Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 16:31:06 (2696)


[16:31]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það er að verða gamall kunningi hér í hv. Alþingi þetta frv. hæstv. sjútvrh. um að útdeila aflaheimildum Hagræðingarsjóðs til eins árs í einu því það er ekki lengra síðan en 11. nóv. að verið var að staðfesta sams konar úthlutun fyrir síðasta ár.
    Ég ætla ekki að fara yfir þá sögu aftur því það hefur verið gert áður í þinginu og það hvað eftir annað því stjórnarandstaðan reyndi ítrekað að fá sams konar afgreiðslu á þessum málum á síðasta þingi en var ævinlega neitað og ríkisstjórnin sá síðan ástæðu til þess að afgreiða málið með bráðabirgðalögum nokkrum dögum eftir að Alþingi fór heim. Þannig gekk það nú fyrir sig. Nú kemur hæstv. sjútvrh. með þetta mál þegar komið er fast að jólum og biður þingið um að því verði skotið í gegnum umræður á örskotsstund til þess að bjarga sér út úr þeirri ámátlegu stöðu sem hann er kominn í með þetta mál, þ.e. að það er brot á lögunum sem nú gilda um þessi efni að ekki skuli vera búið að hefja sölu á aflaheimildum Hagræðingarsjóðsins. Nú er það ekki þannig að stjórnarandstaðan sé á móti því að teknar séu ákvarðanir eins og þessar sem eru þarna í þessu frv., en það er auðvitað full ástæða til þess að ræða önnur mál í tengslum við þetta hér. Það er nú þannig að það hefur ekki mikið upp á sig að úthluta viðbótarheimildum til fiskiskipaflotans ef hann fer ekki á sjó eftir áramótin. Það er ekkert lítið gagn af því að fá viðbótarveiðiheimildir ef skipin verða áfram bundin við bryggju og hæstv. sjútvrh. hefur látið dreifa í þinginu í gær frumvörpum sínum um sjávarútvegsmál sem hafa verið margumrædd og menn hafa beðið lengi eftir að yrði dreift hér og kæmu til umræðu í þinginu.
    Hann hefur látið koma fram að þau frumvörp eigi ekkert að tala um fyrr en eftir áramót, einhvern tímann á næsta ári. Þó vita menn að það vofir yfir sjómannaverkfall og aðalkrafa sjómanna í því verkfalli er sú að það verði með einhverjum hætti stöðvað að braskið og verslunin með óveiddan fisk úr sjó. En þá kemur hæstv. sjútvrh. og biður um að það verði úthlutað viðbótar veiðiheimildum úr Hagræðingarsjóði handa flotanum sem leysir ekki landfestar um áramót og lætur ekki fylgja með eitt einasta orð hvað eigi að gerast, með hvaða hætti eigi að taka á þeim vanda sem steðjar að þjóðinni því það er auðvitað ekki lítill vandi sem steðjar að þjóðinni. Það er auðvitað ekki lítill vandi sem steðjar að íslenskri þjóð þegar sjómannaverkfall vofir yfir og allsherjarvinnustöðvun í fiskvinnslu fylgir með.
    Ég tel að ef menn tækju mark á þessari ríkisstjórn, það kann vel að vera að margir séu hættir að gera það, þá er framlagning þessara frumvarpa í óbreyttu formi frá því sem þau voru í vor yfirlýsing um, hæstv. sjútvrh., að það eigi að brjóta sjómenn niður í þessu verkfalli. Það er yfirlýsing um það að ríkisstjórnin ætlist ekki til þess að það sé gert neitt til að koma til móts við kröfur sjómanna um að létta af þeim oki verslunarinnar með veiðiheimildirnar og það eigi bara að bíða eftir því að sjómenn brotni niður í því verkfalli sem er að koma.
    Hæstv. sjútvrh. lætur hafa eftir sér í Dagblaðinu í dag, með leyfi hæstv. forseta, þar sem hann er spurður um það hvort ríkisstjórnin geti ekki leyst yfirstandandi sjómannadeilu með lagasetningu um bann við að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum:
    ,,Í fyrsta lagi tel ég að það séu lög sem banna þetta. Þar á ég við að það er í kjarasamningum sjómanna að þeir skuli ekki taka þátt í kvótakaupum. Kjarasamningar eru lögverndaðir. Það þarf því bara að kæra þetta mál. Viðkomandi verkalýðsfélög geta svo boðað verkfall hjá útgerðarmönnum sem brjóta samninga alveg eins og ef laun eru ekki borguð út. Þar að auki tel ég að það sé ólöglegt að grípa inn í deiluna með lagasetningu eins og þú spurðir um eftir að verkfall hefur verið boðað, sagði Þorsteinn.
