Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 17:21:16 (2574)


[17:21]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég held að ég hafi ekki fengið svör við öllum mínum spurningum. M.a. hef ég ekki fengið svör við þessum milljarði sem mér sýnist að vanti inn í til að fjármagna Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég reikna með því að þegar ráðherra sagði að það ætti að fara í viðræður við verkalýðshreyfinguna og fara yfir sviðið allt, þá hafi hann verið að tala um þessar 250 millj. kr. sem menn hafa verið að tala um að spara í úthlutunarreglum og öðru slíku. En eftir stendur og ég fæ ekki betur séð en að það vanti milljarð til þess að fjármagna sjóðinn. Og ég vil ítreka þá spurningu mína: Hvernig hyggjast menn gera það og er einhvers staðar ráð fyrir því gert í þeim gögnum sem við höfum séð hvernig það eigi að gerast?
    Varðandi ekkjulífeyrinn kom fram hjá ráðherra að líklegast væri atvinnuþátttaka ekkna um 40% og það segir mér mikla sögu vegna þess að atvinnuþátttaka giftra kvenna á Íslandi í dag er yfir 80%. Ef atvinnuþátttaka ekkna er ekki nema 40%, þá segir það auðvitað hver þörfin er á þessum ekkjulífeyri og hversu varlega menn verða að fara í því að skerða hann. Þessar konur eru ekki með sama hætti á vinnumarkaði og aðrar konur og auðvitað erum við alltaf að tala þarna um konur yfir fimmtugt því að þetta nær ekki til annarra.
    Ráðherra sagði líka hér áðan að það væri ekki verið að opna flóðgátt með breytingunni á almannatryggingalögunum þar sem veitt er reglugerðarheimild til þess að taka gjald þrátt fyrir sjúkratryggingu. Það kann vel að vera að það sé ekki ætlun ráðherra að opna neina flóðgátt og hann ætli sér ekki að gera annað en þetta. En menn hafa nú áður unnið mikinn skaða óvart og ég held að ráðherra ætti að átta sig á því að hann gæti einmitt unnið mikinn skaða á almannatryggingalöggjöfinni með því að opna þetta með þessum hætti þó að hann ætli sér ekki að nýta það og hafi gefið hér einhverjar yfirlýsingar um það.