Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

57. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 18:31:05 (2590)


[18:31]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs að nýju var sú ræða sem hæstv. menntmrh. flutti hér fyrr í dag, og ég vildi gjarnan að honum yrði gert viðvart. --- Hann er kominn þarna.
    Það er tæplega ástæða til að lengja þessa umræðu mikið meira en orðið er. Við munum taka þessi mál til athugunar í efh.- og viðskn. og þaðan verða hinir einstöku kaflar frv. væntanlega sendir til þeirra nefnda sem þeir heyra undir. En vegna þess hvernig hæstv. menntmrh. hagaði orðum sínum í dag, þá get ég ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um ræðu hans.
    Hæstv. menntmrh. spurði hvaða skaði væri skeður, hvaða voðaverk hefðu verið unnin. Og það er kannski mergurinn málsins að við þurfum að kanna áhrifin af aðgerðum eins og þeim sem gripið hefur verið til hér á undanförnum árum og á nú að fara að framlengja í þriðja sinn. Ástæðan fyrir því að okkur stjórnarandstæðingum er svo meinilla við þessar aðgerðir er auðvitað sú að við höfum áhyggur af þróuninni í grunnskólum landsins. Það er ekki af þeirri ástæðu einni að við séum að gagnrýna ríkisstjórnina, heldur er hér um viðkvæmar stofnanir að ræða, stofnanir sem eru undirstaða í okkar þjóðfélagi, stofnanir sem eiga að byggja upp fyrir framtíðina og þess vegna þarf að halda þar mjög vel á málum.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir spurði: Hvenær skyldi sá dagur koma sem við gætum átt hér jákvæðar umræður um skólamál í landinu? Vonandi gerist það fljótt því að skólamál eru afar spennandi málaflokkur, en aðgerðir hæstv. menntmrh. í því að láta endurskoða bæði lögin um grunnskóla og lögin um framhaldsskóla sýna auðvitað að honum fannst eitthvað vera að. Það var eitthvað að. Við vitum öll að það er ýmislegt að í okkar skólakerfi. Það skilar því miður ekki nógu góðum árangri og allar þær kannanir sem hafa verið gerðar á undanförnum árum á stöðu barna hér í okkar landi sýna að þar eru ýmis vond teikn á lofti.
    Við höfum séð kannanir um að það eru til hér því miður vegalaus börn, það eru vannærð börn, það eru börn sem búa við félagslega erfiðleika af ýmsu tagi og það er hópur barna sem á við námsörðugleika að stríða. Það er nú einu sinni svo að samfélagið allt ber ábyrgð á börnunum. Það er ekki einkamál foreldra hvernig búið er að börnum, sem betur fer því að því miður búa allt of mörg börn við of slæman aðbúnað og þar verður samfélagið að grípa inn í. Það bitnar á samfélaginu öllu ef illa er búið að börnum. Þarna kemur grunnskólinn auðvitað inn í á mjög afdrifaríkan hátt og reyndar framhaldsskólinn líka, þessi tvö skólastig skipta gríðarlega miklu máli og það skiptir miklu að í grunnskólunum sé hægt að fylgjast með vellíðan barna og að aðstoða þau og hjálpa þeim áfram til þroska sem er auðvitað eitt meginhlutverk skólans. Þess vegna er það gríðarlegt áhyggjuefni þegar kennslustundum er fækkað með þeim hætti sem gert hefur verið, þegar nemendum er fjölgað í bekkjum eins og gert hefur verið og þegar kennarar, hvort sem þeir hafa full réttindi eða eru leiðbeinendur, missa vinnu sína. Það er auðvitað rétt sem fram kom í máli hæstv. menntmrh. að sem betur fer hafa menntaðir kennarar snúið aftur til starfa í skólunum, fólk sem hafði áður verið úti á hinum almenna vinnumarkaði. En það breytir ekki því að samkvæmt tölum fjmrn. voru, svo að ég hafi það nú rétt, voru 79 kennarar á atvinnuleysisskrá á sl. ári og það er nokkuð stór hópur. Það er býsna stór hópur.
