Félagsleg aðstoð

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 16:05:57 (2694)


[16:05]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég á nú ekki sæti í þeirri nefnd sem um þetta hefur fjallað og hef ekki haft mikinn tíma til að fara yfir fylgiskjöl málsins en þó hef ég litið hér á nokkur atriði og ég vil fara um það nokkrum orðum. Í fyrsta lagi vil ég lýsa stuðningi við brtt. minni hlutans við þetta frv. til laga um félagslega aðstoð og afstöðu minni hlutans til þessara tveggja mála sem hér eru samferða og tengjast, þ.e. frv. til laga um félagslega aðstoð sem flutt er sem fylgifrv. með því frv. sem hér var áður á dagskrá til laga

um breytingar á lögum um almannatryggingar.
    Ég held að það sé engin sérstök ástæða enda hef ég ekki heyrt neinn sérstakan rökstuðning færðan fram fyrir því að hverfa frá þeirri uppsetningu réttar manna til aðstoðar í þessu sambandi sem ég hef skilið að sé í gildandi almannatryggingalögum eða þeim kafla almannatryggingalaganna sem hér er fluttur yfir í sérstök lög vegna Evrópubandalagsins um þessi mál, þá þurfi um leið að fara í þá breytingu að hverfa frá því að skilgreina þetta sem rétt eins og hér er lagt til en í öllum tilvikum gert ráð fyrir heimildarákvæðum. Staðreyndin er sú að að breyttu breytanda eru heimildarákvæði heldur hvimleitt fyrirkomulag í lögum og í raun á löggjafinn ekki að koma sér undan því að skilgreina og ákvarða efni máls með því að skilja það eftir opið eða afhenda það í heimildarákvæðum inni í lögunum sjálfum. Það er mín skoðun að það sé þá heppilegra að afmarka reglugerðarsvigrúm ráðherrans skýrt og ákveða hvaða hlutum skuli ráðstafa með reglugerð eða t.d. uppreikna eða annað því um líkt með einföldum reglugerðarákvæðum sem byggjast þá á viðmiðun í lögum. Hér er í raun og veru rétturinn sjálfur settur yfir í heimildarákvæði og það finnst mér orka mjög tvímælis og ég vil eindregið mælast til þess að það verði betur skoðað hvort ekki sé hægt að ná samkomulagi um það úr því að þokkalegt samkomulag hefur orðið um málið svona að öðru leyti að gera þarna breytingar. Ég skil það svo að minni hlutinn sé tilbúinn til að samþykkja þessi frumvörp ef á þeim yrðu gerðar þessar breytingar. Þetta á við um sem sagt ákvæði 2., 7. og 9. gr. þessa frv. sem lagt er til í brtt. minni hlutans að umorða þannig að þetta verði skilgreint sem réttur viðkomandi til bóta en ekki heimild ráðherra til að greiða bætur.
    Ég vil einnig nefna hér þessa opnu tekjutengingarheimild sem er í 1. gr. frv. Hún verkar sömuleiðis heldur ankannlega á mig og er af náskyldum toga og hitt að skilgreina ekki rétt manna til bóta í lögunum heldur gefa ráðherranum þar heimild. Ég sé ekki annað en í 2. mgr. 1. gr. sé í raun og veru gefin algerlega opin heimild til tekjutengingar bóta vegna félagslegrar aðstoðar. Mér finnst það orka mjög tvímælis að það sé við hæfi að afgreiða þetta svona algerlega án nokkurra takmarkana eða skilyrða, það sé ósköp einfaldlega sett í sjálfsvald ráðherra hvort gripið er til tekjutengingar og þá hverrar. Hún gæti þess vegna verið jafnskörp eins og mönnum þykir henta á hverju tímabili, hverju ári eða hverju kjörtímabili eða hvernig sem það nú er. Ég held að það sé ekki farsælt að fara út á þessa braut. Það er miklu betra að reyna að hafa þessar reglur tiltölulega skýrar og fastar í sessi þannig að ekki sé verið að hringla með þetta endalaust. Ég segi alveg eins og er að ég vildi ekki vera í sporum þess heilbr.- og trmrh. sem væri búin að fá svona heimildarákvæði inn í öll lögin og stæði svo frammi fyrir fjmrh. sínum við afgreiðslu fjárlaga með yfir 40 millj. kr. útgjöld og öll almannatryggingalögin galopin þar sem kerfiskallar í fjmrn. gætu bara bent í alla súpuna og sagt: Þú hefur heimild hér og hér og hér til að lækka þetta og tekjutengja og breyta þessu eins og þú vilt, og sjá svo þann heilbrrh. standa vörð um að þetta yrði ekki allt skorið niður við trog.
