Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:56:30 (2742)


[22:56]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði að sjómenn væru að fara í verkfall ekki til að bæta kjör sín heldur til þess að hafa pólitísk áhrif. ( JGS: Það sagði ég ekki. Ég sagði að Morgunblaðið hvetti til þess á þessum ...) Ja, þú tókst upp þessi orð Morgunblaðsins og ég lagði þann skilning í orð þingmannsins að hann væri að koma þessari hugsun á framfæri hér í þinginu. ( Gripið fram í: Það var ekki Tíminn.) Ég vil segja það að ég held að sumir séu haldnir þessari firru. En það er nú einu sinni þannig að kjör sjómanna byggjast á hlutaskiptakerfinu og verslunin með kvótann fram og til baka er að eyðileggja samninga sjómanna og hlutaskiptakerfið og það er þess vegna sem sjómenn beita neyðarrétti sínum til þess að reyna að rétta sinn hlut.
    Hv. þm. sagði líka að trillurnar væru líklega betur settar ef þær hefðu verið settar á kvótann. Líklega veit hann það ekki að hluti af trillunum er á kvóta á þessu kerfi. (Gripið fram í.) Ekki í upphafi. Sá hluti trillanna sem er á kvóta er sá hluti sem var best settur gagnvart viðmiðun þegar kvótakerfið var sett á. Hvernig eru þeir settir í dag? Það eru þeir sem eru jafnvel alaumastir í trilluútgerð í dag sem eru á þessu kerfi sem hv. þm. var að nefna að hefði verið best fyrir þá að fá.
    Svo sagði hann að það væri verið að taka það af togurnum sem trillurnar fengju. Ja, sér er nú hvað. Togararnir hafa hömlulaust verið að veiðum allt í kringum landið sl. tvö og jafnvel þrjú ár. ( Gripið fram í: Hömlulaust?) Hömlulaust. Þeir hafa hömlulaust verið að veiðum. Þó svo að þeim hefði verið úthutað meiri veiðiheimildum, þá hefðu þeir ekki náð þeim. Stór hluti af veiðiheimildum togaranna, t.d. í Norðurlandi vestra, er notaður til þess að láta aðra fiska fyrir sig vegna þess að þeir ná því ekki sjálfir.