Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 21:50:17 (2720)


[21:50]
     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um Hagræðingarsjóð og hafa nú ýmsir hv. þm. hlaupið um víðan völl og farið yfirleitt inn á gang sjávarútvegsmála í heild en ekki þetta frv. Ég tel frv. vera til mikilla bóta frá því sem verið hefur. Ég hef verið óánægður með þá tilhögun sem í gildi hefur verið og var í gildi fram á síðasta haust og ég fagna því að frv. um þetta efni er nú komið fram.
    Ég ætla ekki að fara hér inn á fiskveiðimálin almennt en tel mig þó knúinn til þess vegna fyrirspurna frá hv. 3. þm. Vesturl. um það hvað formaður sjútvn. ætli að gera í sambandi við væntanlega vinnudeilu. Ég hef aldrei vitað til þess að formaður í einni þingnefnd hafi farið að skipta sér af vinnudeilum. Við höfum sett lög um vinnudeilur. Við höfum embætti sáttasemjara í vinnudeilum, ríkissáttasemjara. Hann hefur sína aðstoðarmenn og það er hans hlutverk að leiða deiluaðila saman. Það hefur ekki verið reynt til þrautar hvort hér væri hægt að ná samkomulagi eða ekki. Það er hlutverk þessara aðila en ekki nefndar á Alþingi.
    Ég spyr hv. þm. hvenær nefnd eða nefndarformaður á Alþingi hafi gripið inn í vinnudeilu á því augnabliki þegar verið er að reyna sættir á milli deiluaðila. Ég kannast ekki við það þó ég sé búin að vera hérna í 30 ár og jafnvel þó við förum lengra aftur í tímann. Ég skil ekki hvað menn eiga við með því að ætla mönnum þetta hlutverk.
    Hitt má svo liggja á milli hluta og það kemur að því að um það verði deilt, um fiskveiðistjórnun og mér finnst nú hálfleiðinlegt karp á milli hv. 3. þm. Vesturl. og 4. þm. Norðurl. v. hvor eigi meira eða minna í þessu kvótadrasli sem hefur verið hér við lýði á undanförnum árum. Ég held bara að það hafi ekki gengið hnífurinn á milli þessara flokka og því miður allt of margra í núverandi stjórnarflokkum líka. En það hefur þó heldur verið hamlað þar af ákveðnum mönnum. En mér er auðvitað alveg sama þótt þeir karpi um það hvort annar flokkurinn á 51% sök á því en hinn 49 eða hvort þeir vilja mætast þá á miðri leið og eiga 50% hvor. Ég hugsa að það sé miklu nær sanni.
    Ég tel því enga ástæðu til þess á þessu stigi að fara að ræða hér um þessa vinnudeilu. Ég hef mínar tilfinningar og ég hef mínar skoðanir gagnvart deiluaðilum í þessum efnum en það verður að fara rétta boðleið. Sjómenn hafa sagt upp samningum. Þeir hafa hótað verkfalli um áramót. Einn sjómaður sagði hér í dag að því mundi verða vísað til félagsdóms. Ég veit ekki hvort það er satt eða rétt og á meðan slíkt stendur fyrir dyrum, þá tel ég fráleitt að tala um það að Alþingi fari að blanda sér í málið. Það er að taka fram fyrir hendurnar á ríkissáttasemjara með slíku atferli.