Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 15:07:48 (2552)


[15:07]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég vil við þessa 1. umr. við frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994 leggja nokkur orð inn í þá umræðu. Þetta frv. er eitt í þeirri röð mála sem eru fastagestir í þingstörfum í desembermánuði og varða breytingar á ýmsum lagaákvæðum er varða ríkisfjármál. Og í efh.- og viðskn. eru um þessar mundir miklar breytingar á skattalögum sem eiga að koma til framkvæmda núna um áramótin ef samþykktar verða fyrir jólin.
    Það má spyrja sem svo hvort það sé náttúrulögmál að við hv. þm. þurfum ávallt að vera uppteknir við það í lok ársins að breyta fjölda lagaákvæða, leggja á nýja skatta hingað og þangað og taka allar þær breytingar í einu lagi rétt um það leyti sem verið er að afgreiða fjárlög. Þetta er satt að segja einn þátturinn af þeirri áráttu okkar að vera alltaf að rífa upp alls konar lagabálka, oft með vafasömum árangri. En þetta var nú svona almenn hugleiðing í upphafi, en ég hygg að margar þær breytingar, sem gerðar hafa verið og þegar verið er að rífa upp löggjöf og breyta henni, valdi aðeins óöryggi og óvissu og margt af því sé ekki til bóta.

    Hitt er svo annað mál að auðvitað eru ýmis lög hér í hv. Alþingi sett með góðum vilja og góðum áformum og síðan hafa menn ekki kraft eða peninga til þess að standa við þau ákvæði. Þannig er einmitt um 1. gr. í I. kafla þessa frv. að við erum að fresta góðu máli ár eftir ár sem þó var sett löggjöf um á sínum tíma og svo sannarlega er hér um þarft mál að ræða. Það er satt að segja svo málum komið í þjóðfélaginu að það ætti að vera okkur hv. þm. mikið umhugsunarefni hvort það ekki séu möguleikar til þess að hrinda þessu ákvæði í framkvæmd.
    Við sem sitjum á hv. Alþingi höfum sjálfsagt öll heyrt fregnir úr grunnskólum landsins, hvernig ástandið er orðið nú hjá ýmsum nemendum í þjóðfélaginu. Ég man eftir að hafa heyrt það í fréttum fyrir nokkru síðan að í einum grunnskóla hér í Reykjavík kæmu börnin svöng og vanhirt í skólann af ýmsum ástæðum. Ég held að það væri betra ástandið fyrir þessi börn ef það væri t.d. völ á skólamáltíðum í skólunum. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól að mér finnst skjóta skökku við og ekki vansalaust að þjóð sem kemur sér upp hinum glæsilegustu mötuneytum á öllum vinnustöðum --- og við erum ekki þar undanskildir, hv. þm., skuli ekki sjá nokkurn möguleika til þess að koma upp aðstöðu til að borða eða máltíðum á vinnustöðum barnanna okkar. Þetta ætti að vera ærið umhugsunarefni. Ég held að það eigi allur þingheimur þarna nokkra sök. Þetta mál er ekki nýtt og þessi frestun er ekki ný, en ég held að ástandið sé því miður orðið þannig í þjóðfélaginu núna að það geti verið eitt af því sem létti undir með almenningi í landinu að framkvæma þetta ákvæði og reyna að finna einhverjar leiðir og fjármagn til að koma þessu í framkvæmd.
    Það hefur komið fram í þessari umræðu að auðvitað er með þessu frv. verið að ýta gjöldum yfir á almenning í landinu og ýmsa markhópa. Markhóparnir eru m.a. nemendur í framhaldsskólum og að þessu sinni verða fyrir valinu nemendur í Tækniskóla Íslands og nemendur í búnaðarskólunum og Garðyrkjuskóla ríkisins sem eiga nú að greiða skólagjöld.
    Það eru nýgengnar fram hér á Alþingi miklar breytingar á Lánasjóði ísl. námsmanna sem hafa vissulega þrengt kost þeirra námsmanna sem á annað borð þurfa að leggja mikið á sig til þess að fjármagna sitt nám. Auðvitað er aðstaða námsmanna misjöfn að þessu leyti. Það þekki ég vel. Og það er gífurlegur aðstöðumunur að þessu leyti hjá námsmönnum. En ég held að engum blandist hugur um að þær nýju reglur sem samþykktar hafa verið um lánasjóðinn þrengja kost námsmanna mjög og það sýnir aðsókn að skólunum. Þarna er náttúrlega verið að herða á þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að láta greiða skólagjöld og það kemur til viðbótar við þær skerðingar sem verið hafa á lánasjóðnum. Þessu mótmæli ég harðlega og mun auðvitað greiða atkvæði á móti þessum ákvæðum.
