Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:52:37 (2740)


[22:52]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er ekki viss um að Framsfl. sé búinn að æfa sig nógu vel í nýju tilverunni, þ.e. þeirri nýju línu sem verðandi foringi, og sumum finnst að gangi þó seint að koma honum í stólinn, hv. 1. þm. Austurl. er nú að móta, þ.e. sveigjanlegu viðhorfin.
    Nú er það svo að hv. 1. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, varð fyrir það frægur í íslenskum stjórnmálum (Gripið fram í.), bíddu rólegur augnablik, að skipta ógjarnan um skoðun. Nú er hins vegar öldin önnur og nú eru þeir framsóknarmenn hreyknir af því að þeir geti skipt um skoðun eins og aðrir flokkar og nefna til sögunnar tvö þrep í matarskatti í þeim efnum. Það sé til marks um það hvílíkur nútímaflokkur þetta sé orðinn, sveigjanlegur í viðbrögðum og viðhorfum, að þeir geti meira að segja skipt um skoðun varðandi matarskattinn. Og ég held að það verði fróðlegt að sjá hvort Framsfl. bregst við samkvæmt þessari nýju línu einnig í sjávarútvegsmálum. En það hefur lengi verið aðall flokksins að hafa þar bara eitt andlit, eina ásjónu og eina meiningu, þ.e. þá sömu og hv. 1. þm. Austurl. hefur.
    Nú tel ég að aðstæður séu fyrir hendi fyrir Framsfl. að prófa þessa nýju aðferð gagnvart sjávarútvegsmálunum og hv. þm. ætti að hugleiða að það gæti orðið hans hlutskipti fyrr en varir í anda hinna nýju siða í Framsfl. að taka heljarstökk, kollhnís, með sama hætti og þeir hafa gert gagnvart matarskattinum og fara nú að leggjast af miklum krafti gegn kvótakerfinu rétt eins og þeir studdu áður lægra skattþrep á mat en eru nú á móti því. Og það mun hafa verið síðast 20. nóv. á miðstjórnarfundi eða svo sem þeir framsóknarmenn ályktuðu um lægra skattþrep á mat en hafa nú skipt um skoðun eins og kunnugt er og það verður fróðlegt að sjá hvort þessi náttúra nýtist þeim gagnvart fleiri málum svo sem kvótakerfinu.