Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 14:30:35 (2546)


[14:30]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil svara hér þeim spurningum sem til mín er beint varðandi ákvæði um málefni fatlaðra í þessu frv. Það er rétt hjá hv. þm. að það er farin sú leið núna að á næsta ári verði heimilt að veita ákveðinn hluta af fjármagni sjóðsins til liðveislu sem mun gefa okkur aukið svigrúm til þess að bæta þjónustuna frá því sem er á þessu ári og það er líka rétt að það hefur orðið gífurleg uppbygging í þjónustu við fatlaða á umliðnum árum, sérstaklega í sambandi við uppbyggingu á sambýlum, en það hefur orðið raunaukning á síðustu fimm til sex árum í þennan málaflokk um 700 millj.
    Þetta ákvæði var borið undir samtök fatlaðra og þau voru miðað við aðstæður sátt við það að þessi leið yrði farin núna. Því verður lítið um það á næsta ári að það komi til ný sambýli. En að því er spurningu hv. þm. varðar varðandi Sólborg á Akureyri þá er gert ráð fyrir því að það sé hægt að koma á fót þrem sambýlum sem þarf til þess að hægt sé að útskrifa þá einstaklinga sem nú eru á Sólborg. Það kallar ekki á aukinn rekstur vegna þess að starfsfólkið mun þá flytjast með yfir á þessi sambýli. Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur látið liðlega 50 millj. kr. til Sólborgar frá 1983 og við hljótum að gera ráð fyrir því að ef tekst að selja Sólborg að andvirði þess sem við höfum látið til Sólborgar þá renni það í sjóðinn aftur.
    Varðandi Kópavogshælið þá hefur gengið hægar þar að útskrifa þá sem þar eru yfir á sambýli heldur en menn væntu. Þó hefur eitt sambýli sérstaklega verið tekið í notkun á árinu 1990--1991, að mig minnir, til þess að útskrifa af Sólborg. Við höfum verið í nokkrum viðræðum við forsvarsmenn Kópavogshælis til þess að gera áætlun um útskriftir en þar stendur á því sama eins og annars staðar að þó við eigum peninga fyrir stofnkostnaði á sambýlum þá vantar okkur peninga fyrir rekstri og við höfum rætt það hvort ekki verði þá að sama skapi hægt að flytja starfsfólk af Kópavogshæli yfir á þessi sambýli en engin niðurstaða liggur fyrir enn sem komið er.