Fjárlög 1994

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 13:46:40 (2671)

[13:46]
     Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Sem eiginlega núverandi oddviti meiri hlutans í efh.- og viðskn. vil ég gjarnan leggja orð í belg í þessari umræðu. Ástæðan fyrir því að við getum ekki hafið eða lokið umfjöllun í efh.- og viðskn. um tekjuhliðina er auðvitað sú að við erum með mjög stór frumvörp, skattafrumvörp bæði sveitarfélaga og ríkisins, til umfjöllunar í félmn. og efh.- og viðskn. Við erum að ljúka þeirri umfjöllun þannig að það sé alveg klárt hvar við stöndum í þessum efnum þegar við afgreiðum umsögn okkar til fjárln.
    Í morgun var afgreidd úr félmn. frv. um tekjustofna sveitarfélaga. Það mál liggur alveg ljóst fyrir. Það tengist afgreiðslu skattabandormsins eðlilega. Við erum búin að vinna mjög vel og ég vil endilega að það komi fram hér að það hefur verið haldið vel á málum í efh.- og viðskn. undir stjórn nýkjörins formanns. Það er búið að fá fjölda manns á fund nefndarinnar og síðast í gær fengum við til viðræðu fulltrúa vinnumarkaðarins út af tillögum minni hlutans. Við erum að ljúka umfjöllun í dag og ég tel að þegar þeirri umfjöllun sem við höfum verið að vinna er lokið, afgreiðslu okkar á þessum tekjufrumvörpum sem við höfum til umfjöllunar og afgreiðslu, þá verðum við ekki lengi að fara yfir sjálfa umsögnin um tekjugreinina sem okkur er ætlað.