Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 21:08:00 (2707)


[21:08]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir og þá er ljóst að það er hér eitt einasta efnisatriði eða öllu heldur ein tala sem er ofurlítið breytt frá því sem var í því frv. sem meiri hlutinn felldi hér fyrir nokkrum vikum síðan. Að öðru leyti eru það breyttar aðstæður úti í þjóðfélaginu sem valda því að verkun laganna er eilítið önnur nú en hún hefði kannski verið fyrr á árinu og það er auðvitað ljóst að slíkt getur hent með lög og gerist gjarnan. En tæpara má það nú ekki vera satt best að segja, hæstv. forseti, þó það sé út af fyrir sig ánægjulegt að þessar breyttu aðstæður, þ.e. meiri úthlutaður loðnukvóti, komi mönnum til góða í því að það er hægt að ganga lengra til lagfæringar gagnvart bolfiskveiðiskipunum. Það breytir satt best að segja næsta litlu um bakgrunn þessa máls í mínum huga og sagan stendur eins og hún hefur verið og verður skrifuð um meðferð hæstv. ríkisstjórnar á þessu máli. En ég vona svo að til þess að greiða fyrir umræðunni verði hæstv. sjútvrh. fyrr eða síðar við óskum um að setja sig hér á mælendaskrá og gefi okkur ofurlitla innsýn í það hvað hæstv. ríkisstjórn hyggst fyrir, ef eitthvað, í sambandi við almennar aðstæður greinarinnar, eins og þær blasa nú við.