Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 15:06:08 (2551)


[15:06]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir svörin. Ég vil fyrst segja það að ég treysti því að þetta frv. verði sent til viðkomandi fagnefnda þannig að heilbr.- og trn. fái þá kafla sem við höfum verið að tala um, ég held að það sé mjög mikilvægt og að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs verði örugglega kölluð til. Það skiptir gríðarlega miklu máli.
    Ég ætla þess vegna ekki að staldra við atvinnuleysistryggingaþáttinn heldur fyrst og fremst 11. gr. Þar stendur:
    ,,Þó er heimilt að ákveða í reglugerð að sjúkratryggður taki þátt í kostnaði vegna dvalarinnar.``
    Ráðherrann viðurkenndi áðan að þetta næði víðar en til áfengismeðferðarinnar. Hann sagði: ,,Það er takmarkað í greinargerðinni.`` Og hann sagði: ,,Meðan ég er ráðherra þá verður þetta aldrei notað nema að því er varðar áfengismeðferðina.``
    Það getur vel verið, en það skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi því svo getur auðvitað farið að það taki einhver annar ráðherra við einn góðan veðurdag og hann verði í þröngri stöðu með ríkisfjármálin og ramma heilbrrn. og telji sig neyddan til að leggja þessi gjöld á miklu víðar.
    Ég tel með öðrum orðum að þetta sé stórhættuleg opnun á almannatryggingalögunum sem hér á sér stað. Samkvæmt þessari opnun er hægt að taka gjald fyrir allt sem fram fer í sjúkrakerfinu á Íslandi. Það gengur ekki. Og þessi markatilvik sem hæstv. ráðherra var að rekja, það væri einfalt að skilgreina þau ef maður hefði lengri tíma hér eftir en 22 sekúndur.