Meðferð EES-mála á Alþingi og framtíð þingmannanefndar EFTA

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 10:35:38 (2511)


[10:35]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af athugasemdum hv. þm. vil ég taka fram tvennt. Hið fyrra er að í Reykjavík hinn 20. maí 1992 var gerður samningur með hliðsjón af 95. gr. EES-samningsins og fjallar um nefnd þingmanna frá þjóðþingum EFTA-ríkjanna. Samningurinn kveður á um stofnun sameiginlegrar EES-þingmannanefndar sem á að vera EFTA-ríkjunum til ráðgjafar um mál sem tengjast EES. Þetta þýðir ekki að þingmannanefnd EFTA sem nú starfar verði lögð niður. Hún starfar áfram, enda á Sviss aðild að þeirri nefnd. Á ríkisstjórnarfundi í morgun var þessi samningur lagður fram til staðfestingar í ríkisstjórn.
    Annað sem ég vildi taka fram er að á ríkisstjórnarfundum á þessu hausti a.m.k. í tvígang hef ég lagt fram ítarlegar skrár yfir þingmál sem varða framkvæmd EES-samningsins og skipt þeim eftir forgangsröð, þ.e. þau mál sem þyrfti að afgreiða fyrir áramót og önnur mál sem eru á aðlögunartíma og áréttað öðru hverju og beint þeim tilmælum til ráðherra að þeir fylgi þeim málum eftir þannig að við stæðum við skuldbindingar okkar.
    Það er rétt sem fram kom í máli þingmannsins að það liggur alveg ljóst fyrir nú að EES-samningurinn gengur í gildi um áramót. Hann verður formlega og endanlega staðfestur í ráðherraráði Evrópubandalagsins nú á mánudag og þess má geta að tilraunir á lokastundu til þess að koma í veg fyrir að samningurinn taki gildi samkvæmt upphaflegri orðanna hljóðan, þ.e. að bæði fyrstu tvö árin sem veita t.d. tollaniðurfellingar eða tollalækkanir taki gildi, tilraunir til þess að fá því breytt af hálfu ýmissa aðildarríkja EB hafa ekki tekist þannig að samningurinn mun taka gildi 1. jan. 1994 og á þann veg að fyrstu tveir áfangarnir sem varða tvö fyrstu árin koma til framkvæmda.