Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 16:50:12 (2561)


[16:50]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var svo margt í ræðu hæstv. menntmrh. sem þarf að svara að ég er nú þegar búin að setja mig á mælendaskrá. En það er alveg makalaust að hlusta á þennan málflutning hæstv. menntmrh. Hann vill ekki viðurkenna að niðurskurður hafi átt sér stað í skólakerfinu heldur aðhald og sparnaður sem í hans huga er af því góða. En það kom fram hjá honum að það hefur orðið mikill niðurskurður í kennslustundum. Það kom fram hjá honum að kennarastöðum hefur fækkað um marga tugi og eins og ég rakti fyrr hér í umræðunni eru núna samkvæmt upplýsingum fjmrn. 79 grunnskólakennarar atvinnulausir. 79 kennarar eru atvinnulausir. Og maður spyr sig: Borgar þessi sparnaður sig? Borgar þetta svokallaða aðhald sig? Ég held ekki. Það er alveg ljóst, það kemur fram í frv., að þær kennslustundir sem nemendur eiga að fá eru miklu fleiri en þær sem þeir fá. Það er auðvitað hægt að draga fram alls konar meðaltöl. Skólarnir eru misstórir, bekkirnir eru misstórir og meðaltalið gefur enga mynd af því sem sum börn þurfa að þola vegna þessa aðhalds hæstv. menntmrh. (Gripið fram í.)
    Ég vil líka minna á það hér og koma betur inn á það seinna að það kom fram í upplýsingum fyrr á þessu ári að eftir sparnaðinn sem samþykktur var í byrjun árs 1992 þegar þá fækkaði bekkjardeildum um 34 og stöðugildum kennara fækkaði um allt að 80. Það var niðurstaðan eftir fyrsta veturinn og þetta er ekkert annað en niðurskurður og auðvitað kemur hann niður á börnunum. Börnin fá ekki jafngóða og ekki jafnmikla kennslu og áður. Þegar stöðugt vaxandi kröfur eru gerðar til skóla og menntunar og öllum ber saman um að bætt menntun sé það sem allar þjóðir heims þurfa að stefna að þá gengur menntmrh. íslenska lýðveldisins fram í svokölluðu aðhaldi og sparnaði sem er auðvitað ekkert annað en handahófskenndur niðurskurður.