Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 15:52:22 (2556)


[15:52]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt athugasemd hjá hv. þm. sem hann vék hér að áðan að auðvitað er gert ráð fyrir nokkru hærri gjaldtöku en áður. Af þeim sökum eru þessi mál flutt með þessum bandormi og er í samræmi við það fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir.
    Varðandi GATT-tilboðið vil ég taka það fram að eins og nú standa sakir, þá hefur komið fyrirspurn til okkar Íslendinga um það hvort við viljum heldur standa á magntakmörkunum ef sú spurning kynni að koma upp, en leyfa þá meiri lágmarksaðgang en ella, og þá er verið að tala um 4--8%, eða við á hinn bóginn kysum ef ekki yrðu magntakmarkanir að halda okkur við 3--5%. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef hafa Norðmenn tekið ákvörðun um að velja síðari leiðina, en standa á kröfu sinni um magntakmarkanir áfram á meðan þeir telja stætt á því og við Íslendingar höfum ákveðið að fara þá hina sömu leið.