    Hann sagðist hafa boðist til fyrir löngu að aðstoða við lausn þessarar deilu með lagasetningu ef menn væru með eitthvað tilbúið. Það hafi hins vegar ekki komið neitt til stjórnvalda frá deiluaðilum.
    Þess vegna held ég að það sé ekki margt sem við getum gert úr þessu, sagði Þorsteinn.``
    Sjútvrh. er að tala við þjóðina, hann er að segja þjóðinni það að það sé að koma sjómannaverkfall og það sé ekkert hægt að gera. Það verður bara að bíða. Bíða eftir hverju? Bíða eftir því að sjómenn gefi eftir. Það er nákvæmlega það sem hæstv. sjútvrh. er að segja, að það sé ekkert hægt að gera.

    Hann heldur áfram að tala eins og hann viti ekki um hvað málin snúast. Hann heldur áfram að tala um það að hann sé tilbúinn að setja lög sem banni að sjómenn taki þátt í kvótakaupum þó hann viti það vel að stærsti hlutinn af versluninni með óveiddan fisk fer ekki fram með þeim hætti. Það fer fram með öðrum hætti. Það fer þannig fram að menn eru að versla þetta sem kallað er tonn á móti tonni og lækka kaupverð fisksins með þeim hætti og ná þannig niður skiptaverðinu sem sjómenn eiga að fá til sín. Ef stjórnvöld í landinu ætla að halda áfram að stinga höfðinu í sandinn þá stefnir í langt sjómannaverkfall. Það stefnir í allsherjarvinnustöðvun í fiskiðnaði í landinu. Hvað er verið að hugsa á þessum bæ þar sem hæstv. ríkisstjórn ræður ráðum sínum? Er það bara ekki neitt? Jú, jú, þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi endilega að úthluta aflaheimildum Hagræðingarsjóðs til flotans svo menn hafi eitthvað stærri kvóta til að horfa á á skrifstofum sínum eftir áramótin því ekki rær flotinn út á það. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hélt að það væri ekki hægt að bæta ofan á þá vitleysu sem við höfum horft upp á í gegnum tíðina síðan þessi ríkisstjórn tók við í sjávarútvegsmálum. Hér hafa menn beðið mánuðum og árum saman eftir því að eitthvað gerðist í endurskoðun fiskveiðistefnunnar og nú liggur það fyrir að sjómannasamtökin eru búin að boða verkfall og ríkisstjórnin kemur með svarið. Það á ekkert að gera, það á ekki að koma til móts við sjómenn með neinum hætti. Sjávarútvegsnefnd þingsins kemur ekki saman. Það hafa verið afboðaðir fundir hvað eftir annað í sjútvn. þingsins vegna þess að það liggja ekki fyrir neinir hlutir í þessu efni. Ég vil minna á að þetta er svo beint tengt við lagasetningu Alþingis það sem er að gerast núna hjá sjómannasamtökunum. Yfirlýsing sjómannasamtakanna sem var gerð og undirrituð í apríl, ef ég man rétt, þar sem Farmanna- og fiskimannasambandið, Vélstjórafélagið og Sjómannasambandið skrifuðu sameiginlega undir yfirlýsingu sem varð til vegna þess að þessi samtök voru beðin um að veita umsagnir og taka þátt í að ráða ráðum um skýrslu tvíhöfða nefndarinnar. Lokaorðin í þessari yfirlýsingu voru þau þar sem fyrst er lagst alfarið gegn frjálsu framsali veiðiheimilda en yfirlýsingin endar á þessum orðum: ,,Sjómannasamtökin telja það ekki þjóna tilgangi að fjalla um aðra þætti í tillögum þeirrar nefndar sem fjallað hefur um mótun sjávarútvegsstefnu nema fyrir liggi að öll viðskipti með veiðiheimildir verði bannaðar.``
    Þetta oru lokaorðin í yfirlýsingu sjómannasamtakanna. Þau voru að svara stjórnvöldum í landinu vegna skýrslunnar sem tvíhöfða nefndin samdi. Síðan kemur hæstv. ríkisstjórn og dreifir þessari skýrslu í hv. Alþingi í gær og óbreyttum fyrirætlunum sínum um að festa aflamarkskerfið í sessi og láta útgerðarmenn í landinu halda áfram að eiga möguleika á því að níðast á sjómönnum með þeim hætti sem þetta kerfi gefur möguleika á.
    Ég segi eins og er að ég lýsi ábyrgð á hendur ríkisstjórninni að svona skuli vera staðið að málum og við vitum það fyrir fram að hér verður langt sjómannaverkfall ef menn ætla að ganga áfram með bundið fyrir bæði augu.