    Mér hefur nú sýnst á undanförnum árum að þeir ættu nóg í vök að verjast blessaðir mennirnir sem hafa gegnt þessu embætti þó þeir veiki nú ekki fyrir fram vígstöðu sína og málaflokksins með því að opna þetta með þessum hætti eins og þessi hugsun gerir. Mér er auðvitað ljóst að þetta er ekki stór hluti af útgjaldadæminu sem þarna er á ferðinni, þessar bætur í félagslega hlutanum. En þetta er þó væntanlega stefnumarkandi að einhverju leyti. Ég geld heldur varhug við þessari hugsun og hefði gjarnan viljað sjá að um það gæti tekist samstaða að hafa þetta í óbreyttu horfi.
    Nú ég hef skilið það svo, og það væri nú fróðlegt að fá um það upplýsingar ef einhverjar frekari eru, en ég hef skilið það svo að það hafi verið staðfest hér hjá hæstv. ráðherra áðan að heildarendurskoðun á þessum lögum sem er nú búin að vera í gangi svo lengi sem ég man a.m.k. sé nú væntanleg, jafnvel von á að hér birtist frv. þar sem menn hafi náð utan um það að leggja til heildarendurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni allri. Þá væri náttúrlega miklu eðlilegra að taka á slíkum hlutum í tengslum við það verk heldur en í frumvarpsbleðli af þessu tagi sem hér er í raun og veru aðallega fluttur af öðrum ástæðum, þ.e. þeim sem ég ætla nú að koma að og tengjast samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Þessi uppskipting málaflokksins er samkvæmt evrópskri forskrift og ég held að það sé ágætt fyrir menn að fara að venjast þeirri hugsun að taka við fyrirmælunum að utan um það hvernig hlutirnir eigi að vera hér, ekki bara að efni og innihaldi heldur líka að formi. Hér er ekki aðallega verið að tala um innihald og efnisákvæði almannatryggingalaganna, nei það er verið að tala um formið á þeim ,,vesgú`` Evrópubandalagið eða Brussel vill ráða því líka hvernig við setjum þetta upp í lagasafninu, ekki bara hvað það inniheldur. Það kemur hér fram í fylgiskjali með þessum frumvarpsbleðli sem ég hef leyft mér að kalla svo vonandi óátalið, hæstv. forseti, að vegna reglna Evrópubandalagsins um almannatryggingar sé nauðsynlegt að gera glöggan greinarmun á bótum almannatrygginga og félagslegri aðstoð. Sjálfum finnst mér það nú óskaplega fjarlæg hugsun að það sé hægt að búa til einhver hrein og klár landamerki milli þessara hluta. Ég óska hverjum þeim til hamingju sem ætlar að reiða fram hin heldu rök fyrir því að hlutirnir séu klárlega annaðhvort svona eða hinsegin, annaðhvort hluti af almannatryggingakerfinu eða félagsleg aðstoð. Og ég reyndar heyrði hér hugleiðingar hæstv. ráðherra hér áðan og get tekið undir ýmislegt af því sem þar kom fram. En þeir eru búnir að ákveða þetta úti í Brussel og þá á þetta auðvitað að vera þannig hér upp á Íslandi. Og við verðum að gera svo vel að skipta þessum lagabálki okkar upp í tvennt og prenta hann þannig eftirleiðis í einu elsta lagasafni heimsins. Það er nú svo. Ég er andvígur því að menn séu að tengja lagasetningu eins og hér er gert með þessum hætti við gildistöku samningsins um Evrópskt efnahagssvæði með þeim einföldu rökum að ég er andvígur því að við setjum lög á Íslandi af öðrum ástæðum en efnisástæðum sem við sjálf erum sammála um. Ég mun aldrei sætta mig við það að löggjöf hér verði rökstudd með einhverju öðru en því. Og gildistaka laga á Íslandi verði rökstudd með einhverju öðru en þörfinni fyrir viðkomandi lagabreytingar á einhverjum tilteknum tíma á Íslandi, því mun ég aldrei kyngja á meðan ég verð hér. Það finnst mér ekki frambærilegur málflutningur. Annaðhvort eru lögin eins og við viljum hafa þau