    Ég vil geta þess, af því að hér eru búnaðarskólarnir undir þessum ákvæðum, að við fjárlagagerðina var hafnað þeirra beiðnum um fjárveitingar til uppbyggingar og til þess að þróa kennslu og m.a. varðandi nýjar búgreinar. Þessi ákvæði eru auðvitað til að hnykkja á þeim ákvörðunum. Það má vel vera að þau verði til þess að einhver fátækur námsmaður sjái sér ekki fært að halda áfram námi. Það er vegið í sama knérunninn að þessu leyti.
    Það er stefna ríkisstjórnarinnar að koma sem mestum gjöldum yfir á atvinnuvegina í landinu, þjónustugjöldum, og sérstakt gjald af öllum seldum búvélum er þáttur í því. En tekjurnar af því, eins og kom fram í ræðu hv. 9. þm. Reykv., eru um 8 millj. kr. og ég tek undir það sem hann sagði í sinni ræðu að það er vafasamt að það eigi að vera að búa til sérstakt skattkerfi fyrir slíkar upphæðir. Hins vegar þegar stefna ríkisstjórnarinnar er í húfi og skal fram þá verður auðvitað að búa til kerfi, hjá því verður ekki komist að þeirra dómi.
    Í 9. gr. frv. er ákvæði um Framkvæmdasjóð fatlaðra, að honum sé heimilt að verja allt að 25% af ráðstöfunarfé sjóðsins til verkefna sem talin eru upp í greininni. Ég leggst í sjálfu sér ekki á móti þessu ákvæði, ég tel að það sé eðlilegt að Framkvæmdasjóður fatlaðra, sem hefur verið nokkuð öflugur, taki þátt í einhverjum rekstrarverkefnum. Hins vegar verða menn að gæta sín í þeim efnum og það má ekki koma niður á því hlutverki sjóðsins að jafna aðstöðu fatlaðra í landinu með stofnframkvæmdum. En ég vil einmitt geta þess að í fjárlögum er gert ráð fyrir því að 30 millj. kr. tekjur í sjóðinn af erfðafjárskatti skili sér ekki á næsta ári þannig að sjóðurinn verður fyrir tekjumissi auk þess sem honum er ætlað að taka þátt í rekstrarverkefnum fyrir um 42 millj. kr. Þetta eru aðvörunarorð. Ég tel í sjálfu sér ekki óeðlilegt að þessi breyting sé gerð en það verður að gæta sín í því að afmarka þessi rekstrarverkefni vel.
    Það hefur verið rætt ítarlega um gjöld m.a. vegna áfengismeðferðar og ég ætla ekki að bæta miklu við í þeim efnum. Ég tek undir það sem fram hefur komið í þessari umræðu að hér erum opið ákvæði að ræða og þó að það sé bara um áfengismeðferð að ræða í ár, þá getur komið eitthvað annað á eftir. Þarna er verið að opna rifu og það getur komið sá tími að það verði opið upp á gátt fyrir kostnaðarþátttöku sjúklinga í sjúkratryggingum.
    Í 20. gr. er gert ráð fyrir að sveitarfélögin greiði áfram 600 millj. kr. til Atvinnuleysistryggingasjóðs og sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri greiði 2.312 kr. fyrir hvern íbúa en sveitarfélög með færri en 300 íbúa greiði 1.387 kr. Þarna er verið að framlengja þennan skatt sveitarfélaganna til sjóðsins og ég tek undir að það er eðlilegt að Atvinnuleysistryggingasjóður leggi eitthvað af mörkum til þess að reyna að skapa atvinnu frekar en að greiða atvinnuleysisbætur, ég er samþykkur því grundvallaratriði. En það má spyrja hvort það sé þörf á því að sveitarfélögin, sem hafa mikla reynslu í atvinnuskapandi verkefnum og hafa lagt til þess mikið fjármagn á undanförnum árum, greiði þetta fjármagn í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð

og því sé úthlutað þar, hvort það sé ekki einfaldara að verja þessu fé beint í atvinnuskapandi aðgerðir án þess að vera að borga það í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð og úthluta því svo aftur þaðan. Ég er í vissum vafa um þetta ákvæði, en ég tel þó að þetta samstarf hafi gert gagn. Það er enginn vafi á því. En ég hygg að það eigi ekki að festa þetta í sessi til frambúðar og áskil mér rétt til að skoða þetta mál nánar, enda mun ekki vera ætlunin að þetta ákvæði standi nema til eins árs, en ákvæði sem eiga nú að standa til eins árs í upphafi standa nú í tvö ár eins og þetta ákvæði hefur nú staðið og það er enginn kominn til með að segja nema þetta fyrirkomulag standi þá til frambúðar en ég held að við ættum að gefa okkur tíma til að skoða það vandlega.
