Sjálfbær atvinnuþróun í Mývatnssveit

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 13:57:31 (2609)


[13:57]

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það er eflaust rétt að umhvn. hafi fjallað mikið um þetta mál. Hins vegar set ég ákveðið spurningarmerki við það hvort málið er þess eðlis að það sé rétt að renna því í gegn með flutningi nefndar. Það er verið að fjalla þarna um stórt mál, það er verið að fjalla um búsetuskilyrði og búsetugrundvöll 500 manna byggðar. Ég leyfi mér að spyrja hv. framsögumann hvort málið verði þá ekkert sent út til umsagnar til að mynda til sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi og fleiri hagsmunasamtaka?
    Það er alveg rétt sem kemur fram í greinargerð með þessari tillögu og ég ætla að lesa hér, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi hefur tekið ákvarðanir um lögverndun á náttúru svæðisins en íslenska ríkið hefur einnig átt aðild að uppbyggingu atvinnufyrirtækja þar síðustu áratugi, einkum Kísiliðjunnar og Kröfluvirkjunar.``
    Það má með sanni segja að með þessum ákvörðunum hafi Alþingi og ríkisvald tekið nokkra ábyrgð á þeirri byggð sem þarna hefur vaxið upp í skjóli þessara fyrirtækja og menn verði að skoða þetta mál í því ljósi. Það hafa oft verið heitar umræður um Mývatnssveit og sérstaklega áhrif Kísiliðjunnar á lífríkið við Mývatn. Það hafa verið gerðar skýrslur, fleiri en ein og fleiri en tvær. Gallinn við þá skýrslugerð er sá, að mínu mati, að það er svo erfitt með samanburðinn þar sem við höfum ekki rannsóknaniðurstöður og mælingar nema frá til þess að gera skömmum tíma. Mér fannst hins vegar afar merkileg sú meginniðurstaða sem var í skýrslunni sem kom út á síðasta ári sem sagði, á nokkuð trúverðugan hátt, að það væri sáralítið samhengi á milli þess sem gerðist í Ytriflóa og Syðriflóa. Það kollvarpaði í raun mörgu af því sem haldið hefur verið fram um áhrif Kísiliðjunnar á vatnið og lífríki þess, svo maður tali nú ekki um þann mikla silungsafla sem fékkst úr vatninu í sumar. Hann er þá kannski Kísiliðjunni að þakka, ég veit það ekki, af því að sá litli afli á árunum á undan var Kísiliðjunni að kenna. Ég er ekki að segja að þetta sé svona, en þetta kannski segir okkur hvað við vitum lítið um þetta enn þá og kannski segir það okkur enn þá fremur að þarna eru geysilega stórir þættir sem hafa áhrif á lífríkið og koma í sjálfu sér mannabúsetu á svæðinu lítið við. Þar eru afar stórir hlutir eins og landrisið í kjölfar Kröfluelda, vatn sem rennur í vatnið hefur hitnað mjög mikið og svo mætti lengi telja. Ég vil hins vegar varpa því fram til nefndarmanna þegar þeir tala um að efla atvinnulíf í Mývatnssveit sem byggi á sjálfbærri þróun --- og nú bið ég hv. framsögumann að hlusta. Ég vil varpa því fram hvort ekki sé hægt að líta svo á að kísilnám úr vatninu, ef það fer eftir ströngum reglum, hvort ekki megi líta á það sem hlut af sjálfbærri þróun, að þar séum við í raun að nýta auðlindir, endurnýjanlega auðlind, en að vísu um einhvern tíma, því þarna má náttúrlega ekki ganga of nærri. En þessu vil ég varpa hér fram og það er mín skoðun að fyrst Alþingi og stjórnvöld leyfðu þennan rekstur þarna þá beri þeim að að leita allra leiða þannig að hann geti þrifist áfram, án þess að lífríkið beri tjón af og hann geti þróast við hliðina á öðru atvinnulífi og annarri starfsemi í Mývatnssveit.