Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:39:46 (2737)


[22:39]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Kannski hafa þessi orðaskipti núna síðasta korterið verið svolítið lýsandi fyrir umræðu um sjávarútvegsmál að undanförnu. Hún einkennist að mínu mati allt of mikið af því að menn víkja sér undan að tala um kjarna málsins og gefa sér allt of oft að til séu einhverjar einfaldar patentlausnir og sé þeim beitt þá þurrkist öll vandamál í burtu eins og dögg fyrir sólu. Sumir menn trúa á veiðileyfagjald, aðrir á héraðakvóta, þriðji hópurinn á sóknarmark. Einhverjir trúa því að ef frystitogarar verði bannaðir verði allt í lagi í sjávarútvegsmálum, en málið er einfaldlega ekki svona einfalt. Þegar við erum að ræða um stjórnun sjávarútvegsmála er verið að takast á um skiptingu á okkar grunnauðlind og þar duga engar og eru ekki til neinar einfaldar patentlausnir. Þar dugir ekkert annað en horfast í augu við málið og taka á því eins og þarf að gera á hverjum tíma. Og eitt er alveg ljóst í mínum huga, að nánast allar þær leiðir sem menn hafa rætt um eru óframkvæmanlegar öðruvísi en menn skipti aflanum með einhvers konar kvótaskiptingu nema þeir sem tala um veiðileyfagjald vilji að þar verði einfaldlega bara boðið upp á opnum markaði og þar verði byrjað upp á nýtt á hverju ári og það verði sá sem hæst býður í hvert skiptið sem fær mestar aflaheimildir á hverjum tíma. Það getur vel verið að það eigi þeir við sem eru að daðra við veiðileyfahugmyndirnar hvort sem þeir eru í Alþfl., Sjálfstfl. eða Alþb., en í öllum þessum flokkum hefur þessum hugmyndum skotið upp. En enginn sem daðrar við þessar hugmyndir, eða alla vega mjög fáir, hafa hins vegar haft kjark til þess að segja hér hvað þeir meina. Það er ósköp auðvelt í þessu máli að fiska í gruggugum sjó og slá um sig með frösum um veiðileyfagjöld, um aflamörk og aðra slíka hluti en þurfa síðan ekkert að standa skil á því hvað menn meina með málinu.
    Framsfl. hefur haft kjark til þess að standa á sinni stefnu í fiskveiðum. Ég er þeirrar skoðunar að þau lög sem voru lögfest meðan Framsfl. fór með þessi mál séu engin endanleg lausn. Vissulega verður að taka þau til endurskoðunar og breyta. Það sem ég tel stærstu brotalömina núna sem verði að taka á er þátttaka sjómanna í kvótakaupum. Það er sá hlutur sem verður að taka á en núv. hæstv. ríkisstjórn hefur ekki haft manndóm í sér til þess að gera. Málið hefur verið í gíslingu, í deilum milli stjórnarflokkanna og meðan svo er hefur ekkert komið fram og ekkert gerst. Árangurinn er það sem við sjáum núna að það stefnir í verkfall, harða deilur þar sem Morgunblaðið, af því að menn vitnuðum í Morgunblaðið, er farið að hvetja sjómenn til verkfalla, ekki til þess að bæta kjör sín heldur í pólitískum tilgangi, til þess að hafa áhrif á lagasetningu og framgang sjávarútvegsstefnunnar. Það er því full ástæða til þess að menn taki þessa umræðu.
    Ég ætla, virðulegi forseti, að gera einn þátt að umræðuefni. Það er sú mikla umræða sem hefur verið um trilluútgerð og krókaleyfi. Nú vil ég taka það fram að ég ber fulla virðingu fyrir trilluútgerð. Hún á langa hefð og verður að viðhalda henni. Hún skiptir miklu máli í ákveðnum byggðarlögum. En ég er þeirrar skoðunar að þeir útgerðarmenn smábáta sem höfðu þessa atvinnugrein að sinni aðalatvinnu áður en kvótakerfið var sett á væru mun betur settir í dag ef það hefði strax í upphafi verið sett aflamark á smábátana líka, hvort sem það hefði verið heildaraflamark eða á einstaka báta eða hvernig sem menn hefðu útfært það. Ég held að þeir sem hafa farið verst út úr því kapphlaupi sem hefur verið um smábátana, um byggingu nýrra smábáta í kringum krókaleyfin, séu þeir sem í upphafi þessa ferils höfðu sína atvinnu af smábátaútgerð og ég held reyndar að það sé að renna upp fyrir mörgum í þeim hópi.
    Ég ætla að nefna annað í þessu sambandi. Mikil aukning veiða smábáta er tekin einhvers staðar. Hún kemur ekki af himnum. Ef þeir stækka hlutdeild sína í þorskaflanum, þá gerist það ekki öðruvísi, við höfum takmarkaða auðlind, en það sé tekið af öðrum. En þá komum við að hinum kaflanum. Það er tekið af togurunum fyrst og fremst og það er allt í lagi vegna þess að bak við togarana í þessari umræðu standa einhverjir sægreifar, einhverjir slæmir útgerðarmenn. En það gleymist stundum í umræðunni að það standa fleiri að togurunum heldur en ,,sægreifarnir`` og útgerðarmennirnir. Það eru togarasjómennirnir sem skipta hlut með útgerðarmönnunum og það er gengið á þeirra hlut ef aukið er annars staðar.
    Þeim sem mest tala fyrir smábátaútgerðinni finnst sjálfsagt og tala um það hér fjálglega: Við sendum bara þessa menn í Smuguna, Flæmska hattinn eða eitthvað annað. Mér finnst mál til komið að einhver standi upp og tali máli þessara aðila, togarasjómannanna. Það eru æðimörg heimilin í landinu sem eiga í dag afkomu sína undir því sem togarasjómaður aflar og þeim hlut sem hann á og af kvóta útgerðarinnar. Þetta gleymist því miður að mínu mati allt of oft.
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að halda hér langa ræðu en kannski fyrst og fremst varpa ljósi á það hvað mér finnst þessi umræða um sjávarútvegsmálin í raun vera grunn og hvað menn leyfa sér og hvað menn komast upp með að slá um sig með einföldum lausnum án þess að þurfa nokkurn tíma að standa skil á því hvernig eigi að útfæra þær. Mér fannst einnig ástæða að minnast á þann stóra hóp manna sem skiptir hlut með ,,sægreifunum``. Því miður verð ég ekkert óskaplega mikið var við þeirra forsvarsmenn í þessari umræðu, þá menn sem þeir hafa kosið og treyst á til þess að tala sínu máli.