Landbúnaðarþáttur GATT-samkomulagsins

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 15:24:55 (2630)


[15:24]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það sem hér er að gerast með aðild Ísland að Úrúgvæ-lotu GATT-samkomulagsins og með aðild Íslands að EES er að verið er að rífa niður síðustu leyfarnar af haftamúrunum sem komið var upp í kringum þetta land á kreppuárunum. Við erum loksins að segja skilið við kreppuárin. Það er verið að ljúka því verki sem viðreisnarstjórnin hóf á sinni tíð. Það hefur verið hörð og erfið barátta og menn hafa þurft að etja öll þessi ár kappi við sömu aðila, eins og menn gera nú.
    Í þessu sambandi vil ég aðeins taka fram að það voru auk Íslands, Japan, Suður-Kórea, Kanada, Noregur og Sviss sem gerðu kröfur um magntakmarkanir. Önnur aðildarríki að GATT-samningnum hafa mótmælt því, enda er slíkt í ósamræmi við drögin að lokaskjali viðræðnanna og þeim megintilgangi landbúnaðarþáttarins að breyta öllum magntakmörkunum í tolla. Það var um tvo valkosti að velja. Annars vegar tímabundin heimild í sex ár til magntakmörkunar, en í staðinn fyrir þá tímabundnu heimild hefði orðið að auka lágmarksaðgengi fyrir sömu vörur og tímabundinnar magntakmörkunar er krafist fyrir, sem samsvarar um 4% í innanlandsneyslu við gildistöku samningsins og 8% eftir sex ár. Þetta var sá valkostur sem t.d. Japan valdi. Í umræðum í norska þinginu þann 6. þessa mánaðar kom fram frá norsku ríkisstjórninni að þessi leið mundi ekki henta Norðmönnum, þannig að þeir mundu ekki velja japönsku leiðina. Norðmenn og Íslendingar hafa orðið samstiga í þessum málum vegna þess að af þeim tveimur kostum sem stóðu til boða var valinn af hálfu norsku og íslensku ríkisstjórnarinnar sá kostur sem var betri fyrir norsku þjóðina og fyrir íslensku þjóðina. Ég held að menn ættu frekar en gagnrýna hæstv. landbrh. og ríkisstjórn fyrir þessa afstöðu að fagna því að nú erum við loksins að kveðja kreppuárin.