Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 16:47:01 (2697)


[16:47]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég held ég hljóti að verða að taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að mér fannst hæstv. sjútvrh. furðu fáorður í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv. Maður hefði ætlað að þeim miklu tímamótum yrði til haga haldið með einhverjum hætti í ræðu ráðherrans þegar ríkisstjórnin að sögn hefur náð samkomulagi í sjávarútvegsmálum og hér hafa verið lögð fram mikil frumvörp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, um þróunarsjóð sjávarútvegsins og svo þetta merka frv. á þskj. 361 um ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs og allt sem í þessu felst, svo maður minnist ekki á að ráðherra hefði vikið einhverjum orðum að almennum aðstæðum í sjávarútveginum undir áramótin, boðuðu sjómannaverkfalli og afkomu greinarinnar og öðru slíku en því var ekki fyrir að fara. Hæstv. ráðherra, liggur mér við að segja, læddist í stólinn og fór með fáein orð frekar lágum rómi þar sem hann mælti fyrir þessu máli ef svo má að orði komast og var síðan jafnharðan horfinn aftur.
    Það er e.t.v. þannig að hæstv. sjútvrh. finnist fátt markvert til frásagnar af vettvangi sjávarútvegsins um þessar mundir en ef það skyldi fara svo að þetta yrði eina framsöguræðan fyrir þingmáli sem ráðherra flytur fyrir áramótin þá verður það nokkuð í minnum haft að hann hafði ekki meira um þessi mál að segja en þetta. Það stendur hugsanlega til bóta og e.t.v. heiðrar ráðherra okkur með einhverju öðru en andsvörum sem hann hefur aðallega tíðkað að flytja mál sitt í á undanförnum vikum. En það er alveg á hreinu alla vega hvað okkur fulltrúa Alþb. í sjútvn. snertir að við teljum það ekki ásættanlegt að Alþingi læðist heim í jólaleyfi með það ástand eins og raun ber vitni uppi í sjávarútvegsmálunum og það verði ekki tekið fyrir hér, annaðhvort í umræðum og/eða í viðkomandi nefnd hvort eitthvað má gera af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar ef um slíkt væri að ræða til þess að afstýra því sem stefnir í. Það væri harla sérkennilegt satt best að segja ef það væri ekki verðugt tilefni til einhverra orðaskipta það ástand sem uppi er.
    Það er nú svo, hæstv. forseti, að maður veit ekki almennilega hvernig á að byrja á því að ræða þetta frv. sem slíkt ef um efni þess á að fjalla. Það er aðallega að verða sagnfræði og einhvers konar skólabókardæmi í stjórnmálasögu að ræða þessa meðferð á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs, hún er með slíkum ólíkindum orðin öll sú saga og allt sem að því lýtur, bæði í umgengni ríkisstjórnar við Alþingi, við lagasetningarvaldið, meðferð þessara mála og lagaframkvæmd eins og best sést á því að hér er verið að reyna að flytja einhvers konar eftir á heimild til þess að hafa brotið hér lög um fjögurra mánaða skeið og það hafa menn viðurkennt að auðvitað er það skýlaust brot á gildandi lögum um Hagræðingarsjóð að veiðiheimildunum skuli ekki hafa verið ráðstafað með þeim hætti sem gildandi lög kveða á um.
    Ef til vill gefst betra tækifæri til að fara rækilegar yfir þessa sögu þegar meiri tími er til stefnu til umræðna. Nú er nokkurt annríki á þingi eins og kunnugt er, hæstv. forseti, og svo sem af nógu að taka í þeim efnum og ekki ástæða til að hafa fleiri orð um slíka hluti sem ekki úreldast hratt eins og sagnfræðin í sambandi við þetta mál. En það er alveg nauðsynlegt að þeirri sögu verði til haga haldið. Hún er um margt afar athyglisverð. Hér er í sjálfu sér lögð til sú ósköp einfalda ráðstöfun á veiðiheimildunum að þeim verði úthlutað endurgjaldslaust til jöfnunar og þá til þeirra sem fyrir mestri skerðingu hafa orðið við úthlutun aflamarks á yfirstandandi fiskveiðiári. Nú mun standa þannig á að svo til allar veiðiheimildirnar eru eftir og þar með er upplýst og kemur fram í þingskjalinu að þetta nægi til þess að enginn verði fyrir meiri skerðingu en tæplega 10%. Það sýnir á hinn bóginn vandann í hnotskurn hjá þeim aðilum sem fyrir þessari skerðingu hafa orðið að þrátt fyrir þessa útjöfnun sitja menn þá eftir bótalausir með um 10% skerðingu, þeir sem verst fara út úr dæminu, og hún er til viðbótar því sem þeir hafa tekið á sig á undangengnum árum. Þetta á auðvitað einkum og sér í lagi við um þá sem mesta aflareynslu hafa í þorski og staðreyndin er náttúrlega sú að meðferðin á þessum málum hefur alls ekki verið réttlát að mínu mati ef horft er til þess hversu ákaflega mismunandi útgerðirnar standa að vígi í þessum efnum, enda kom það á daginn að sú leið sem ríkisstjórnin valdi til að mynda á árinu 1992, fiskveiðiárinu 1991--1992, þýddi það að sumar útgerðir fengu aukningu í úthlutuðum aflaheimildum í heild þegar í hlut áttu til að mynda þær útgerðir sem mesta aflareynslu höfðu í öðrum tegundum en þeim sem þá drógust saman. En þorskveiðiútgerðirnar og þorskveiðisvæðin hafa þarna tekið á sig gífurlegan skell og það á auðvitað einkum við um útgerðina fyrir vestan og norðan.