    Eins og ég nefndi tel ég að það sé ákaflega brýnt að kanna afleiðingarnar af þessum niðurskurði því að þetta er niðurskurður. Það kemur fram í frv. sjálfu að kennslustundafjöldinn er ekkert í líkingu við það sem ætti að vera að óbreyttum lögum. Nú hef ég ekki þessar tölur hérna með mér en ég nefndi þær í fyrri ræðu minni. Það kemur líka fram í svari frá menntmrn. um niðurskurð kennslustunda við fyrirspurn sem Svavar Gestsson lagði fram á síðasta þingi að þessi niðurskurður á kennslustundum er verulegur. Samkvæmt þessum upplýsingum á þskj. 225 frá 116. löggjafarþingi munaði hvorki meira né minna en 1.038 kennslustundum milli áranna 1991 og 1992. Niðurskurðurinn var upp á 1.038 kennslustundir. Og aðeins tveimur kennslustundum minna á Reykjanesi. Í þessum tveimur fræðsluumdæmum er að finna stærstu og fjölmennustu grunnskóla landsins þannig að ég held að við þurfum ekki að deila um það að þessi niðurskurður hefur átt sér stað. Deiluefnið snýst kannski um það hverjar eru afleiðingarnar. Er verið að skaða skólakerfið eða ekki? Ég er þeirrar skoðunar að þarna hafi verið unninn mikill skaði og hann felst kannski ekki síst í því óöryggi sem er skapað með þessum hætti. Þarna er á ferðinni nákvæmlega það sama og í heilbrigðiskerfinu að þegar fólki, sem vinnur í stofnunum sem eru sveltar, er gert að skera enn þá meira niður, þá skapar það óöryggi og vanda af ýmsu tagi.
    Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í grunnskólann, en það gildir það sama um annan þátt sem fléttaðist hér inn í umræðuna og er Lánasjóður ísl. námsmanna. Þar vantar okkur auðvitað könnun á því hvað hefur gerst í raun og veru. Það kemur fram í gögnum frá stjórn og framkvæmdastjóra lánasjóðsins sem hann lagði fram á fundi menntmn. nú fyrr í haust, eins og reyndar kom fram á fundi menntmrh., að lánþegum hefur fækkað verulega en námsmönnum hefur heldur fjölgað.
    Það kom fram hjá stjórnarmönnum LÍN að námsmönnum erlendis hefur fækkað nokkuð. En þá er spurningin sem vaknar: Hvernig fjármagna þeir nemendur sem ekki sækja um lánin, hefðu sótt um lán að óbreyttum lögum, hvernig fjármagna þeir sitt nám? Hverjir eru það sem eru að borga? Eru það foreldrarnir? Eru þessir nemendur að vinna með námi og ef þeir eru að vinna með námi, þá segir það mér að það mun taka þá lengri tíma að ljúka námi. Og hvað kostar það? Hvað kostar það t.d. í Háskóla Íslands? Það leiðir eitt af öðru og menn verða að horfa á afleiðingarnar. En vissulega hefur sá tilgangur náðst að skera niður fjárveitingar til sjóðsins og draga úr lánsþörfinni vegna þess að lánþegum hefur fækkað. Við höfum m.a. fengið dæmi um það frá fulltrúum námsmanna í stjórn lánasjóðsins sem hafa skoðað þessi mál niður í kjölinn að það hefur fækkað, það er einn hópur sem sker sig nokkuð úr og það eru einstæðar mæður. Einstæðum mæðrum hefur fækkað í hópi lántakenda og það hlýtur að ráðast af því að sá hópur sér væntanlega ekki fram á það að geta borgað þessi lán að námi loknu.
    Það kom líka fram á fundinum með fulltrúum lánasjóðsins, sem er afar athyglisverð staðreynd, að þeir búast við því að umsóknum fari að fjölga aftur. Það mátti auðvitað við því búast að fyrstu viðbrögðin yrðu nokkuð mikil og að umsóknum mundi fækka í kjölfar þeirrar miklu umræðu sem átti sér stað um lánasjóðinn, en það má líka búast við því að þau áhrif fjari út að einhverju leyti svo framarlega sem nemendur líta ekki þannig á að þeir geti ekki borgað þessi lán og það þýði ekki fyrir þá að taka lánin.
