Fjárlög 1994

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 13:48:28 (2672)


[13:48]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt ekki verra en annað að taka hér nokkrar mínútur í að skýra aðeins stöðu þessara mála og furðu borubrattur fannst mér nú hv. formaður fjárln. vera að telja stöðuna bara allgóða. Ég held að rétt sé að leggja áherslu á að það er ekki bara við það að eiga að þessi stóru mál hæstv. ríkisstjórnar séu seint fram komin. Það eru þau sannarlega. Þetta er í öðru lagi óhjákvæmileg afleiðing af því að málin eru flutt af hæstv. ríkisstjórn í formi mikilla bandorma sem lenda síðan hjá einni og sömu nefndinni og þar með er að hluta til færð undir efh.- og viðskn. mál sem ella mundu, ef þau væru flutt í sérfrumvörpum, lenda hjá fleiri fagnefndum í þinginu og vinnan þannig dreifast á fleiri hendur. Þetta hlýtur að leiða til þess að þarna myndast stífla eða það safnast upp mál þegar verkefnunum er öllum hlaðið á eina nefnd eins og er óhjákvæmilega afleiðing af þessari bandormagerð hæstv. ríkisstjórnar.
    Í þriðja lagi og það skiptir ekki minnstu máli, þá er ekki einungis við það að eiga að hæstv. ríkisstjórn komi málunum beint frá sér inn í þingið, heldur er ríkisstjórnin ekki búin að ná efnislegri samstöðu um þau mál. Það er auðvitað það sem stendur á sólarhring eftir sólarhring að ríkisstjórnarliðið hefur ekki endanlega komið sér niður á afstöðu til veigamikilla atriða í sínum eigin frumvörpum. Ég hygg að talsmenn meiri hlutans í efh.- og viðskn. geti m.a. staðfest þetta. Það er auðvitað lítið við því að gera þegar hver sólarhringurinn á fætur öðrum líður við það að ekki er hægt að afgreiða málin út vegna þess að það vantar ákvarðanir um meiri háttar pólitísk álitamál.
    Ég vil svo, hæstv. forseti, einnig vekja athygli á því, þó í raun sé leiðinlegt að þurfa að gera það, að það flýtir ekki fyrir okkar vinnu að miklar fjarverur áhrifamikilla manna í þessu starfi skuli bætast við og jafnvel utanstefnur í stórum stíl. Það er auðvitað ekki til hagræðis að þeir sem hafa verið að leiða starfið að hluta til skuli svo jafnvel vera erlendis sólarhringum saman þegar komið er á lokasprettinn. Ég held að það ætti að vera forustumönnum flokkanna og þingsins til umhugsunar hvort ekki þurfi að reyna að skipuleggja störfin þessa síðustu þingdaga öðruvísi ef það á að vera nokkur von til þess að tímaáætlun þingsins standist og við komumst með eðlilegum hætti í jólafrí, þó það sé kannski ekki aðaláhyggjuefnið, heldur hitt að þessi mál fái eðlilega umfjöllun og vandaða vinnu.
    Hæstv. forseti. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því, og kannski í ríkara mæli en oftast áður, að við erum að súpa seyðið af óskipulögðum vinnubrögðum sem geta ekki haft annað í för með sér heldur en stöðu sem þessa og þá verða menn auðvitað að bjarga því sem bjargað verður í þeim efnum. En ég tel að það sé a.m.k. rétt, og ég kom meðal annars hingað til að taka undir það með formanni efh.- og viðskn., að það er ekki við slæleg vinnubrögð í nefndinni að sakast og aðrir nefndarformenn ættu að hafa það í huga.