Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 21:09:33 (2708)


[21:09]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Auðmýking hæstv. ríkisstjórnar er algjör. Hún hefur látið hafa sig í það að fella í tvígang tillögur stjórnarandstöðunnar sem eru efnislega samhljóða í öllum þeim atriðum sem mestu máli skipta um ráðstöfun veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs og þá gerist það bæði á því fiskveiðiári sem nýliðið er og næsta ári og þetta gerir hún til þess eins að flytja sama mál hér inn á þing. Að sjálfsögðu var öllum orðið ljóst fyrir lifandis löngu að þetta er eina raunhæfa leiðin. Vandræðagangurinn, seinagangurinn og flumbruskapurinn er allur með eindæmum. Þau vinnubrögð að reyna að læðupokast með hagræðingarsjóðsmálið í skjóli bráðabirgðalaga annars vegar og jólanna hins vegar er auðvitað alveg út í hött. Ef hæstv. ríkisstjórn heldur að það taki enginn eftir þessu, þá skjátlast henni. Þetta blasir við öllum þeim sem málið varðar og ríkisstjórnin heldur ekki andliti með því að hundsa skynsamlegar tillögur okkar stjórnarandstæðinga heldur væri henni betra að viðurkenna þær. Þessi feluleikur breiðir ekki yfir vandræðagang ríkisstjórnarinnar almennt varðandi stjórn fiskveiða ef það er tilgangurinn, en sú umræða mun áreiðanlega bíða betri tíma.
    Það liggur við að það læðist að okkur, alla vega stjórnarandstæðingum, sá grunur að ríkisstjórnin megi ekkert heyra nefnt, hvorki í nefndastarfi né í umræðum hér á Alþingi, sem minnir á sjó eða fisk vegna þess hve mikið vandræða- og feimnismál þetta er orðið og það þótt við höfum fengið í hendur þykkan doðrant, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.
    Þetta er einfaldlega nokkuð sem ég geri ráð fyrir að við munum í ljósi reynslunnar komast að að er jafnerfitt mál ríkisstjórninni nú og það hefur verið og ég held að ríkisstjórnin geri sér allra best grein fyrir því að þetta mál er síður en svo útkljáð, hvorki í röðum stjórnarsinna né vegna athugasemda og aðgerða stjórnarandstæðinga. En ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þá umræðu nú, hún bíður síns tíma.
    En hvaða frv. er þetta, sem er svo ósnertanlegt að mati ríkisstjórnarinnar að hún er að reyna að grafa það hér í jólaönnunum og í bráðabirgðalagasetningu, sem út af fyrir sig er bæði óþörf og óþolandi í öllum tilvikum? Þetta frv. felur fyrst og fremst tvennt í sér sem er áhersluatriði sem við í stjórnarandstöðunni höfum iðulega bent á og ekki síst Kvennalistinn. Annars vegar er með þessu frv. heimild til að ráðstafa veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs til að vega upp á móti sveiflum, í þessu tilviki aflasamdrætti, rétt eins og við kvennalistakonur höfum jafnan bent á að væri nauðsynlegt að hafa svigrúm til. Þetta var öllum ljóst þegar hinar draumórakenndu hugmyndir um ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs voru til umræðu á síðustu missirum. Í þessum tilvikum er um það að ræða að veiðiheimildum verði útdeilt til skipa, en við kvennalistakonur höfum löngum bent á að það væri miklu nær að úthluta þeim til byggðarlaga. Hins vegar er ánægjulegt að einmitt í gegnum Hagræðingarsjóð var nú á þessu ári stigið það skref að úthluta kvóta til byggðarlags, rétt eins og heimilt er samkvæmt lögum um sjóðinn. Ég hef vissulega bæði nú og fyrr haft miklar athugasemdir við það hvernig þetta var framkvæmt, einkum eftir breytingu á þeirri lagagrein sem hér á við. Engu að síður gladdi það mig nokkuð að sjá að þar með var þeirri firru hrundið að það væri svo afskaplega erfitt í framkvæmd að úthluta kvóta til byggðarlaga, eins og menn látið í veðri vaka.