    Skerðingarákvæðin í frv. eru gamlir kunningjar, mörg hver og ég ætla ekki að hafa um þau mörg orð. Það er eitt skerðingarákvæði hér sem ég hef gert að umtalsefni á undanförnum árum ef ég hef tekið til máls varðandi þessi ákvæði sem koma hér árvisst, en það er skerðing á mörkuðum tekjustofnum til ferðamála. Ég botna ekkert í þeirri hagfræði sem liggur þar að baki. Það er talað um það á hátíðlegum stundum að ferðaþjónustan sé vaxtarbroddur í atvinnulífinu og hún hefur vissulega verið það, það er rétt, geysilega mikilvægur atvinnuvegur fyrir þjóðina. Og hún er mikilvægur atvinnuvegur að því leyti að háannatíminn í ferðaþjónustunni er þegar fjöldi fólks kemur út á vinnumarkaðinn, m.a. námsfólk.
    Það vantar mikla uppbyggingu í ferðaþjónustu. Það ber öllum ferðaþjónustumönnum sem hafa kynnt sér þau mál sérstaklega og vinna í greininni saman um það að nú vantar fyrst og fremst fjármagn til markaðssetningar og til þess að koma upp afþreyingu fyrir það fólk sem kemur til landsins og það vantar einnig fjármagn til þess a búa landið þannig úr garð að það sé hægt að taka á móti þessu fólki án náttúruspjalla. Og meðan við höfum þessi markmið og þessa skoðun að ferðaþjónustuna eigi að efla, þá birtist það í verki með því að skerða til hennar tekjustofna og leggja svo á hana virðisaukaskatt um næstu áramót í ofanálag. Þetta er hagfræði sem ég skil ekki. Auðvitað viðurkenni ég að þetta skerðingarákvæði er gamalt og hefur verið hér í áraraðir, en það er ekkert betra fyrir það. Sú ríkisstjórn sem nú situr tók ekki upp þetta ákvæði. Hún hafði fyrirmyndir áður en það er ekkert betra fyrir það að hafa þetta svona.
    Ég viðurkenni að ég hef til samkomulags ætíð samþykkt þessi ákvæði í gegnum tíðina. En ég vil þó eigi að síður minna á þetta. Það er náttúrlega alveg ný staða sem upp er komin í þessu efni þegar á svo að fara að leggja virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna líka. Það tók núv. ríkisstjórn ekki í arf frá fyrrv. ríkisstjórn þannig að því vísa ég til hennar. Það er því alveg ný staða upp komin varðandi þessa atvinnugrein.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta frv. öllu fleiri orð á þessu stigi. Það kemur að sjálfsögðu til skoðunar í nefnd og verður fjallað um það nánar á þeim vettvangi en ég vil minna á það m.a. að eitt skattafrv. er til meðferðar í félmn. þingsins. Það eru tekjustofnar sveitarfélaga. Þar höfum við fengið inn umsögn frá aðila sem a.m.k. forustuflokkur ríkisstjórnarinnar hefur ætíð tekið nokkuð mark á, þ.e. frá forráðamönnum Reykjavíkurborgar. Þar eru mikil viðvörunarorð. Þar er það sagt hreint út að það sé óhæfa að vera alltaf að grauta í viðkvæmum ákvæðum skattalaga á hverju einasta ári og nú þurfi að vanda sig vel og láta það bíða, þær breytingar sem verið er að fjalla um þar. Ég tek nokkurt mark á þessu þó að auðvitað séu kannski ástæður fyrir þessari varfærni einmitt núna. Það er af því að það eru kosningar fram undan og það er auðvitað óþægilegt fyrir Reykjavíkurborg að fá þessar lagabreytingar fyrir kosningarnar og hækka útsvarið. Þannig að það er ástæða þar að baki. En eigi að síður er ég efnislega sammála því að þessar skattabreytingar, þessar breytingar í ýmissi löggjöf, að vera að krukka í alls konar löggjöf, opna hana, krukka í hana fram og aftur í annríki á síðustu vikum fyrir jól, það er ekki góð lagasetning en því miður heldur það áfram hér núna og keyrir þó um þverbak í þeim skattalagabreytingum sem til meðferðar eru í efh.- og viðskn. um þessar mundir og í félmn. þar sem til meðferðar eru hin viðkvæmustu tekjuöflunarmál í miklu tímahraki núna rétt fyrir jólin.