    Þetta liggur allt saman fyrir og þarf svo sem ekki að fjölyrða um. Það sem óhjákvæmilegt er að nefna í þessu sambandi, hæstv. forseti, við framlagningu þessa frv. er auðvitað sú staða sem þrákelkni ríkisstjórnarinnar og hæstv. sjútvrh. hefur sett Alþingi í að standa núna frammi fyrir því að greiða aftur atkvæði um frv. sem það er búið að fella. Það er auðvitað með miklum endemum að ríkisstjórnin skuli standa þannig að málum af þráa einum saman. Það er ekkert annað en þrái. Það er langbesta íslenska orðið yfir það sem hér er á ferðinni, það er þrái. Að ríkisstjórnin af einhverjum misskildum hégómaskap og metnaði og þráa hefur ekki fallist á það að afla lagaheimilda með eðlilegum hætti til þessarar ráðstöfunar sem hefur legið á borðinu, hvorki í fyrravor né í haust, og hefur þess vegna trekk í trekk leiðst út í þá ófæru að misbjóða þingræðinu með framgöngu sinn, fyrst með því að neita afgreiðslu á frumvörpum um ókeypis úthlutun veiðiheimildanna í fyrravor í byrjun maímánaðar og setja síðan sömu ákvæði með bráðabirgðalögum nokkrum vikum síðar sem var alveg fáheyrð framkoma við þingið og stjórnarandstöðuna sem þessi mál flutti, en enn verri er þó hlutur stjórnarinnar á þessu hausti vegna þess að ríkisstjórnin gengur svo langt í þráa sínum í málinu að hún stuðlar beint og óbeint að lögbrotum um margra mánaða skeið frekar en brjóta odd af oflæti sínu og fallast á afgreiðslu mála sem stjórnarandstaðan flytur af engri annarri ástæðu en þeirri að stjórnin getur ekki af einhverjum misskildum hégómaskap og metnaðarástæðum fallist á það að málin séu til lykta leidd á grundvelli tillagna frá stjórnarandstöðunni. Öllu ómálefnalegri og ómerkilegri í sinni framgöngu og samskiptum við þingið og stjórnarandstöðuna geta menn varla orðið, hæstv. forseti, þegar menn viðurkenna gersamlega að engar efnisástæður liggi fyrir afgeiðslu þeirra á málum og atkvæðagreiðslu þeirra á þingi. Hver er munurinn á efnisinnihaldi þessa frv. sem hv. stjórnarliðar ætla sér væntanlega núna að samþykkja og því sem þeir felldu hérna um daginn? Vill hæstv. sjútvrh. koma hérna upp og útskýra það í einstökum atriðum? Það mætti segja mér að einhver samviskusamur embættismaður hafi haft rænu á því að breyta einum stafkróki einhvers staðar til þess að það væri hægt að hanga á þeim bláþræði að þetta væri ekki nákvæmlega sama málið, ekki efnislega nákvæmlega eins í hverju einasta atriði. Kannski hefur verið settur stór stafur einhvers staðar þar sem áður var lítill eða eitthvað því um líkt. En efnislega er nákvæmlega sama viðfangsefnið á ferðinni. Og þetta er auðvitað neðan við allar hellur, hæstv. sjútvrh. að svona skuli vera staðið að málunum. Og ég tek ekki mark á því þó að hæstv. ríkisstjórn eigi í innbyrðis erfiðleikum við að koma sér saman í sjávarútvegsmálum. Það eru ekki frambærileg rök gagnvart því að umgangast lagasetningarvaldið og vinnu hér á Alþingi með þessum hætti. Ríkisstjórnin verður að leysa þau mál með einhverjum öðrum hætti en þeim að stuðla mánuðum saman að lögbrotum og að misbjóða gersamlega hefðum og vönduðum vinnubrögðum hér á þinginu hvað svona lagað snertir.
    ( Forseti (KE) : Ég vil inna hv. þm. eftir hvernig ástatt er í ræðu hans. Nú er klukkan 5 og tími þingflokksfunda hafinn þannig að annað tveggja er að þingmaðurinn ljúki ræðu sinni á örstuttum tíma eða hann fresti ræðu sinni til kl. hálfníu en þá er ætlun að halda fundi áfram.)
    Ég held að það fari alveg prýðilega á því, hæstv. forseti, að ég haldi bara áfram kl. hálfníu og tek því tilboði með þökkum.