Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

60. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 16:29:40 (2645)


[16:29]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja mjög þessa 1. umr. um frv. til laga um breytingar á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit með því að fara í mikla efnislega umræðu. Hv. 15. þm. Reykv., Kristín Einarsdóttir, hefur gert ágætlega grein fyrir ýmsum efasemdum sem maður hlýtur að hafa um ágæti þessa máls. Ég ætla hins vegar a.m.k. til að byrja með að gera ákveðnar athugasemdir við það að þetta mál skuli komið fram hér í þinginu þegar samkvæmt plani yfir þingstörf eru einungis 4 eða 5 þingdagar eftir, þá er komið með þetta mál inn í þingið til 1. umr. og samkvæmt 5. gr. frv. er gert ráð fyrir því að þessi lög öðlist gildi 1. jan. 1994, þ.e. það verði gengið frá þessu máli á þessum dögum sem eftir eru af þingtímanum. Ég hef stundum furðað mig á störfum þingsins en ekki minnkar undrun mín við að sjá svona mál dúkka hér skyndilega upp rétt fyrir jólafrí. Manni dettur stundum í hug að ráðherrar fari í einhvers konar jólahreingerningu og finni eitthvað í skúffunum sínum sem þeim dettur í hug . . .  ( Gripið fram í: Þeir fara það.) Þeir fara það segir einn reyndur þingmaður mér til upplýsingar. Mér datt þetta í hug. Það dúkka stundum upp hin furðulegustu mál rétt fyrir jólafrí eða rétt fyrir þinglok á vorin. Það er eins og menn vakni allt í einu upp við vondan draum og muni eftir því að þeir eigi einhvers staðar einhver verk óunnin eða einhverja hreingerningu ókláraða og drífi málið svo hér inn í þingið.
    Nú er ekki svo að skilja að þetta sé eitthvert brýnt mál ef svo má segja vegna þess að þessi mál, sem hér eru komin inn, voru í rauninni rædd þegar árið 1990 þegar umhvrn. var stofnað þannig að þetta er ekki í sjálfu sér alveg nýtt mál sem þurfi að koma í slíku hasti inn í þingið og hefði verið hægt að leggja fram ef menn hefðu þessar skoðanir strax í haust og við hefðum getað fjallað um þetta í nefndum þingsins með sæmilegum hætti. Ég geri alla fyrirvara á því að það sé nokkur leið að afgreiða þetta mál hér fyrir jólaleyfi. Og þá vil ég líka að það komi fram áður en lengra er haldið að mér finnst dálítið sérkennilegt að forsrh. skuli leggja það til að málið fari til allshn. Hann réttlætti það með því að þetta væri svona stjórnskipulegt atriði sem þarna væri á ferðinni en ekkert annað og því eðlilegt að þetta færi til allshn. Mér

finnst það orka mjög tvímælis og ég vil vitna til þess að í 23. gr. þingskapa segir, með leyfi forseta:
    ,,Vísa skal frumvörpum, þingsályktunartillögum og skýrslum til nefnda eftir efni þeirra og hafa um það hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu.``
    Hér er um að ræða lög sem efni samkvæmt heyra undir heilbr.- og trn. þingsins og mér finnst að þar hefðu þau átt að fara til umfjöllunar vegna þess að hérna er ekki einungis verið að leggja til breytingu á stjórnarráðslögum eða einhverju slíku heldur efnisbreytingu í rauninni með því að flytja málaflokkinn út úr heilbrrn. yfir í umhvrn. og mér finnst lagabálkurinn eðli mála samkvæmt heyra undir heilbr.- og trn. þingsins og þar hefði þetta átt að koma til umfjöllunar og eðlilegt auðvitað að sú nefnd fjalli síðan um málið í samræmi við umhvn. Ég vil gera þessa athugasemd við að þetta sé sent til allshn. og vil gjarnan fá á því aðeins betri útskýringu af hverju sá háttur er hafður á.
    Rökin hjá hæstv. forsrh. voru aðallega þau að þetta frv., ef það næði fram að ganga, mundi tryggja markvissari stjórnun á málaflokknum. Ég er ekkert viss um að það geri það. Ég get séð að þetta frv. geti vissulega leyst ákveðinn stjórnunarlegan vanda sem var lýst hérna af 11. þm. Reykv., þ.e. það skapar ákveðinn vanda inni í hollustuverndinni eða í málaflokknum að hann heyri undir tvö ráðuneyti. En ég held að um leið og menn leysa þennan stjórnunarlega vanda, þá sé hugsanlegt að þeir auki á þann faglega vanda sem við er að etja vegna þess að þarna er alveg klárlega um að ræða heilbrigðismál annars vegar sem eru mjög viðamikill þáttur í þessum lögum og starfsemi stofnunarinnar og hins vegar um umhverfismál sem koma þá aðallega til vegna mengunarþáttar þessa málaflokks.
    Hér hefur aðeins verið t.d. bent á það hvernig heilbrigðismálin koma skýrt inn í þennan málaflokk og við getum nefnt hér sem dæmi að það er gert ráð fyrir því að það sé sett heilbrigðisreglugerð og í heilbrigðisreglugerð er aðallega verið að fjalla um hreinlæti og þrifnað, um matvælaeftirlit, um efna- og gerlafræðilegar rannsóknir á matvælum og það kom reyndar fram hér í máli forsrh. að rannsóknastofnun Hollustuverndarinnar væri aðallega að fást við matvælaeftirlitið. Þá er þarna um að ræða eftirlit með ýmsum stofnunum og hreinlæti þar og mér finnst svona ýmislegt í þessu alls ekki liggja beint við að eigi að vera undir yfirstjórn umhvrn. Ég vil því slá ýmsa varnagla og hafa allan vara á um það að hægt sé að afgreiða þetta mál í einhverjum flýti og vil eindregið óskað eftir því að þetta mál komi til umfjöllunar inn í heilbr.- og trn. þingsins því að þar finnst mér það eiga heima en ekki inni í allshn.