Almannatryggingar

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 14:45:24 (2678)


[14:45]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Finnur Ingólfsson hefur farið yfir þær breytingartillögur sem við minnihlutamenn gerum í hv. heilbr.- og trn. Ég ætla ekki að gera það að löngu umræðuefni heldur vil ég sérstaklega þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að taka jákvætt í flestar þær breytingartillögur sem hér voru fluttar. Sérstaklega er það ánægjuefni ef endurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar í heild verður að veruleika á næsta ári því eins og fram hefur komið þá er þetta yfir 20 ára gömul löggjöf. Það eru yfir 70 breytingar sem búið er að gera á henni. Þannig að það er full ástæða til að gera heildarúttekt á henni. Ég gat nú ekki fylgst nákvæmlega með ræðu hæstv. heilbrrh. því það er margt að gerast hér í einu í þinginu en mér er sagt að hann hafi tekið undir flestar þær breytingartillögur sem minni hlutinn hefur lagt fram. Munum við fylgja því að sjálfsögðu fast eftir.
    Þessi löggjöf um almannatryggingar er ein mikilvægasta löggjöf landsins og því mikilvægt að vel sé til vandað þegar hún er endurskoðuð. Hún kemur við marga þætti mannlegs lífs og einmitt viðkvæmustu þættina þannig að það er mikilvægt að vel sé til vandað.

    Breytingartillögurnar sem við gerum við þetta frv. eru flestar hverjar ekki kostnaðarsamar heldur eru þær margar hverjar tæknilegs eðlis og kennslulegs eðlis ef við tökum fyrst nám þeirra sem vinna hjá Tryggingastofnun ríkisins. Einmitt vegna þess hversu flókinn málaflokkur þetta er þá er mikilvægt að þeir sem starfa hjá Tryggingastofnun ríkisins séu vel undir það starf búnir og eigi kost á endurmenntun og því er þessi tillaga fram komin. Auk þess sem oft hefur nú verið um það rætt að Tryggingastofnun helst illa á sínu starfsfólki vegna þess að ekki er hægt að segja að það sé hálaunastarf að vinna hjá Tryggingastofnun, mjög erilsamt og erfitt, og auðvitað mundi það hífa fólk upp í launum ef þetta nám kæmi til. Þetta er mjög sambærilegt nám þótt það sé annars konar eins og var skipulagt fyrir fiskvinnslufólk og kom afskaplega vel út, bæði að það hækkaði starfsfólk fiskvinnslustöðva upp í launum auk þess sem það varð miklu hæfara til starfa á eftir. Þó að þetta sé ekki sambærileg störf þá er hugsunin sú sama á bak við þessar tillögur, að gera fólkið hæfara til starfa og viðurkenna menntun þess í launum.
    Það eru fleiri breytingartillögur sem þarna eru lagðar fram. Þær eru reyndar margar. Mér,finnst óþarfi að fjölyrða um þær af því að ég veit að hv. þm. Finnur Ingólfsson fór mjög nákvæmlega í gegnum þær.
    En mig langar að taka sérstaklega síðustu breytingartillöguna og ræða hana. Það er 8. brtt. okkar sem er varðandi 36. gr., ákvæði um uppihaldsstyrk. Þetta ákvæði er nýmæli en ekki leikur vafi á því að landsmenn búa við mjög ójafnar aðstæður að þessu leyti. Þeir sem þurfa að leita lækninga og búa úti á landi geta þurft að greiða mikinn ferðakostað. T.d. kostar flugfargjald frá Egilsstöðum 16.000 kr. Því er mjög mikilvægt að komið sé til móts við þessa einstaklinga á einhvern hátt, sérstaklega ef tillögur í þeirri skýrslu sem nú liggur fyrir um þær breytingar sem á að gera á sjúkrahúsunum verða að veruleika, því þá verður enn þá meiri ferðakostnaður fyrir þá sem þurfa á sérfræðiaðstoð að halda utan af landi. Það er ástæða til að taka þetta mál upp því það er mikill munur á því fyrir t.d. Reykvíkinga að hlaupa hér til sérfræðings eða þá að þurfa bæði að greiða dýrt flugfargjald eða langan akstur, auk þess sem þarf að greiða fyrir hótelgistingu. Þannig að ég vil sérstaklega að þessi grein verði tekin föstum tökum og ég veit að formaður hv. heilbr.- og trn. sem stendur hér og horfir á mig er sammála mér í þessu efni. Ég trúi ekki öðru en hann muni samþykkja þessa grein. Ég mun síðan taka þátt í umræðu um félagslega aðstoð sem er beint á eftir þessu máli um almannatryggingar. Þetta eru tvö mjög skyld mál sem er verið að kljúfa í tvo hópa, eins og hér hefur komið fram, vegna þess að við ætlum ekki að flytja út félagslegu bæturnar og við erum sammála um það.
    Ég vil, vegna þess að hv. formaður stendur hér brosandi, þakka honum mjög góða vinnu að þessu frv. Það var góð samstaða og góð vinna sem fór fram í nefndinni. Það eru þarna nokkur atriði sem við viljum sérstaklega taka út úr og gera breytingartillögu um og ég fagna því að það skuli vera tekið svo jákvætt undir þær eins og hér hefur komið fram og því verður örugglega fylgt eftir af minni hlutanum að við það verði staðið.