    Það er annað atriði í þessu frv. og það er endurgjaldslaus úthlutun veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs, en þetta felst einmitt í frv. og þá meina ég felst í tvennum skilningi miðað við þá öskubuskumeðferð sem þetta blessaða frv. fær. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að halda þessu til haga því að ég vil bara minna á og rifja upp fyrir ykkur, hv. þm., sem fylgst hafa með fyrri umræðum um Hagræðingarsjóð, að það var nákvæmlega þetta svigrúm sem þurfti. Einnig vil ég rifja það upp að hér er í raun verið að gefa draumum sumra í Alþfl. um veiðileyfagjald langt nef, því ef Hagræðingarsjóður er stökkpallur í átt til upptöku slíks gjalds þá var þetta magalending á þeim palli, svona í þessari umferð a.m.k.
    Það þarf ekki að endurtaka þá umræðu sem hefur verið um þetta atriði, en það er aldrei of seint að viðurkenna staðreyndir. Þessara veiðiheimilda var einfaldlega þörf og er þörf til réttlátrar útdeilingar á tíma aflasamdráttar. Ég bendi á að það geta komið til fleiri sveiflur vegna hinnar kolómögulegu stjórnar fiskveiða sem við búum nú við, þar sem kvótasala hefur bæði raskað stöðu margra byggðarlaga, útgerða og sett bæði einstaklinga, fyrirtæki og jafnvel heilu byggðarlögin í mikinn háska. Þetta er auðvitað meginatriðið. Það er ekki nóg með að við búum ekki við góða stjórn fiskveiða. Við höfum ekki tekið upp byggðakvóta enn, heldur búum við við svo vonda stjórn fiskveiða með það kvótabrask og það kvótaframsal og þá tilfærslu kvóta sem verður á milli byggðarlaga að það þyrfti jafnvel að hafa enn sterkari ákvæði í núverandi lögum um stjórn fiskveiða og öðrum þeim lögum sem þeim tengjast, svo sem hagræðingarsjóðsfrumvörpum af ýmsu tagi, bara til þess að koma í veg fyrir eða leiðrétta þær villur og þau vandræði sem núverandi kvótalög hafa leitt yfir okkur. Um þetta er í rauninni ekki deilt. Ég þarf ekki að rifja upp baráttu sjómanna gegn kvótabraski. Ég þarf ekki að rifja upp stöðu sumra byggðarlaga, sumra fyrirtækja og þeirra fjölskyldna sem búa í þessum byggðarlögum og vinna hjá þessum fyrirtækjum. Þetta er hverjum manni ljóst og ég skil ekki þá tregðu og þá togstreitu sem verið hefur að horfast ekki í augu við staðreyndir og fara að framkvæma svolítið skynsamlega.
    Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það skammarlega litla samráð sem haft er við sjútvn. ekki bara í þessu máli heldur í öllum málum og einkum er þetta alveg hreint forkastanlegt þegar það er beinlínis lögbrot að hafa ekki samráð við sjútvn. varðandi endurskoðunina á lögunum um stjórn fiskveiða. Við sem erum í sjútvn. eða áheyrnarfulltrúar þar höfum margoft bent á þetta og annaðhvort er þetta skortur á heyrn, skilningi eða vilja að hafa ekki tekið tillit til þessara ábendinga okkar, nema allt þetta sé. Og ég verð að segja að maður hlýtur að hafa vissar efasemdir um hvernig ráðamönnum sem haga sér svona er yfir höfuð treystandi fyrir stjórn landsins, ef þeim tekst ekki í þessu afmarkaða og mjög svo umrædda máli að heyra, skilja og fara eftir réttmætum ábendingum allra sjávarútvegsnefndarmanna sem margoft hafa úttalað sig um þetta og stjórnarsinnar hafa sem betur fer bent réttilega á þetta, rétt eins og við stjórnarandstæðingar. Þetta er hreinlega óþolandi og ég held að það hefði verið full ástæða til þess að hafa samráð við sjútvn. þegar þetta frv. lá fyrir og ég held að það hefði síður en svo skaðað frv. og það hefði áreiðanlega greitt fyrir framgangi þessa máls hér á Alþingi. En slíkur er feluleikurinn að það þykir frekar sæma að koma með þetta á elleftu stundu og ætla að keyra það í gegn í von um að það komi ekki upp á yfirborðið hvaða vandræðagangur hefur verið í kringum þetta.