og erum sammála um að gera hér uppi á Íslandi eða ekki. Þess vegna hefði ég talið að ef menn vildu ná um þetta samkomulagi þá ættu menn að ákveða þó a.m.k. að forminu til að gera þessar breytingar þannig að íslensk löggjöf stangaðist þá ekki á við Evrópubandalagið en gera það með sjálfstæðum hætti og láta gildistökuákvæðið standa sjálfstætt. Þetta mál hefur reyndar verið rætt hér áður og orðið að ágreiningsefni. Og mér finnst þetta ekki rismikil framlagning af hálfu meiri hlutans hér á þingi að lýsa því yfir að viðkomandi lagabreytingar þjóni í sjálfu sér engum efnislegum tilgangi hvað varðar hina íslensku löggjöf og þess vegna þurfi hún ekki að taka gildi, það sé ekki ástæða til þess út af fyrir sig að gera þessar breytingar nema ef Evrópska efnahagssvæðið verður að veruleika. Í raun er verið að segja það hér að meiri hlutinn sem ber þetta fram og hæstv. ríkisstjórn sjái í sjálfu sér engin efnisleg rök fyrir þessum breytingum því þá mundi væntanlega koma eitthvert sjálfstætt gildistökuákvæði ef menn teldu það t.d. skynsamlegt eða nauðsynlegt að þetta gerðist 1. jan. nk. Það er ekki. Ef samningurinn skyldi nú enn einu sinni detta upp fyrir, það dytti loftsteinn ofan á höllina áður en það ætti að fara að skrifa undir pappírana að lokum eða eitthvað því um líkt, sem væri nú eftir öðru, þá mundi þetta ekki ganga hér í gildi væntanlega vegna þess að þeir sem bera málið fram telja ekki ástæðu til þess. Þetta finnst mér ekki rismikil framsetning verð ég að segja, hæstv. forseti. Og hvernig ætli það sé að vera hæstv. forseti á Alþingi Íslendinga sem er búið að starfa í 1063 ár eins og kunnugt er og kemur fram hér á skjölum og fá svo málin núna inn á færibandi með þessum formúlum. Ég verð að segja sama, hæstv. forseti, um það frv. sem hér er tengt sem er í raun og veru orsök þess að þetta er flutt, frv. um félagslega aðstoð, frv. sem vísað er í hér í greinargerð að það sé fylgifrv., að 66. gr. frv. um almannatryggingarnar er auðvitað stórfurðuleg. En sjálfsagt lýsandi fyrir það sem koma skal í tengingu löggjafarstarfa hér á þinginu við hinn evrópska rétt og ákvarðanirnar sem teknar eru þar. En það stendur eins og kunnugt er í 66. gr., síðari málsl., með leyfi forseta: ,,Þá er ráðherra heimilt að birta sem reglugerðir reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar.`` Punktur. Með öðrum orðum: Það er talin ástæða til að setja hér sérstaka heimild inn í lögin fyrir íslenskan tryggingamálaráðherra að endurprenta, vonandi þýddar þó, reglugerðir Evrópubandalagsins sem íslenskar reglugerðir. Og mér finnst þetta óskaplega lágkúrulegt. Að setja þetta fram með þessum hætti. Það er verið að afla sjálfstæðrar lagaheimildar til þess að láta reglugerðirnar gilda óháð íslensku mati og íslenskum aðstæðum. Það er ekki einu sinni dulbúið að það skuli þó heita sjálfstæð ákvörðun viðkomandi ráðherra að gefa viðkomandi reglugerð út. Auðvitað fara menn hér með tugguna um að slíkar reglugerðir megi ekki stangast á við íslensku lögin o.s.frv. og menn munu eitthvað fram eftir árunum tyggja það að auðvitað verði engar ákvarðanir Evrópska efnahagssvæðisins hér að lögum nema Alþingi ákveði það. En hvernig verða ákvarðanirnar? Þær verða svona. Það verður færibandaafgreiðsla af þessu tagi sem hér er verið að boða. Og ég tel að þetta gefi alveg forsmekkinn af því sem koma skal. Að ráðherrarnir fara hér á næstu árum að afla sér lagaheimilda til þess að prenta bara hinn evrópska rétt sem lög og reglur á Íslandi og svo er mikið fyrir hlutverk hins virðulega Alþingis.
