég nenni varla að vera að ræða of mikið um málið, en er að vísu tilbúinn til þess. Ég er að hér í fyrsta sinn og á möguleika á að tala aftur ef þess er óskað.
    En meginröksemdin er sem sagt þessi álagning virðisaukaskatts sem mun leggjast mjög þungt á íþróttahreyfinguna sem er mjög illa stödd fjárhagslega í dag og hefur því miður á mörgum undanförnum árum verið afar --- ja, ég vil bara nota orðin illa studd af ríkinu og er ég þá ekkert að gagnrýna frekar þá sem nú sitja við völd en þá sem áður sátu. Það er auðvitað til lítillar fyrirmyndar hvernig við höfum hugsað til íþróttahreyfingarinnar í landinu og er ég þá ekki að gleyma lottói eða getraunum eða slíkum hlutum.
    Það starf sem er unnið innan íþróttahreyfingarinnar er auðvitað mjög mikilvægt fyrir æsku þessa lands. Það þekkja allir það mikla forvarnastarf sem íþróttahreyfingin innir af hendi og hve mikilvæg hún er fyrir framtíð þjóðarinnar. Það þekkja allir líka --- já, ég var að tala um fjárhagsstöðu íþrótta. Á fund hv. efh.- og viðskn. komu fulltrúar íþróttahreyfinganna til skrafs og ráðagerða í gærkvöldi. Þar kom fram að þeir höfðu verulegar áhyggjur af þessari skattlagningu á samgöngurnar og töldu að þetta mundi koma mjög illa við íþróttahreyfinguna í landinu. Svo illa að væntanlega þýddi þetta að yngriflokkastarf og þó alveg sérstaklega kannski, eins og þeir nefndu, að kvennastarfið innan hreyfingarinnar mundi líða fyrir þetta. Þetta er auðvitað mjög slæmt, ef rétt er, og við eigum auðvitað að sporna þarna við fótum.
    Þeir nefndu, sem rétt er, að þetta er fyrst og fremst landsbyggðarskattur, sem svo oft er notað. Ekki síður má kalla þetta alveg sérstakan skatt á Vestmanneyinga.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fjölyrða meira um þetta. Eins og ég sagði þá ætla ég mér að gera það við 3. umr., en láta þetta duga um þetta mál.
    Hitt málið sem ég vildi lýsa stuðningi við er brtt. á þskj. 342 sem er frá hv. þm. Alþb. Þar er 1. flm. Svavar Gestsson. Það er tölul. 2 sem ég vil lýsa stuðningi við sem tekur á samtökum áhugamanna um áfengisvandamál. Þar fara flm. fram á að liðurinn Sértekjur verði lækkaður úr 24,4 millj. kr. niður í 7,2 millj. kr. Þetta mál þykist ég vera fullviss um að verður dregið til baka við atkvæðagreiðsluna seinna í dag og kemur því til umræðu aftur við 3. umr. og ég ætla því að spara mér þá umræðu að öllu leyti þar til að henni kemur.