Félagsleg aðstoð

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 16:01:18 (2692)


[16:01]
     Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Finnur Ingólfsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins út af orðum hæstv. heilbr.- og trmrh. hér áðan varðandi umönnunarbætur þá segir í brtt. minni hlutans að bætur þessar skuli skerðast sem nemur tekjum af vinnu utan heimilis og öðrum greiðslum samkvæmt lögum þessum. Þarna er í raun og veru um beina tekjutengingu að ræða og meira en það því það eru bætur almannatrygginga sem líka munu skerða þennan bótarétt, þ.e. ef ellilífeyrisþegi eða örorkulífeyrisþegi annast annan ellilífeyrisþega þá hafa þær bætur áhrif á umönnunarbæturnar.
    Varðandi kostnaðinn við þetta, þá þyrfti hæstv. heilbr.- og trmrh. að kynna sér græna bók sem er til í heilbr.-og trmrn. og er unnin af þeirri nefnd sem hæstv. ráðherra vitnaði hér í áðan og er frv. til laga um almannatryggingar. Í þessari grænu bók, sem er bók jafnréttis og réttlætis enda ber hún þann lit með sér, er gerð nákvæm grein fyrir öllum þeim kostnaðarútreikningum er hver af þeim níu bótaflokkum er nefndin lagði til á sínum tíma gerði ráð fyrir í viðbótarútgjöldum. Þessar umönnunarbætur til elli- og örorkulífeyrisþega gerðu ráð fyrir því að bein útgjöld yrðu í kringum 47 millj. kr. á ári en á öðrum sviðum, í sjúkratryggingunum, í stofnunarþjónustunni væri hægt að spara á móti. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni þá sýnist mönnum þá auðvitað sitt hvað í þeim efnum. En sparnaður í stofnanaþjónustunni var tekinn á móti þegar reiknað var út hver útgjöldin yrðu og það var ekki gert ráð fyrir því að þessi bótaflokkur hefði útgjaldaauka í för með sér.