    Ég með annað þingskjal hér, virðulegur forseti, sem er afar sláandi í þessu sambandi og það er þingskjal sem var verið að dreifa frá meiri hluta samgn. Það varðar efni þessa máls sem ég er að gera hér að umtalsefni, tengingu þessarar lagasmíðar eða frumvarpa við evrópska réttinn. Hvað er þar á ferðinni? Þar eru á ferðinni breytingar við hafnalög en eins og kunnugt er þá lagði samgrn. fram alveg kostulegt frv. í fyrra um aðlögun laga og reglna á sviði samgöngumála að evrópska réttinum. Það var ósköp einfalt það frv. Það var svona: Ráðherra má setja reglugerðir til að aðlaga allt milli himins og jarðar í samgöngumálum á Íslandi að evrópska réttinum. Punktur. Og angi af þessari hugsun kemur á þskj. 395. Þar segir að 40. gr. hafnalaganna skuli orðast svo:
    ,,Ráðherra skal setja reglugerð um framkvæmd laga þessara.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir á sviði hafnamála að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði, sbr. lög nr. 2 13. jan. 1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum.``
    Og hvað leiðir af samningnum um hið evrópska efnahagssvæði? Jú, það leiðir t.d. það að taka upp nýja réttinn, nýjar reglur sem eru orðnar til og eru komnar á fjórða hundrað nú þegar frá því að samningurinn var undirritaður. Og eftir hverju er verið að óska hér? Það er verið að óska eftir heimild til þess að taka þessar reglur upp beint. Það er verið að fara fram á lagaheimild um það. Bæði hér í þessu frv. til laga á sviði heilbrigðis- og tryggingamála og svo í þessu tilviki sem ég vísaði til í samgöngumálunum. Hvað segja menn um þetta? Hvað segir hv. 4. þm. Reykv. um þessa framsetningu mála hér trekk í trekk? Út af fyrir sig ætlast ég ekki til að hann sé mjög hrifinn af því, hv. 4. þm. Reykv., miðað við hans afstöðu í þessu máli. En ég held að það sé umhugsunarefni fyrir okkur og ágætt að staldra aðeins við það hér núna dagana áður en samningurinn gengur í gildi ef hv. þm. Vilhjálmur Egilsson væri hér þá mundi hann segja að nú væru 16 dagar til jóla, 17 dagar sagði hann í gær, þ.e. til þess að samningurinn gangi í gildi, og að við áttum okkur aðeins á því á hvaða braut við erum með þessi mál. Ég held að það geti

ekki verið sáluhjálparatriði fyrir heilbr.- og trmrh. að þetta sé öðruvísi orðað gagnvart rétti hans til að gefa út reglugerðir sem standist lög um almannatryggingar og lög um félagslega aðstoð. Það er miklu betra og mikið skárri svipur á því fyrir okkur öll að það reglugerðarákvæði sé bara venjubundið. Að sjálfsögðu getur ráðherrann fellt inn í sínar geglugerðir það sem tíðkast eða gerst hefur á Evrópska efnahagssvæðinu og menn velja að hafi áhrif á framkvæmd þeirra mála hér og heimilt er svo lengi sem það stangast ekki á við gildandi lög en mér finnst smekklaust með öllu að setja þessa heimild fram með þessu orðalagi. Þannig að ég óska eindregið eftir því að það verði skoðað hvort ekki er hægt að ná samkomulagi um þetta tvennt a.m.k. Það er annars