Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

60. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 16:21:51 (2644)


[16:21]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir og er til umræðu gerir ráð fyrir því að Hollustuvernd ríkisins verði nú að öllu leyti flutt frá heilbrrn. yfir til umhvrn. Á sínum tíma þegar sú ákvörðun var tekin að flytja aðeins eitt svið þessarar stofnunar, þ.e. mengunarvarnasviðið, frá heilbrrn. yfir til umhvrn., þá fannst mönnum ekki rétt á þeirri stundu að flytja þá hluti er tengjast heilbrigðiseftirlitinu og eiturefnasviðinu yfir til umhvrn. Nú hefur hins vegar nokkur tími liðið og að mínu viti er komin reynsla á þá starfsemi sem fluttist á sínum tíma frá Hollustuverndinni yfir í umhvrn. og ég tel að það hafi verið af hinu góða.
    Þeir hlutir sem eftir voru skildir í heilbrrn. sneru fyrst og fremst að matvælunum og mönnum fannst það vera eðlilegt að þeir hlutir yrðu áfram í því ráðuneyti. Ég skal viðurkenna að ég hafði efasemdir um að það væri skynsamlegt að skipta þessari stofnun upp í þessa tvo hluta eða færa hluta af henni undir umhvrn. og skilja hluta af henni eftir í heilbrrn. Hættan er auðvitað sú að þegar slíkt gerist heyrir stofnunin í raun og veru undir tvö ráðuneyti og í þessu tilfelli eftir því sem ég veit best heyrir hún fjármálalega séð og þeir hlutir sem snúa að heilbrigðiseftirlitinu og matvælunum sérstaklega undir heilbrrn. En svo mengunardeildin undir umhvrn. En á sama tíma og stofnunin heyrir fjárhagslega undir heilbrrn. þá getur hitt ráðuneytið, umhvrn., verið að gera sífellt auknar kröfur til þess að stofnunin taki á sig aukin verkefni en þau auknu verkefni þýða vaxandi útgjöld fyrir stofnunina. Ég er því þeirrar skoðunar að það geti verið skynsamlegt og sé ekki verið að taka mikla áhættu með því að færa stofnunina að öllu leyti undir umhvrn. af þessari ástæðu og það hlýtur að vera bæði fyrir þá sem í stofnuninni starfa og eins fyrir þau ráðuneyti sem um stofnun eiga að fjalla mjög erfitt þegar slík stjórnunarleg vandamál standa fyrir dyrum og eru auðvitað sífellt að koma upp.
    Staðreyndin er hins vegar sú að matvælaeftirlit almennt hygg ég að heyri undir heilbrrn. í löndunum hér í kringum okkur þannig að við erum að vissu leyti að stíga alveg sérstætt skref og það er ekki reynsla fyrir því annars staðar til hvers þetta muni leiða en samt held ég að við séum ekki að taka óskaplega mikla áhættu í þessum efnum, burt séð frá því hvaða ráðherra sé í viðkomandi ráðuneyti hverju sinni. Þessi stofnun hefur í gegnum tíðina unnið afskaplega faglega. Ég minnist þess um tíma er ég hafði samskipti við hana er ég var starfsmaður heilbrrn. Hún er að mörgu leyti mjög sjálfstæð og ég treysti þeim

mönnum sem þar eru fullkomlega til þess að geta haldið áfram að reka stofnunina með sjálfstæðum hætti og vinna faglega. Það er auðvitað það sem skiptir höfuðmáli.
    Þegar maður hins vegar lítur á einstakar greinar þessa frv. og hv. 15. þm. Reykv., Kristín Einarsdóttir, benti á að um 1. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hér er gerð sú breyting að í stað heilbr.- og trn. og umhvrn. að því er mengunarvarnir varðar komi eingöngu umhvrn. Þá er fellt niður hlutverk landlæknis um að vera ráðgjafi ráðherra og ríkisstjórnar um allt sem lýtur að hollustuháttum og heilbrigðiseftirliti. Þykir það óþarfi eftir að málasviðið heyrir ekki lengur undir heilbr.- og trmrn.``
    Nú verða menn að líta til þess hvert er hlutverk hv. landlæknis. Hans hlutverk er það að vera ráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar á þessu sviði. Hafi menn í hyggju að afnema þetta hlutverk landlæknis þá verður það ekki gert einvörðungu með því að breyta þessum lögum vegna þess að í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990, í 3. gr. 4. tölul., er gert ráð fyrir því að landlæknir annist einmitt þetta eftirlit með hollustuháttum og heilbrigðiseftirliti þannig að ef það er meiningin að taka þetta hlutverk af landlæknisembættinu, þá þurfa menn auðvitað að breyta heilbrigðisþjónustulögunum líka.
    Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi ekki að gera. Landlæknir á áfram að vera þessi umsagnaraðili, þessi ráðgjafi ríkisstjórnarinnar og ég býst fastlega við því að hæstv. umhvrh., eftir að hann fær þessa stofnun til sín, ætli áfram að vera í ríkisstjórninni þannig að landlæknir getur jafnt eftir sem áður verið ráðgjafi eins og hann er ríkisstjórnarinnar og ráðherra hvort sem það er þá umhvrh. eða heilbrrh. þannig að ég tel það rangt að fara þá leið að breyta þessu ákvæði.
    Eins er í reglugerð nr. 411/1973, í 4. gr., þetta hlutverk landlæknisembættisins skilgreint einmitt með nákvæmlega sama hætti þannig að ef meiningin er sú að gera þessar breytingar eins og boðað er í 1. gr., að taka landlæknisembættið algerlega út úr þessu, þá þarf að breyta fleiri lögum til þess að það sé fullnægjandi.
    Hins vegar er það nú svo, virðulegi forseti, að það er kannski ekki þessi stofnun sem menn áttu von á að fyrst yrði flutt úr einu ráðuneyti í annað. Og af því að hæstv. forsrh. mælti fyrir þessu máli hér, þá átti ég nú kannski von á því að hæstv. forsrh. hefði fyrr mælt fyrir frv. sem gerði ráð fyrir því að Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins yrðu flutt yfir í umhvrn. frá landbrn. eins og samið var um í Viðey á sínum tíma en fljótlega eftir að ríkisstjórnin tók til starfa kom það í ljós að formenn Alþfl. og Sjálfstfl. höfðu einmitt samið um þessa hluti úti í Viðey. En nú er spurningin: Var á sínum tíma samið um þennan tilflutning einnig? Um leið spyr ég hæstv. ráðherra hvenær búast megi við því að hæstv. forsrh. mæli fyrir þessu máli hér í þingsölum að Skógræktin og Landgræðsla ríkisins verði flutt frá landbrn. yfir í umhvrn. eins og staðfest hefur verið bæði af hæstv. forsrh. og utanrrh. að samið hafi verið um.