Heilbrigðisþjónusta

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 13:47:54 (2607)


[13:47]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin. Í sjálfu sér svaraði hann öllum þessum spurningum í einu svari. Það er ætlun hæstv. ráðherra að koma hér fram frv. á vorþinginu um Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Það tel ég vera mjög mikilvægt og það er auðvitað mjög mikilvægt líka að hægt sé að skapa um það góða samstöðu og ef að því er unnið þá er það auðvitað afskaplega gott. En ég legg þó áherslu á að það væri mikilivægt að hv. heilbr.- og trn. væri höfð með í ráðum í þeim efnum, þannig að málið mundi vinnast fyrr og betur þegar kæmi síðan til kasta nefndarinnar, en því yrði ekki hent þar inn á síðustu stundu og síðustu dögum og ætlast til þess að málið fengi framgang í þinginu, en um það væru kannski átök, jafnvel í nefndinni. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að starfsemi læknavaktarinnar, sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga og sjálfstætt starfandi heimilislækna í Reykjavík er málinu mjög tengd og rétt væri að skoða það í því samhengi og ég fagna því að það skuli eiga að gera.