Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 16:53:04 (2562)


[16:53]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla alls ekki að snúa út úr orðum hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur en hún var að tala enn um atvinnuleysi kennarastéttarinnar og upplýsti að 79 grunnskólakennarar væru atvinnulausir, ekki rétt? Ég upplýsti að grunnskólakennurum hefði fjölgað um 114. Grunnskólakennurum hefur fjölgað um 114. Leiðbeinendum hefur að vísu fækkað en hv. þm. talaði um grunnskólakennara, bara svo að við notum rétt orð og séum að tala sama tungumálið (Gripið fram í.), þá er þetta staðreyndin. En það er auðvitað fleira sem hefur áhrif hér heldur en eingöngu niðurskurður eða aðhaldsaðgerðir í skólakerfinu. Atvinnuleysi er hér meira en hefur verið um áratuga skeið og auðvitað hefur það áhrif í kennarastétt. Það er vitað að það sækja fleiri núna inn í skólakerfið með kennaramenntun heldur en gerðu áður. Kennaralaunin eru nú víst ekkert til að hrópa húrra fyrir. Og kennarar hafa leitað á vinnumarkaðinn í ýmislegt annað en í kennslu. Þar hefur orðið erfiðara á markaðnum líka og þess vegna koma þeir meira inn í kennsluna og það er ein skýring á því að nú verður vart við atvinnuleysi í þessari stétt.
    Ég skil heldur ekki af hverju er verið að hneykslast á þessu að það hefur verið hægt að koma við hagræðingu í skólakerfinu. Af hverju er verið að því? Á það ekki að vera keppikefli okkar allra? Þá er ég að tala um hagræðingu en ekki niðurskurð. Ég veit að menn geta kallað það niðurskurð þegar fækkað er vikulegum kennslustundum. Ég viðurkenni það, ég er ekkert að draga dul á það. En það er fleira sem hefur verið gert í skólakerfinu til þess að spara fé heldur en bara það að fækka vikulegum kennslustundum.