    Inn í þetta blandast líka spurning um hlutfall milli þeirra sem ljúka námi í framhaldsskólum og atvinnuleysið sem auðvitað leiðir það af sér að fólk fer þá heldur í skóla. En þessum spurningum þurfum við að fá svar við til að geta áttað okkur áhrifum þessara breytinga, en eins og ég sagði er alveg ljóst að lánþegum hefur fækkað, fjárþörf sjóðsins fer minnkandi, sérstaklega ríkishlutinn þó að það þurfi enn að taka mikil lán og það bæði lán á erlendum og innlendum markaði til þess að fjármagna afborganir eldri lána.
    Enn eitt atriði sem ég ætla að koma hér inn á vegna ræðu hæstv. menntmrh. er mál sem ég hef rifist mikið við hann um hér og það eru skólagjöldin, hin svokölluðu skólagjöld. Staðreyndin er sú að það er alveg greinilegt að við leggjum ekki sama skilning í orðið skólagjöld. Það sem ég á við þegar ég segi að skólagjöld hafi ekki tíðkast í íslensku skólakerfi þar til ríkisstjórninni tókst að knýja það í gegn í fyrra er það að hingað til hafa nemendur í ríkisskólunum, hvort sem við erum að tala um framhaldsskólana eða skóla á háskólastigi, ekki tekið þátt í rekstri skólanna nema með örfáum undantekningum sem ég hef reyndar ekki fundið. Ég hef ekki fundið þessar undantekningar því að þegar þetta mál var hér í undirbúningi, þá hringdum við nokkrir þingmenn í hvern einasta framhaldsskóla á landinu. Nú hristir hæstv. menntmrh. hausinn og þá kemur kannski að því hvaða skilning hann leggur í orðið rekstur, en eins og ég þekki þetta mál, þá var staðreyndin sú að það voru innheimt gjöld af nemendum sem fóru fyrst og fremst í félagsstörf nemenda. Það var tekin örlítil upphæð í pappírskostnað og síðan var það mjög algengt, ég veit ekki hvort það hefur breyst, að skólarnir lögðu til hliðar í sjóð til þess líka að styrkja félagsstörf nemenda af ýmsu tagi, leiksýningar, kóra og fleira slíkt. En beinn rekstur, þ.e. það að borga kennslu eða kaupa kennslutæki, fjármagna þrif eða annað slíkt, ég veit ekki til þess að nemendur hafi greitt það. Það eru þá nýjar upplýsingar fyrir mig ef svo hefur verið. ( Menntmrh.: Ég hef aldrei sagt að þeir hafi greitt kennslulaun.) Nei, það er spurningin hvað við eigum við með hugtakinu rekstur, en það sem gerðist í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á lögum um nokkra skóla er að nú eru innheimt gjöld að ákveðinni upphæð og skólanum er í rauninni gert að afla þessara gjalda. Og við höfum haft dæmi um það hér í þessari fjárlagaumræðu sem fjárln. reyndi að leiðrétta, og ég á reyndar eftir að fara ofan í og athuga hvort dugar, en það voru dæmi um það með Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu, að honum var gert að afla sértekna sem voru ekki í nokkru samræmi við nemendafjöldann í skólanum, ekki í nokkru samræmi ár eftir ár. En núna leiðrétti fjárln. þetta að hluta til og mér leikur hugur á að vita hvort hlutirnir séu með eitthvað svipuðum hætti og þar þó að ég hyggi að það hafi nú verið undantekning því að sá skóli var rekinn með lánum og yfirdrætti sem er náttúrlega aldeilis furðulegt í íslensku skólakerfi.
