Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 16:57:49 (2566)


[16:57]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Aftur að niðurskurðinum. Ég spurði hvar menntmrh. hygðist ná þeim 100 millj. kr. niðurskurði í grunnskólanum sem boðaður er í fjárlagafrv. Hann sagði að það hefðu verið viðræður við sveitarfélögin um að yfirfæra þangað viss atriði, það hefði hins vegar ekki náðst samkomulag og hann mundi ekki reyna frekar við það atriði.
    Ég fagna því út af fyrir sig en eftir stendur að fá einhverjar yfirlýsingar um það eða einhverja útfærslu á því hvar eigi að ná fram þessum sparnaði. Ráðherra lofaði að gera grein fyrir því hér við 3. umr. (Gripið fram í.) Hann gerði ekki nánar grein fyrir því en hann ætlar að gera það við 3. umr. og við bíðum auðvitað spennt að sjá hvernig hann ætlar að gera þetta og munum taka vel eftir því hvað ráðherra segir við 3. umr. fjárlaga.
    Vegna þess að ráðherra sagði hér að það lægi ekki ljóst fyrir hvenær sjónvarpið flyttist í nýja útvarpshúsið þá hef ég áreiðanlegar upplýsingar um það að í menntmrn. liggi núna fyrir ákveðið nál. Ráðherra skipaði nefnd til þess að kanna hugsanlegan aðskilnað útvarps og sjónvarps, og heyrst hefur að þar liggi nú fyrir nál. og sé búið að liggja fyrir lengi, þar sem lagt sé til að það sé skilið á milli útvarps og sjónvarps. Þetta mun nú vera eftir því sem mér skilst hálfgert leyniplagg. En ég vil spyrja ráðherra hvort þetta sé rétt, hvort þetta nál. liggi þarna fyrir, þetta mun vera þriggja manna nefnd sem hann skipaði til að skoða þessi mál og hvort hægt sé að fá þetta nefndarálit í hendur.