Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 21:46:40 (2716)


[21:46]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil segja það við hv. þm. Jóhann Ársælsson að ég gat þess einmitt hér að það væri ömurlegt til þess að vita að þingið skyldi fara heim undir þessum kringumstæðum sem nú eru í þjóðfélaginu og eiga það yfir höfði sér að hér verði allsherjarverkfall hjá sjómönnum. Vissulega tek ég undir það með hv. þm. að auðvitað væri eðlilegt að hér yrði tekin upp almenn umræða um sjávarútvegsmálin en ekki undir þessum lið sem við förum að ræða þau mál, að hér yrði tekin upp almenn umræða um sjávarútvegsmál áður en við færum í jólaleyfi. Það væri auðvitað fullkomlega eðlilegt að slíkt væri gert vegna þess hve ástandið er alvarlegt í þessari grein. Og það skal ég taka undir og væri tilbúinn að taka þátt í.
    Vegna þess að hv. þm. vék að Framsfl., hvernig viðskilnaður okkur hefði verið þegar við fórum með málefni sjávarútvegsins þá var hann nú ekki verri en svo, hv. þm., að tvö síðustu stjórnarárin Framsfl. var sjávarútvegurinn rekinn með hagnaði. Hann gerði meira en það að borga af skuldum sínum og við þurfum ekki að biðjast afsökunar á því. Og það voru nú fleiri heldur en framsóknarmenn sem komu að því að taka upp stjórnun fiskveiða. Við vorum ekki einir um það en vissulega lenti það á Framsfl. að leiða það mál. Ég kem auðvitað við kvikuna á þeim aðilum sem hér vilja nú verja sig og fría sig gegn því að tala hér fyrir auðlindaskatti. En það stendur hér eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson kom inn á. Auðvitað er Alþb. að tala um það að koma á afnotagjaldi fyrir auðlindina. Þeir eru búnir að gera það lengi. Og það eru fleiri flokkar hér á Alþingi, allt of margir sem eru farnir að taka undir það væl og þær hugmyndir Alþfl. að borga aðgang að miðunum.