Skuldastaða heimilanna

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 13:35:25 (2531)


[13:35]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Málshefjandi beindi málinu til mín en notaði aðallega tímann til að skamma samstjórnarflokk minn, Alþfl., mér fannst það ekki alveg sanngjarnt fyrst málinu var beint til mín, en að vísu fékk frjálshyggjan að fljóta með, heyrðist mér, svona í einni setningu. En varðandi þessi atriði þá er dálítið hættulegt að beina umræðunni í þann farveg sem hv. þm. gerði um aukningu skulda heimilanna því að hluta til hefur það jú verið meðvituð pólitísk stefna að auka fyrirgreiðslu úr opinberum sjóðum, húsnæðissjóðum og öðrum slíkum sjóðum og meginaukningin í þessari skuldasöfnun er einmitt á þeim vettvangi.
    Það er rétt hjá hv. þm. að heildarskuldir heimilanna eru núna milli 260 og 270 milljarðar kr. og þessar skuldir hafa aukist mikið á undanförnum 14 árum. Til að mynda frá árinu 1988, en þá sat ríkisstjórn sem hv. þm. studdi ötullega, hafa þessar skuldir nær tvöfaldast og ekki síst á þeim árum sem sú stjórn sat sem hv. þm. studdi. Menn verða að hafa í huga að skuldir af þessu tagi, húsnæðisskuldir, voru með allt öðrum hætti fyrir þetta ár, 1981, því þá vildu skuldirnar hverfa með hjálp og aðstoð verðbólgu. Því lauk með þessu tímabili 1981 og skuldirnar eru verðtryggðar og því meira sem veitt er úr opinberum sjóðum ásamt með verðtryggingunni því hækka þessar tölur. Um 125 millj. af þessum 260 millj. kr. skuldum munu vera hjá húsnæðissjóðunum, 35 hjá lífeyrissjóðunum, 50 millj. hjá bönkum, auðvitað mikið út af húsnæðismálum líka, og síðan er drjúgur hluti í húsbréfum. Meginhlutinn er sem sagt vegna þess að menn hafa verið að veita verðbundið fjármagn til húsnæðiskerfisins sem hefur verið stefna, ég hygg allra stjórnmálaflokka í landinu.
    Það er þó athyglisvert að það hefur verið að hægja á skuldasöfnun heimilanna nú fyrst á þessu líðandi ári og það eru jákvæð tákn í þessari umræðu en það er rétt að skuldir heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum þeirra eru háar hér á landi samanborið við önnur lönd og er því ekki að leyna. En menn verða að hafa í huga að hér er að langmestu leyti um að ræða skuldir vegna húsnæðisöflunar.
    Það segir til að mynda á bls. 33--34 í riti um peninga og gengi og greiðslujöfnun, sem gefið er út á vegum Seðlabankans 11. nóv. 1993, með leyfi forseta:
    ,,Á undanförnum árum hafa heimilin leitt til lánsfjáreftirspurnar ásamt ríkissjóði. Þar hefur nú nokkuð hægt á eftirspurn og nemur aukningin síðustu 12 mánuði röskum 10% og er það talsvert hægari vöxtur en á sama tímabili ári fyrr. Þá var vöxtur lána til heimila tæp 14%. Vöxtur lána til heimila frá áramótum til septemberloka var hins var tæp 8% samanborið við rúm 10% á árinu 1992. Of snemmt er að segja á þessu stigi hvort um er að ræða straumhvörf í lánsfjáreftirspurn heimila eða tímabundinn öldudal. Meginuppspretta lána til heimila um þessar mundir eru byggingarsjóðir hins opinbera, þar með talið húsbréfakerfið og námslánakerfið. Gætt hefur minnkandi útstreymis bæði námslána og opinberra húsnæðislána. Hið fyrra stafar af takmörkuðum aðgangi en hið seinna af efnahagssamdrættinum sem setur mark sitt á íbúðaviðskipti og íbúðabyggingar.``
    Hér eru sem sagt sundurgreindir meginþættirnir í þessari vaxandi skuldastöðu en auðvitað er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. að þegar saman dregur í þjóðfélaginu og þegar tekjur minnka eins og gerst hefur vegna aflasamdráttar og tekjusamdráttar þjóðfélagsins sem heildar þá reynast skuldir sem þungar eru fyrir, þó þær séu teknar í góðum tilgangi og m.a. fyrir atbeina stjórnvalda og hvatningu frá stjórnvöldum eins og í húsnæðiskerfinu og hafa verið gerðar á öllum þessum áratug, þá reynast þær auðvitað þyngri í skauti þegar hinar sameiginlegu tekjur og þar með tekjur einstaklinganna dragast saman. Ég er sammála hv. þm., að það er rétt að vera á varðbergi í máli þessu og fylgjast mjög náið með því og auðvitað getur komið vel til greina að starfshópur af því tagi sem hann nefndi fari sérstaklega ofan í málin.