Landbúnaðarþáttur GATT-samkomulagsins

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 15:40:56 (2637)


[15:40]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þessar umræður eru fyrir margra hluta sakir athyglisverðar. Í fyrsta lagi er nú það að það virðist mikill meiri hluti þeirra þingmanna sem hér tóku til máls telja að ríkisstjórnin hefði átt að standa við kröfuna um magntakmarkanirnar og fara sömu leið og Suður-Kóreumenn og samþykkja þess í stað 4--8% lágmarksaðgang af mjólkurvörum og soðnum kjötvörum sem ég segi að hefði orðið skaðlegra fyrir landbúnaðinn en sú leið sem ríkisstjórnin hefur farið og ég hygg að sé full samstaða við bændasamtökin um að farin sé, eins og raunar hefur komið fram í hér í stólnum. Þetta kemur mér því mjög mikið á óvart nema þessir þingmenn sem hér hafa tekið til máls --- allir þingmenn Framsfl. utan einn, þingmenn Kvennalista og Alþb. --- nema þeir séu þeirrar skoðunar að við getum einir allra þjóða hér á Vesturlöndum staðið utan við GATT-samningana. Staðið þar utan eins og þurs úr fornöldinni. Auðvitað gátum við það ekki. Auðvitað vorum við með því að kasta íslenskum hagsmunum á glæ og það hefur glöggt komið fram á fundum sem ég hef átt með bændum víðs vegar um landið að það finnst varla sá bóndi sem hefur tekið til máls á slíkum fundum sem heldur því fram að við eigum að reyna að draga okkur út úr alþjóðlegu samstarfi.
    Ég vil í annan stað taka fram að ég sýndi fram á og rakti þá skýrslu sem Þjóðhagsstofnun hefur gert um þessi mál. Þar kemur skýrt fram það sama og Jóhannes Geir Sigurgeirsson, hv. þm. Framsfl. á Norðurl. e., sagði að framtíðin veltur á því hvernig við Íslendingar sjálfir stöndum að þessu þessu máli. Ég er fullkomlega sammála hv. þm. Jóhannesi Geir um þessi efni. Ég vil líka segja frá því að ég hef rætt það við formann Stéttarsambands bænda að óhjákvæmilegt sé fyrir okkur að bera saman bækur okkar og reyna að átta okkur á því hvernig við bregðumst við þeirri samkeppni sem óhjákvæmileg er.