Almannatryggingar

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 20:40:43 (2700)


[20:40]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í umræðu um þetta mál fyrr í dag þá tel ég með öllu fráleitt að setja fram lagatexta af þessu tagi, ég tala nú ekki um gagnvart gjörningi, samningi, sem ekki enn hefur gengið í gildi og í raun og veru ótrúlegt metnaðarleysi af hálfu þeirra sem bera þetta frv. fram að ætla að framselja með þessum hætti reglugerðarvald eða ákvörðunarvald til utanaðkomandi aðila sem starfa þannig að þessi samkoma, löggjafarsamkoma Íslendinga, hefur engin bein áhrif á þá ákvarðanatöku sem þar fer fram. Og það bítur auðvitað höfuðið af skömminni að lögskýringin sem gefin er í umsögn um greinina hér í greinargerð með frv. stenst ekki og það er auðvitað fráleitt að hægt sé að tala um lögfestingu hluta í formi framselds valds til að gefa út eða öllu heldur endurprenta óbreyttar reglugerðir frá Evrópubandalaginu. Lengra eða lægra komast menn ekki, hæstv. forseti. Ég segi nei við þessu.