vegar að reglugerðarheimild ráðherra í 66. gr. breytingafrv. á almannatryggingalögunum verði felld út eða orðuð með öðrum hætti, hún verði almenns eðlis og ekki bundin með þessum hætti við það að prenta hráar og óbreyttar tilskipanir Evrópubandalagsins og að gildistökuákvæði í frv. um félagslega aðstoð verði breytt þannig að þar komi bara eitthvert sjálfstætt gildistökuákvæði. Ég veit ekki betur en að ferðalangurinn mikli, hæstv. utanrrh., sé búinn að tilkynna að nú verði draumurinn loksins að veruleika um áramót. Og þó menn séu að vísu orðnir dálítið kvekktir á því að taka fullt mark á hæstv. utanrrh. í þessum efnum þá væri ég út af fyrri sig fyrir mitt leyti tilbúinn til að taka þá stórkostlegu áhættu að þetta gildistökuákvæði yrði 1. jan. 1994 í staðinn fyrir þetta orðalag sem er hér. Ég held að menn hefðu ,,resikerað`` öðru eins hér við lagasetninguna. Þar með væri a.m.k. sneitt fram hjá þeirri nauðhyggju og undirlægjuhyggju sem ég tel að felist í þessari framsetningu, að við séum þegar komin hér á fulla ferð og á bólakaf í þá framkvæmdavenju að rúlla hér í gegn lagabreytingum og binda gildistöku laga algjörlega við þessar ytri ákvarðanir og ytri aðstæður sem eru ekki teknar hér á Alþingi, þ.e. niðurstöður einhverra ákvarðana úti í Evrópu sem við höfum engin áhrif á. Því það liggur í spilunum eins og allir vita að ef EFTA-ríkin, aðilar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, eru ekki frumaðilar að ákvarðanatöku og afgreiðslu mála þar heldur hafa þeir eingöngu samráðsmöguleika. Slík er hin niðurlægjandi staða aðildarþjóðanna sem að EES-samningnum standa og ekki eru aðilar að Evrópubandalaginu að það er Evrópubandalagið sem mótar reglurnar, það er Evrópubandalagið sem leggur fram frumvörpin, það er Evrópubandalagið sem tekur ákvarðanirnar á sínum vettvangi. EES-ríkin geta haft þar samráð og fylgst með en þau eru ekki ,,premíerir`` þátttakendur að ákvarðanatökunni sjálfri. Þetta liggur fyrir. Ég tel að á meðan sú staða er þá sé það meira en nógu niðurlægjandi fyrir hin virðulegu löggjafarþing t.d. Norðurlandaþjóðanna að búa við þessar aðstæður þó þær játi það ekki beinlínis upp á sig með þeim hætti sem hér er lagt til að þær séu í reynd búnar að framselja ákvörðunarvaldið með þessum hætti. Það er það sem er verið að játa upp á sig með þessum hætti, það er það sem verið er að játa upp á sig með þessari framsetningu og ég er ákaflega ósáttur við að menn geri. Ég tala nú ekki um ósköpin jafnvel fyrir fram og áður en þeir eru þó samningsbundnir að þjóðarétti á grundvelli þessa samnings sem hefur eins og kunnugt er ekki enn tekið gildi.
    Fleiri orð, hæstv. forseti, held ég að ég sjái ekki ástæðu til að hafa um þetta mál af mínu leyti. En ég ítreka óskir mínar um það að á þessi atriði verði litið milli umræðna og hugsanlega væri vænlegast að breytingartillögur sem þessu tengjast yrðu þá dregnar til baka ef einhver áhugi er á annað borð fyrir því að reyna að ná samkomulagi um þetta.