Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:02:00 (2725)

[22:02]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég bað um að fá að veita andsvar að gefnu tilefni þar sem hv. 1. þm. Vestf. nefndi það að verið gæti að yfirvofandi sjómannaverkfall færi fyrir félagsdóm, þá vildi ég vekja athygli hans á því að fyrir þinginu liggur, og raunar reynt að hraða því máli af hálfu stjórnarsinna, frv. sem gæti gerbreytt gangi mála fyrir félagsdómi ef að lögum yrði í því ástandi sem stjórnarsinnar vilja sjá það. En það er varðandi öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Þar er nefnilega eins og frv. lítur nú út ákvæði um það að ef málum er vísað til félagsdóms, þá sé hægt að tefja þar mál, það er að vísu ekki þannig orðað en það er hægt að tefja mál í reynd sem venjulega ganga hratt fyrir sig hjá félagsdómi, enda er það eðli þess dóms með því að biðja um álit frá EFTA-dómstólnum og þetta er sem sagt hægt að biðja um samkvæmt því frv. eins og það lítur út fyrir núna sem liggur fyrir þinginu og ég vil benda hv. þm. á það að ef hann lítur á það sem lausn í þessu máli að félagsdómur fjalli um það, þá reyni hann nú að tala um fyrir samherjum sínum á Alþingi að það verði þá ekki gert útilokað að nýta félagsdóm í þessu skyni.