Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

57. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 18:57:13 (2592)


[18:57]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka landbrh. fyrir þær upplýsingar sem hann hefur veitt, en ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að varpa því fram hér hvort það hefði ekki verið útgjaldalaust af hálfu ríkisstjórnarinnar að láta nefndir þingsins fylgjast með framvindu málsins. Það vekur alltaf tortryggni, þessi háttur sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur á, að láta helst ekki vita um nokkra svona hluti fyrr en þá eftir á og það er að mínu mati óskiljanlegt hvernig á því stendur að ríkisstjórnin kýs ekki að hafa í svo veigamiklum málum nánara samstarf við nefndir þingsins, landbn. og utanrmn. En yfirleitt ganga hlutirnir þannig fyrir sig og hafa gert í haust að við þingmenn í viðkomandi nefndum erum að frétta af breytingum og vendingum í málinu utan að okkur og það kann ekki góðri lukku að stýra að mínu mati.