    En þarna hefur orðið breyting á og það sem er að gerast er að þarna er verið að opna fyrir þá leið að afla eða taka þjónustugjöld, sérgjöld af nemendum til þess að kosta skólastarfið. Við skulum bara nota orðið skólastarf sem er mjög vítt hugtak. Þeir hafa hingað til borgað sína eigin félagsstarfsemi og þeir hafa

lagt í sjóði til styrktar kórum og leikfélögum. Og eins og tíðkaðist í þeim skóla þar sem ég kenndi, þá var alltaf lögð til hliðar upphæð sem nam einum leikhúsmiða fyrir hvern nemanda til þess að tryggja það fyrir fram að allir kæmust a.m.k. einu sinni í leikhús. En það hefur ekki tíðkast svo mér sé kunnugt að gjöld frá nemendum hafi verið notuð í almennan rekstur skólanna. En hæstv. menntmrh. getur kannski skýrt það betur hér hvað þarna er á ferðinni. Ég hef ekki tíma til að fara að rekja dæmið um Háskóla Íslands þar sem tekin var upphæð af nemendum sem dugði ekki einu sinni fyrir þeim pappírum sem nemendur fengu. Ef ég man rétt voru það 2.000 eða 2.700 kr. áður en skólagjöldin voru hækkuð upp í 17 þús. kr. En það sem áður var inni dugði ekki einu sinni fyrir þessum pappírum, þ.e. kennsluskrá, háskólapassa og ýmsu sem þeir fengu og var þá hreint og klárt pappírsgjald.
    Tækniskólinn kemur inn í þetta dæmi og ég ætla ekki að fara að rekja það aftur en vil hins vegar nota tækifærið og spyrja hæstv. menntmrh. hvernig á því stendur að fjárframlög til Tækniskólans eru skorin allverulega niður í fjárlagafrv., meira en til annarra skóla. Það segir í greinargerð fjárlagafrv. að hann eigi að ná þessum sparnaði með niðurskurði á kennslu. Ég hef heyrt það úr Tækniskólanum og þar eigi menn ekki annarra kosta völ en einfaldlega að fækka nemendum. Þeir munu bregðast við þessu með því að fækka nemendum. Og það tel ég ekki vera góðan kost ef við tökum mið af því hvernig tæknimenntun er háttað hér á landi og hvílík gífurleg þörf er á því að efla tækni- og verkmenntun.
    Það vakti athygli mína í ræðu hæstv. menntmrh. þar sem hann var að fjalla um þennan 100 millj. kr. sparnað sem á að nást á fræðsluskrifstofunum og fleiri liðum. Hann nefndi þar safnlið og mér þætti afar fróðlegt að vita hvernig fræðsluskrifstofurnar eiga að ná þessu því að ég veit ekki betur en að þær séu sveltar líka eins og aðrar stofnanir menntakerfisins.
    Að lokum, virðulegi forseti, ætla ég aðeins að nefna skólamáltíðirnar sem að mínum dómi er afar brýnt mál að komist á. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, þá skil ég ekki hvers vegna löggjafinn, meiri hluti Alþingis getur ekki einfaldlega gefið sveitarstjórnunum frelsi til þess að ráða því hvort komið verður á skólamáltíðum eða ekki. Það hefði verið langeinfaldast því að ríkið ber ekki af þessu kostnað. Ríkið ber ekki kostnað af skólamáltíðunum heldur sveitarfélögin og þar af leiðandi væri einfaldast bara að gefa þeim frelsi og vera ekki að nema þetta lagaákvæði úr gildi með þeim hætti sem gert er. Við hefðum frekar átt að breyta lagaákvæðinu og gefa sveitarfélögunum frelsi vegna þess að það sem gildir er að löggjafinn lýsi yfir þeim vilja sínum að skólamáltíðum sé komið á, það sé eitt af þeim markmiðum sem við eigum að setja okkur hér í skólamálum að börn fái mat í skólunum og það sé þannig tryggt að hér séu ekki vannærð börn í grunnskólum landsins eins og því miður eru dæmi um. Og ég vil leggja það til við hæstv. menntmrh. að við sameinumst um að breyta þessu og gefa sveitarfélögunum frelsi.