Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

57. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 18:18:38 (2586)


[18:18]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það fór nú svona líkt og ég spáði að ég mundi vita hvað hv. þm. mundi segja. Einkum kom það fram sem áður hafði komið fram að það væri verið að hrúga í bekki og þess háttar, en það kom eitt nýtt sem ég ekki áttaði mig á að mundi koma fram í ræðu hv. þm. og sem ég var mjög feginn að heyra. Það var spurningin um hvenær Alþingi fengi að fjalla um skólamál á jákvæðan hátt.
    Ég vona að það geti orðið alla vega á vorþinginu og ég vona sem fyrst eftir að þing kemur saman á nýju ári. Þá vona ég að við getum fjallað um ný frumvörp til grunnskólalaga og framhaldsskólalaga

og raunar leikskólalaga líka og ég trúi því og treysti að sú umræða verði jákvæð. Sannleikurinn er sá að það hefur nefnilega farið fram mjög jákvæð umræða um skólamál á undanförnum mánuðum og allt þetta ár frá því að áfangaskýrsla menntastefnunefndar eða 18 manna nefndarinnar kom út í janúarmánuði sl. Ég vænti þess að sú jákvæða umræða nái hér inn á hv. Alþingi þegar lokaskýrsla nefndarinnar hefur borist sem verður væntanlega nú fyrir jól, þá verður málið kynnt þeim fjölmörgu aðilum sem hlut eiga að máli og þeir eru margir.
    Hugmynd hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur um að kynna málið fyrir hv. menntmn. finnst mér allrar athygli verð. Ég held að það geti verið mjög gagnlegt að lokaskýrsla nefndarinnar verði kynnt sérstaklega fyrir menntmn. Ég held að það sé hið besta mál eins og lokaskýrslan verður kynnt fyrir samtökum, kennara, foreldra og fjölmörgum öðrum sem þarna eiga að koma að verki og þá er ég að tala um kynningu áður en frumvörpin verða fullfrágengin í ráðuneytinu. Ég mun taka það til sérstakrar athugunar og treysti því að jákvæð umræða komist hér inn á Alþingi líka eins og hún hefur verið að því er ég vil ætla úti í þjóðfélaginu.