Félagsleg aðstoð

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 15:39:57 (2690)


[15:39]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem hér er til umræðu um félagslega aðstoð tengist því máli sem áðan var rætt því að hér er verið að slíta í sundur tvö mjög skyld mál. Það er ekki hægt að segja annað en þetta flæki málin svolítið og það hafa komið fram hjá bótaþegum, sem hafa komið til hv. heilbr.- og trn. og rætt þessi mál, vissar áhyggjur varðandi það að þessar bætur séu skrifaðar undir félagslega þjónustu og það hefur viss misskilningur verið á ferðinni sem mér finnst rétt að komi fram og nauðsynlegt að leiðrétta. Það er að sjálfsögðu vegna þess að félagsleg þjónusta almennt er á vegum sveitarfélaga en þessi félagslega aðstoð sem hér er um rætt á að vera á vegum ríkisins áfram og ég sé ekki neinar tillögur um að það verði nein breyting þar á.
    En það sem ég vil gera að umtalsefni er breytingin á 5. gr., um umönnunarbætur, sú grein sem hefur verið mest um rætt. Í mars 1992 lagði hv. varaþm. Ásta R. Jóhannesdóttir einmitt fram tillögu um þetta mál og rökstuddi hana mjög ítarlega og af mikilli þekkingu varðandi það að rétt sé að greiða þessar umönnunarbætur vegna ellilífeyrisþega. Hún rakti mjög ítarlega hvað þetta gæti sparað ríkinu. Ég vil vitna í ræðu hennar þar sem hún mælir fyrir þessu máli. Þegar hún ræðir um umönnunarbætur segir hún svo, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt þeim lögum sem gilda í dag er það aðeins maki lífeyrisþega sem á rétt á greiðslu frá Tryggingastofnun, makabótum, leggi hann niður störf vegna hjúkrunar hans. Greiðsla til maka fyrir þessi störf er nú, í mars 1992, 28 þús kr. á mánuði en 17.500 kr. hafi makinn einhverja vinnu með umönnunarstarfinu. Þar er algengt að um sé að ræða skúringar eða önnur íhlaupastörf.``
    Þessar upphæðir eru nú ekki ýkja háar og hún heldur áfram í ræðu sinni:

    ,,Makabætur greiðast ekki til maka sé hann einnig lífeyrisþegi. Dæmi: Kona sem hefur verið bundin yfir eiginmanni sínum sem er umönnunarþurfi, t.d eftir alvarlegan sjúkdóm eða slys, fær makabæturnar greiddar þar til hún verður 67 ára. Þá verður hún ellilífeyrisþegi og fær sinn eigin lífeyri og þá falla makabæturnar niður. Þessi störf eru þá ekki lengur metin við hana og er það mikið óréttlæti. Þeir sem hafa lent í þessu hafa átt erfitt með að sætta sig við þetta.``
    Síðar í ræðu sinni fyrir þessu frv. vitnar hún í það hvað það muni kosta ef þessi ellilífeyrisþegi þurfi að vistast á stofnun og segir hún um það mál, með leyfi forseta:
    ,,Greiðsla umönnunarbóta er sparnaður, bæði ef til skammtíma og langtíma er litið. Þær spara dýr sjúkrahúspláss eða dýra vistun á stofnun og getur verið fyrirbyggjandi, þ.e. komið í veg fyrir að þeir sem vinna hjúkrunarstörfin slíti sér út og endi sem öryrkjar á bótum hjá Tryggingastofnun.
    Greiðsla umönnunarbóta er sparnaður í mörgu tilliti og vil ég nefna dæmi: Elli- og örorkulífeyrisþegi sem dvelur á stofnun, t.d. á Skjóli þar sem margir aldraðir umönnunarsjúklingar eru, kosta heilbrigðiskerfið 7.200 kr. á dag miðað við daggjöld um áramót, eða um 216 þús. kr. á mánuði. Ef hann dvelur heima og fengi umönnun þar væri umönnunarkostnaðurinn samkvæmt frv. í mesta lagi 47.111 kr. Þetta er 169 þús. kr. sparnaður á hvern sjúkling á mánuði. Lægi hann aftur á móti á Borgarspítalanum kostar dagurinn heilbrigðiskerfið 17.825 kr. á dag eða tæplega 544 þús. kr. á mánuði.``
    Þarna eru sem sé mjög gild rök fyrir því að það sé ódýrara að vista heima sé það samkomulagsatriði og mögulegt og því finnst okkur það vera réttlætismál að þessi tillaga sé samþykkt. En hv. þm. Finnur Ingólfsson mælti fyrir þessum brtt. og gerði þá m.a. að umfjöllunarefni þá brtt. varðandi ekkjulífeyri þar sem jafnt gangi yfir bæði ekkjur og ekkla. Þarna komi makalífeyrir í staðinn fyrir ekkjubætur.
    Eins og fram kom við 1. umr. þessa máls þá vorum við sammála um það hér sem um þetta ræddu að ekkjulífeyrir væri sem slíkur barn síns tíma og að væri jafnréttismál að bæði ekkjur og ekklar fengju sömu bætur.
    Annað ætla ég ekki að gera að umtalsefni nema mig langar að spyrja hæstv. heilbrrh. um það hvað nákvæmlega felst í 12. gr. þessa frv. en þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Nú verða útgjöld sjúkratryggðs vegna læknishjálpar og lyfja umtalsverð og er Tryggingastofnun ríkisins þá heimilt að endurgreiða hlutaðeigandi þennan kostnað að hluta eða fullu að teknu tilliti til tekna og í samræmi við reglur sem heilbr.- og trmrn. setur.
    Sjúkratryggingadeild annast endurgreiðslu samkvæmt þessari grein.``
    Þetta er mjög opið í þessari grein og það væri mjög fróðlegt að vita nákvæmlega hvað er hér um að ræða. Eins og menn muna auglýsti hæstv. fyrrv. heilbrrh. í fjölmiðlum um það leyti sem var að ljúka störfum sínum sem heilbrrh. í sumar að þeir sem hefðu orðið fyrir umtalsverðum kostnaði vegna lyfja og læknishjálpar fengju hann endurgreiddan. Það var þannig að margir þessir aðilar höfðu þá þegar hent sínum nótum og gátu ekki lagt fram það sem um var beðið. Það er mjög mikilvægt að svona grein sé skýr þannig að menn viti nákvæmlega hvað þarna er á ferðinni.
    En varðandi það sem hv. 15. þm. Reykv. gerði að umtalsefni áðan hvenær þessi lög eigi að öðlast gildi, bæði þessi lög og lög um almannatryggingar, þá finnst mér það ekki breyta miklu þó svo að sú brtt. kæmi fram að þessi lög mundu öðlast gildi 1. janúar og þá þyrfti ekki að vera þetta EES-mál sett aftan við og það mun örugglega breyta miklu fyrir marga hér.