Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:29:38 (2731)


[22:29]
     Matthías Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í raun og veru þarf ég ekki að endurtaka það. Ég hef sagt að þessi vinnudeila er í höndum ríkissáttasemjara og það verður hans að leita sátta en ef þær sættir takast ekki verður fyrst og fremst að koma til kasta ríkisstjórnarinnar. Ég hef setið í ríkisstjórn og það oftar en einu sinni og hef oft þurft að beita mér fyrir því að koma á sáttum. Stundum hefur maður þurft að beita sér fyrir lögum þegar sættir hafa ekki gengið, en það hefur verið reynt til hins ýtrasta.
    Ég sagði áðan að ég frétti það frá einum leiðtoga sjómanna, ekki útgerðarmanna, að útgerðarmenn ætluðu með verkfallshótunina fyrir félagsdóm og ég tel fráleitt að Alþingi fari að skipta sér af málinu á meðan. Það getur orðið til þess að það verður einhver frestun á verkfallinu. Verði engin frestun á verkfallinu þá er ég alveg öruggur um að ríkisstjórnin hlýtur að taka málið í sínar hendur og hún hlýtur þá að hafa samvinnu við þá menn sem eru innan þingsins og vilja komast hjá því að flotinn stöðvist.