    Ég þarf ekki að fara nánar út í það hvers vegna við í stjórnarandstöðunni ætlum að ríkisstjórnin hagi sér svona í þessu máli, það hef ég þegar rakið og þeir sem á undan mér hafa talið, tveir þeir síðustu a.m.k.
    Ég vil minna á það að í umræðu um málið fyrir liðlega ári síðan benti ég á að þolendur í þessu máli, þegar ekki er tekist á við vandann um leið og þarf að gera það og á þann hátt sem þarf, er fólkið sem missir atvinnu, sveitarfélög sem missa tekjur og veltu úr sveitarfélagi, sjómenn sem þurfa að þrengja að sér, fiskvinnslufyrirtækin sem geta stundum hvorki lifað né dáið og útgerðirnar sem standa höllum fæti af ýmsum ástæðum. Þessir aðilar hafa allir látið í ljós ósk sína með það að hægt sé að beita Hagræðingarsjóði til sveiflujöfnunar til þess að draga úr áföllum vegna kvótasamdráttar í öllum þeim fjölbreytileika sem upp getur komið. Vissulega er nöturlegt að það skuli hafa tekið allan þennan tíma og allar þessar krókaleiðir að koma þessu máli, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, af stað. Ég ætla það þó að þrýstingur bæði innan þings og utan hafi fyrir löngu verið búinn að gera stjórnvöldum það ljóst að þarna var um raunverulegt mál að ræða, raunverulegan vanda og raunverulegar lausnir sem hægt var að finna. Auðvitað er búið að margræða þetta og takast á um þessi mál og vissulega að setja þetta inn í ráðstafanir ríkisstjórnar og með einum eða öðrum hætti að viðurkenna þetta. Ég held að þrátt fyrir það að málið sé efnislega vissulega jákvætt þá sé aðdragandi þess og þessi málatilbúnaður skaðlegur. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni í þessu máli og ég vona að við þurfum ekki í þriðja skipti í vor eða haust að standa frammi fyrir einhverju af þessu tagi enn og aftur vegna þess að ríkisstjórnin er að breiða yfir innbyrðiságreining, eitthvað mjög svo misskilið stolt, ég veit ekki yfir hverju það stolt ætti svo sem að vera, en það er kannski sært stolt, og að ríkisstjórnin hefur einfaldlega ekki tök á þeim málum sem brýnust eru hér eins og þegar alvöruvandamál koma upp. Það verður að draga saman afla. Ég er ekki að gagnrýna að það hafi verið niðurskurður á aflaheimildum, ég held að það hafi verið nauðsynleg varúðarráðstöfun vegna þess hvernig horfði um fiskstofna okkar. En það er jafnljóst að ef ekki er tafarlaust gripið til ráðstafana til þess að jafna þessar sveiflur og þessar skerðingar hjá þeim sem verst verða úti, þá getur slíkur niðurskurður og slíkar friðunaraðgerðir haft hliðarverkanir í för með sér sem bæði eru óþarfar og óþolandi.
    Ég ætla ekki í 1. umr. að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég veit að við stjórnarandstæðingar og ég vænti þess stjórnarliðar einnig, munum taka málefnalega á þessu. Rökin í þessu máli hafa í rauninni verið margtíunduð og ef ekki væri um þessi vinnubrögð að ræða þá væri þetta mál löngu komið í höfn.