Landbúnaðarþáttur GATT-samkomulagsins

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 15:27:18 (2631)


[15:27]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. GATT-samningurinn er slíkur alvörusamningur fyrir íslenskan landbúnað að bæði búgreinin og ekki síður iðnaðurinn hlýtur að krefjast þess að ríkisstjórnin marki skýra stefnu um það hvernig málum verður háttað. Nú blasa þær staðreyndir við að Íslendingar eru fallnir frá öllum sínum kröfum um magntakmarkanir o.fl. Hæstv. utanrrh. hefur staðið við það fyrirheit sitt að hafa það nú í hendi sinni að brjóta niður íslenskan landbúnað. Full ástæða er til að Alþingi skipi nefnd til að yfirfara vinnubrögð hæstv. utanrrh. í þessari samningagerð. Hagsmunir bænda, iðnaðarfólks og afurðastöðva og íslensku þjóðarinnar til lengri tíma litið hafa verið fyrir borð bornir. Lágmarksaðgangur upp á 3--5% án tolla er sýnishorn þess hvert stórveldin ætla í verðlagningu á landbúnaðarafurðum. Hitt er stórmál að erlendar þjóðir munu keppa við okkur áfram með ríkisstyrkjum í formi útflutningsuppbóta.
    Sá sem trúir á jöfnunartolla sem vörn er haldinn villutrú. 400% tollur í upphafi fer á 6 árum í 256% og vegferðinni er ekki lokið. Þessi fallöxi eða þumalskrúfa mun reynast öllum norrænum landbúnaði erfið. Fatnaður Íslendinga er nú saumaður í Austur-Asíu, matvaran kemur kannski frá Bandaríkjunum, níu af hverjum tíu dönskum ,,bissnissmönnum`` eru að selja danska framleiðslu um allan heim. Níu af hverjum tíu íslenskum ,,bissnissmönnum`` eru að kaupa umboð og erlenda vöru til Íslands til að æra og færa út vegi ,,íslenskt já takk``. Ömurlegt er hlutverk hæstv. landbrh. í kolalestinni á skútu hæstv. utanrrh. sem er að gefa útlendingum íslenskan matvælamarkað og brjóta niður íslenskan landbúnað.
    Nú er svo komið, hæstv. forseti, að við getum hvorki treyst hæstv. utanrrh. eða landbrh. að fara með þessi mál áfram og verðum að gera þá kröfu til hæstv. forsrh. að hann fari yfir afleiðingar þessarar samningsgerðar og horft verði fram til næstu tíu ára og Alþingi og ríkisstjórn segi til um hvernig skuli staðið að hvað framtíðina varðar.