    Það sem þarf að gerast í þessu máli er það, sem við höfum reyndar ítrekað bent á, að Alþingi, og þá getur sjútvrn. þess vegna verið í broddi fylkingar í því, taki það að sér að reyna að finna sáttaleið í þessu máli og að menn brjóti odd af oflæti sínu og viðurkenni að þetta gengur ekki. Stefna ríkisstjórnarinnar getur ekki gengið í þessu máli. Það verður að semja við sjómenn og aðra aðila í þjóðfélaginu um sátt í þessari deilu. Það verður ekki gert með þeim hætti að stinga höfðinu í sandinn og leggja fram þessi frumvörp og ítreka yfirlýsingar um að það sé ekkert hægt að gera. Það verður bara gert með viðræðum við þessa aðila sem eiga hlut að máli og því að reyna að ná sátt í Alþingi um stjórn fiskveiðanna og um breytingar á þessum lögum sem koma til móts við sjómenn.
    Ég var satt að segja farinn að vona að það væri að koma að þessari stund, þessi frumvörp yrðu lögð fram og með þeim fylgdu yfirlýsingar sem gæfu tilefni til þess að sjútvn. þingsins gæti sest yfir málið án þess að vera handjárnuð af einhverjum samþykktum ríkisstjórnarflokkanna sem virðast ekki vera haldbetri en það að þær samþykktir sem hafa komið í fjölmiðlum og eru hafðar eftir ráðherrum að væru fyrir hendi eru síðan bornar til baka af sumum ráðherrunum og fylgismönnum stjórnarflokkanna, að menn væru ekki bundnir af einhverju slíku heldur yrði reynt að leita sátta almennt í Alþingi um það að reyna að leysa þessi mál í samvinnu við þá sem eiga þar mest undir. Ég spyr og óska eftir svari frá hæstv. sjútvrh. og það væri kannski ástæða til þess að fleiri ráðherrar kæmu til svara: Er það virkilega þannig að það menn ætli að hanga áfram á þessu roði? Ætla menn að berjast áfram með tvíhöfða skýrsluna í höndunum og loka báðum augum og ekki tilbúnir til þess að ræða um breytingar á þessu sem getur orðið til þess að leysa þetta verkfall sem er fram undan? Ég spyr að því. Og ég hefði gjarnan viljað sjá hv. 1. þm. Vestf., formann hv. sjútvn., og heyra hans álit á því sem hérna er að gerast og hvaða hlutverk hann telur að sjútvn. þingsins eigi að hafa hér, hvort hann telur að sú nefnd hafi ekkert um það að segja sem hér er að gerast. Ég held að það hljóti að vaka upp þær spurningar hvort það er ekki hv. Alþingi sem ber ábyrgð á þessu máli. Ríkisstjórnin er búin að klúðra því, hún ætlar ekki að leysa það. Hún er að lýsa því yfir að hún ætli ekki að leysa málið með því að leggja þessi mál svona fram. Ef það kemur ekkert annað fram en það þá hlýtur hv. Alþingi að taka það til alvarlegrar athugunar hvort ekki er hægt að leysa málið á milli þingmanna án þess að ríkisstjórnin hafi um það forustu. --- Hæstv. forseti. Er hv. 1. þm. Vestf. í húsinu?
    ( Forseti (KE) : Nei, hann er ekki hér.)
    Mér þykir það verra að hann skuli ekki vera við þessa umræðu sem hann ætti auðvitað að vera og það hefði þurft að gera honum viðvart að þetta mál er komið í umræðu. Sjálfsagt hefur hann vitað að

það var á dagskránni. En það er svo sem eftir öðru í kringum þessi sjávarútvegsmál að það skuli ekki vera fleiri viðstaddir þessa umræðu eins og þessi mál horfa alvarlega og það skuli líta þannig út að þjóðin standi frammi fyrir allsherjarverkfalli án þess að menn ætli að bregðast við með neinum hætti. Ég skora á hæstv. sjútvrh. að koma hér í þennan ræðustól og lýsa því yfir að það sé vilji til þess að leita samstöðu meðal þingmanna um að finna leiðir í samráði við sjómannasamtökin og aðra aðila sem eiga aðild að þessari vinnudeilu til þess að leysa þetta verkfall og þá skal ekki standa á mér og örugglega ekki öðrum þeim sem vinna í sjútvn. þingsins að sitja yfir því máli eins og þarf. En ég tel að það sé alveg fáránlegt og fráleitt að Alþingi Íslendinga fari í jólafrí og láti það vofa yfir að hér verði verkfall sjómanna án þess að það sé gert neitt til þess að reyna að afstýra því.