Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:10:24 (2727)


[22:10]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Við eigum kannski ekki að vera að eyða þessari stund í að karpa um stjórnun fiskveiða undir þessum lið því að hér er annað mál á dagskrá þó að það vissulega snerti stjórnun fiskveiða að nokkru leyti. En að gefnu tilefni vil ég samt segja það hér og rétt minnast á eitt og varpa spurningu fram, það verður þá að ráðast hvort henni verður svarað núna eða síðar þegar við fjöllum um stjórnun fiskveiða. Er það nú virkilega svo að það hafi verið Framsfl. sem réði því eða var við stjórnvölinn þegar fyrst var farið að tala um að setja kvóta og kvóti var settur á í sjávarútvegi? Er það svo? Eru menn virkilega búnir að gleyma því að það er kvóti á öðrum fisktegundum en bara botnfiski og þorski? Hvaða ár skyldi það hafa verið þegar kvóti var settur á loðnuveiðar? Ætli það hafi ekki verið í kringum 1977 eða 1978 þegar hv. þm. Kjartan Jóhannsson, fulltrúi Alþfl., fór með málefni sjávarútvegsins? Hver ætli hafi farið með málefni sjávarútvegsins þegar kvóti var settur á humar, síld og rækju, hver ætli hafi verið í sjútvrn. þegar kvóti var settur á vinnslustöðvar í rækju? Halda menn að það hafi verið framsóknarmenn? Það er eins og mig minni að það hafi verið einhverjir aðrir.
    En það er rétt, við framsóknarmenn og ég, eins og hv. þm. vék hér að, áttum þátt í þessum kvótalögum. Ég biðst ekki afsökunar á mínum þætti í þeim málum. Ég var formaður sjútvn. og þess vegna mæddi það nokkuð á mér og ég er ekki að fría mig ábyrgð í því. Ég tel að þessi lög sem við búum við séu þokkaleg lög og það illskásta sem við gátum fundið upp og það var unnið að því á virkilega annan hátt heldur en nú hefur verið gert, reynt að ná sem víðtækastri sátt í þeim efnum. Og það var ekki barasta við sjómenn og útgerðarmenn sem þá var talað. Það var líka reynt að ná sátt við fólkið í landi, fiskverkafólkið en mér finnst nú að þeir sem tala um sjávarútvegsmál og stjórnun veiða muni ekki eftir þeim þættinum og þeim hópi fólks sem á jafnmikilla hagsmuna að gæta. Í þessum lögum var reynt að tryggja það að þeim siðum væri hætt að mæta að morgni og segja þessu fólki að fara heim að kvöldi og vinnan væri bara búin. Og það er auðvitað þetta sem menn eru nú að reyna að skapa undir þessum lögum. Það er það að byggja hér upp verksmiðjurekstur í þessari atvinnugrein og það er auðvitað það sem þarf að koma.
    Að endingu vildi ég spyrja hv. þm. og ágætan vin minn Jóhann Ársælsson hvort hann telji virkilega að í núverandi lögum um stjórnun fiskveiða sé gefin heimild til þess að sjómenn taki þátt í kaupum á óveiddum fiski. Telur hv. þm. að það standi í núverandi lögum um stjórnun fiskveiða?