Stjórn fiskveiða

55. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 17:30:10 (2578)

[17:30]
     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Sjútvrh. fór þess á leit við sjútvn. að hún stæði að flutningi máls sem fjallar um breyting á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Nefndin tók þetta frv. fyrir á fundi sínum í morgun og varð sammála um það að flytja þetta mál og ég vil leyfa mér fyrir hönd nefndarinnar að fylgja þessu máli úr hlaði með örfáum orðum.
    Á yfirstandandi síldarvertíð eru aflaheimildir samtals um 110 þúsund lestir. Er leyfður heildarafli á þessu fiskveiðiári 100 þúsund lestir en þar við bætast rúmlega 10 þúsund lesta aflaheimildir sem ekki nýttust af aflamarki síðasta fiskveiðiárs og flytjast því yfir á þetta ár. Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu hafði 95 þúsund lestum verið landað 9. þessa mánaðar, Samtök fiskvinnslustöðva áætla að til manneldisvinnslu hafi þegar farið samtals tæplega 35 þúsund lestir sem skiptast þannig að í söltun höfðu farið 19 þúsund lestir en tæpar 16 þúsund lestir í frystingu. Einungis eru óveiddar 15 þúsund lestir af aflaheimildum yfirstandandi vertíðar en Samtök fiskvinnslustöðva ætla að rúmar 16 þúsund lestir þurfi til að standa við þegar gerða samninga um sölu á frystri og saltaðri síld en auk þess eru taldar líkur á að frekari samningar geti tekist. Af framansögðu er ljóst að í nokkurt óefni horfir varðandi manneldisvinnslu á síld á yfirstandandi vertíð verði ekki gripið til sérstakra ráðstafana eins og hér er lagt til.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem stuðla ættu að því að takist að standa við gerða samninga. Er annars vegar lagt til að árlega verði hverju skipi heimilað að veiða allt að 5% umfram aflamark sitt hvert fiskveiðiár af síld enda dragist það frá aflamarki næsta fiskveiðiárs. Er þetta sama regla og gildir varðandi botnfiskveiðar. Með þessu gætu aflaheimildir á yfirstandandi vertíð aukist um allt að 5 þúsund lestir. Hins vegar er lagt til að til loka yfirstandandi síldarvertíðar verði einungis heimilt að stunda síldveiðar til manneldisvinnslu. Með því móti ættu milli 15 og 20 þúsund lestir af síld að vera til ráðstöfunar til frystingar og söltunar sem er nálægt því magni sem Samtök fiskvinnslustöðva telja til þurfa.
    Þess ber að geta að þegar liggur fyrir sjútvn. Alþingis þáltill. frá þeim Jóhanni Ársælssyni, Steingrími J. Sigfússyni og Ragnari Arnalds þar sem mælt er fyrir um að Alþingi skuli álykta um að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd til að móta stefnu um nýtingu síldarstofna við Ísland. Nefnd þeirri

er ætlað að gera tillögur sem miða að því að auka nýtingu síldar til manneldis og nýta betur þá möguleika til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar sem felast í veiðum og vinnslu síldar. Sú tillaga hefur þegar verið send til umsagnar til hagsmunaaðila og verður hún tekin til umfjöllunar í nefndinni þegar hún hefur störf á nýju ári.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, en þar sem þetta frv. er flutt af nefnd, þá legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr.