Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:30:59 (2732)


[22:30]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir þetta andsvar. Það var mjög skýrt. Það er satt að segja fagnaðarefni að það er talað mjög skýrt í þessum málum. Það hefur nokkuð skort að af hálfu ríkisstjórnarinnar væri talað jafnskýrt og hv. 1. þm. Vestf. gerði hér. Ég er alveg sammála honum um að það er eðlilegt að verði málinu vísað til félagsdóms séu engar ákvarðanir teknar um hvað gera eigi í málinu fyrr en úrskurður hefur þar fallið. Það er enginn ágreiningur milli okkar í þeim efnum. Ég er líka sammála honum um það, fyrst hann kýs að orða þetta á þann veg, að eðlilega er það skylda ríkisstjórnar að ganga til samstarfs við ríkissáttasemjara um að finna lausn á málinu. Ég hef hins vegar skilið þögn hæstv. sjútvrh. í þessum umræðum á þann veg að hann telji sig ekki hafa neitt svigrúm og kannski ekki vilja til þess að leita þeirrar lausnar. Kannski breytist það, vonandi breytist það. Ég mundi fagna því ef það breyttist.
    Þetta mun allt saman skýrast á næstu dögum og ég fagna því að við erum sammála um það, ég og hv. 1. þm. Vestf., að ef það gerist að deilan stendur enn, félagsdómur hefur ekki breytt henni og ríkisstjórnin hefur ekki gefið neina yfirlýsingu um að hún hafi vilja til þess að fást við þessa deilu og leita þar lausnar, þá hljóta menn í þinginu að tala sig saman um hvernig er hægt að forða sjómannaverkfalli, einkum og sér í lagi ef það á að hefjast um næstu áramót.