Stjórn fiskveiða

55. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 17:56:53 (2584)


[17:56]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. sjútvn. fyrir að hafa brugðist skjótt við í þessu efni og þingmönnum fyrir þá samstöðu sem virðist vera um að koma þessu máli fram. En eins og menn gera sér grein fyrir í ljósi eðlis þessarar atvinnugreinar þá skiptir miklu máli að afgreiðslan geti orðið skjót og þetta geti orðið að lögum í dag.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þau viðfangsefni sem hér eru til umfjöllunar. Þau eru um margt flókin og erfið úrlausnar. Það er almenn skoðun að miklu máli skipti að sem mest af síldinni fari til manneldisvinnslu því það gefur meiri virðisauka fyrir þjóðarbúið. En það er engan veginn svo að með einföldum hætti sé hægt að setja stjórnunarreglur sem tryggja að því markmiði verði náð. Þeir sem í atvinnugreininni starfa, bæði útvegsmenn og sjómenn og hins vegar kaupendur hráefnisins, eru þeirrar skoðunar að æskilegast sé að atvinnugreinin sjálf hafi sem mest frelsi í þessu efni og stýri málum á þann veg sem hagkvæmastur er fyrir þjóðarheildina. Ráðuneytið hefur fyrir sitt leyti reynt að stuðla að því að innan greinarinnar takist samstaða í þessu efni. Ráðuneytið beitti sér fyrir því að það var komið á fót samstarfsnefnd vinnsluaðila og hún hefur hist reglulega og með því móti hefur tekist að hafa veruleg áhrif. Við sjáum þess víða merki að menn hafa tekið af myndarskap á þessum málum. Ég nefni hér Eskifjörð, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjar og einnig Neskaupstað þar sem mjög myndarlega hefur verið tekið á þessum málum og verulegur hluti síldarinnar hefur farið í vinnslu.
    Í því nána samráði hagsmunaaðila og ráðuneytisins sem haft hefur verið á undanförnum vikum hafa ekki komið fram tillögur um að grípa inn í þróun mála fyrr en í gær að fulltrúar vinnsluaðila sneru sér til ráðuneytisins og óskuðu eftir því að það yrði gert til þess að tryggja sölusamninga og ákveðið var að verða við því með því að leita eftir þeirri samstöðu sem nú hefur orðið í hv. sjútvn.
    Það er nauðsynlegt, og ég tek undir það með þeim hv. þm. sem hér hafa talað, að skoða enn frekar hvernig þessum málum verður komið fyrir til frambúðar þannig að vaxandi hluti af síldinni fari til manneldisvinnslu og ráðuneytið mun fyrir sitt leyti í samráði við þá aðila sem hér hafa mestra hagsmuna að gæta vinna að slíkum hugmyndum. Og ég vona að þegar þar að kemur geti tekist góð samstaða um þá skipan mála hér í þinginu.