Almannatryggingar

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 14:52:26 (2679)


[14:52]
     Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir undirtektir hans við þær tillögur sem minni hlutinn hefur hér flutt. Í sjálfu sér getur maður skilið að þetta sé kannski að mati ráðherrans ekki rétti tíminn til að gera stórvægilegar breytingar á almannatryggingalöggjöfinni, enda held ég að ef sú yfirlýsing hans, sem kom hér áðan í umræðunni, hefði legið fyrir þegar nefndarstarfi var að ljúka, að til stæði að skipa nefnd til að endurskoða almannatryggingalöggjöfina, þá hefðu þessar tillögur minni hlutans ekki þurft að koma fram og ekki síst í ljósi þess þegar því er lýst yfir að ráðherrann ætli að kalla að því verki fulltrúa allra stjórnmálaflokkanna og þeirra aðila er hagsmuna hafa að gæta er tengjast almannatryggingalöggjöfinni.
    En þegar menn hafa nú skipt þessu upp í þessi tvö lagafrv., sem verða síðan hér að lögum, annars vegar almannatryggingalöggjöfina og hins vegar félagslegu aðstoðina, þá held ég að það sé útilokað annað heldur en taka báða lagabálkana til endurskoðunar þegar slík endurskoðun fer fram, vegna þess að það er margt í þessu sem er óljóst og það er margt í þessu sem skarast og þarf góðan tíma til að vinna að.
    Það er rétt sem hefur komið hér fram og kom fram áðan hjá hv. 2. þm. Vesturl., Ingibjörgu Pálmadóttur, að það var ágætis samstaða og vel að þessu verki staðið af allri nefndinni og við viljum auðvitað þakka formanni og stjórnarliðinu öllu fyrir ágætis samstarf. Menn gáfu sér góðan tíma og fengu góða aðstoð frá heilbrrn. í þeim efnum. Hins vegar var þó nokkur ágreiningur um málið og hann stóð, að mínu viti, að mörgu leyti um prinsippmál, þ.e. hvort og hvernig ætti að tryggja bótaréttinn í frv. um félagslegu aðstoðina. Og hvernig sem maður veltir þessu fyrir sér og fer yfir einstaka bótaflokka og málið eins og það liggur fyrir í heild sinni og gengur út frá því að menn ætli að skilja á milli í þessum tveimur lagafrv. með því að gefa sér þá forsendu að að baki bótunum sé einstaklingsbundið mat, að baki sé tekjutenging og að bæturnar séu annað hvort greiddar úr ríkissjóði eða þá að iðgjald standi undir eins og það ætti raunverulega að vera í almannatryggingalöggjöfinni, þegar menn fara í hvern einstakan bótaflokk, eins og þeim er núna skipað í frv., þá er alveg ljóst að ekkert af þessum prinsippum stenst í raun og veru. Þannig að það er engin grundvallarregla sem verið er að vinna eftir. Það er hins vegar verið að reyna, eftir tilfinningu, að flokka bæturnar upp í bætur sem eru annars vegar félagslegar bætur og hins vegar tryggingabætur, svona eftir því hvaða tilfinningu menn hafa fyrir þessu. Auðvitað er tilfinning manna í þessum efnum mjög mismunandi eftir því hver einstaklingurinn er, hvaða lífssýn og lífsskoðun hann hefur. Þannig að þessi útflutningsregla sem reynt er að styðjast við er í raun og veru ekki í heiðri höfð þegar menn eru að skipa málunum í þessi tvö lagafrv.
