Fjárlög 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 11:08:37 (2519)

[11:08]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Í áliti sjútvn. segir varðandi fjárlagatillögur Hafrannsóknastofnunar: ,,Nefndin bendir á að fjárframlög til rannsókna voru skorin niður á fjárlögum þessa árs sem er hættuleg þróun og gera þarf allar hugsanlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þessi niðurskurður endurtaki sig.`` --- Því miður bætir nefndin svo við: ,,Nefndin gerir þó engar tillögur til breytinga á frv. að svo stöddu.``
    Það mál sem hér um ræðir, rannsóknir á klaki og hrygningu þorsksins, eru einhverjar þýðingarmestu rannsóknir sem nú standa yfir sem mér er kunnugt um. Um það segir Hafrannsóknastofnun: ,,Þessar rannsóknir hafa aðeins staðið í tvö ár en nauðsynlegt er að halda þeim áfram, enda virðast þær vera að varpa nýju ljósi á þennan mikilvæga þátt í ævi þorsksins.`` --- Og um niðurstöður í lokin segir: ,,Slíkar niðurstöður mundu hafa mjög mikil áhrif á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um nýtingu þorskstofnsins.``
    Ég treysti því að tillaga þessi verði samþykkt.