    Eitt finnst mér mjög sláandi dæmi og ég ætla enn að minnast á og ég minntist á hér í framsögu minni með áliti minni hlutans. Ef við tökum sjúkradagpeningana, endurhæfingarlífeyrinn og örorkulífeyrinn og lítum á það hvernig tilfinningin hefur verið fyrir því hvernig menn skiptu þessu upp þá er það þannig að sjúkradagpeningarnir flytjast úr landi, endurhæfingarlífeyririnn flyst ekki úr landi, örorkulífeyrir eða örorkustyrkur flyst úr landi. Hjá þeim einstakling sem verður veikur og fær sjúkradagpeninga, af því að hann getur ekki stundað vinnu væri hann annars staðar, þá flyttust þeir sjúkradagpeningar úr landi. Nú líður tími, tími sjúkradagpeninga er liðinn, endurhæfingarlífeyrir tekur við vegna þess að einstaklingurinn er í endurhæfingu. Endurhæfingargreiðslurnar sem hann á rétt á flytjast ekki úr landi, þannig að þarna myndast tími þar sem einstaklingur á endurhæfingarlífeyri fær engar bætur. En þegar endurhæfingunni er hins vegar lokið og viðkomandi einstaklingur hefur verið metinn öryrki, hvort sem hann er örorkulífeyrisþegi eða örorkustyrkþegi, þá fara bæturnar aftur að flytjast úr landi. Þannig að þetta er ekki allt svona einfalt, að segja það er bara tilfinningin sem ræður því hvað eru bætur félagslegrar aðstoðar og hvað eru almannatryggingabætur.
    Ég bendi á þetta og það er nú m.a. þetta sem minni hlutinn leggur til, að þessum þremur bótaflokkum sé öllum skipað inn í almannatryggingalöggjöfina, en endurhæfingarlífeyririnn sé ekki sérstaklega tekinn og settur inn í frv. um félagslega aðstoð.
    En eins og ég sagði í upphafi tók hæstv. heilbrrh. vel undir allar þær tillögur, að mér fannst, sem minni hlutinn flutti og við fögnum því auðvitað. Í ljósi þess munum við auðvitað skoða málið hér á eftir, hver staðan er. Í raun væri að vissu leyti gott að heyra það frá ráðherra hvenær hann hyggur að þessi nefnd sem hann hefur ákveðið að skipa taki til starfa og hvenær hún ljúki störfum.
    Svo lengi, held ég, sem menn muna þá hafa ráðherrar að einum ráðherra undanskildum, hæstv. þáv. heilbrrh.- og trmrh. Guðmundi Bjarnasyni, vísað öllum þeim málum er snúa að almannatryggingalöggjöfinni á væntanlega endurskoðun laga um almannatryggingar. ( Gripið fram í: Er hann undanskilinn?) Sá hæstv. ráðherra er undanskilinn að því leyti að hann tók öll þau mál er hér komu inn, setti þau í þessa nefnd og þau sáu öll dagsins ljós í því frv. er þáv. ráðherra flutti hér á Alþingi. Þannig að í frv. er hann lagði hér fyrir sáust allar þær óskir, örlítið breyttar oft á tíðum, en þær sáust allar hér á þingi. En á þeim tíma sem frv. var lagt fyrir þá treystu þingmenn Alþfl. sér ekki til að styðja málið af þeirri ástæðu að það væri um tekjutengingu elli- og örorkulífeyris í því frv. að ræða. Það átti í raun og veru að tekjutengja elli- og örorkulífeyri með því að færa frá þeim sem betur máttu sín til þeirra sem byggju við erfiðari aðstæður og nýta það sem þannig sparaðist í almannatryggingalöggjöfinni hjá þeim sem byggju við verulega erfiðari aðstæður. Þetta var í marsmánuði árið 1991. Í nóvember sama ár kemur hér inn á Alþingi frv. frá þáv. hæstv. heilbrrh.- og trmrh. Sighvati Björgvinssyni sem gerði ráð fyrir því að allir þessir bótaflokkar yrðu tekjutengdir, en ekkert yrði gert fyrir þá sem bjuggu við erfiðar aðstæður. Þannig að það er auðvitað einkennilegt að upplifa þessa stöðu eftir að sá ágæti flokkur Alþfl., sem kallar sig jafnaðarmannaflokk, hafði hafnað tekjutengingu einstakra bótaflokka almannatrygginganna, leggur það síðan til, en bætir þeim ekki á nokkurn hátt sem við erfiðar aðstæður búa.