Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 23:06:10 (2748)

[23:06]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er sannast sagna athyglisvert að hæstv. sjútvrh. ætlar að láta það nægja sem framlag af sinni hálfu í þessa umræðu þau næsta strákslegu innskot sem hér komu frá honum í formi andsvara og skólastrákastíl í málflutningi sem hæstv. ráðherra taldi aðallega þörf á að iðka hér og fjallaði að mestu leyti um sjávarútvegsstefnu Alþb. og samþykkt landsfundar Alþb. Það er út af fyrir sig hið merkasta viðfangsefni en var kannski ekki það sem við þingmenn höfðum mestan áhuga á því að heyra hæstv. sjútvrh. fjalla um. ( Sjútvrh.: Ég skil það.) Þótt það sé ágætt í sjálfu sér að fá umfjöllun um það og sjálfsagt mál að gera hæstv. sjútvrh. þann greiða við betra tækifæri að taka þau mál rækilega fyrir.
    En hæstv. sjútvrh. er samt í því starfi að það á að heita svo að hæstv. sjútvrh. sé sjútvrh. en ekki blaðafulltrúi Alþb. nema það sé þá alveg nýtilkomið að hann hafi verið ráðinn í það starf í kvöld án þess að mér sé kunnugt um. Ég hef staðið í þeirri meiningu, hæstv. forseti, að ég væri að eiga orðastað við hæstv. sjútvrh. þjóðarinnar um þessi alvörumál og ég lagði fyrir hæstv. sjútvrh. nokkrar spurningar og óskaði eftir því að hæstv. sjútvrh. svaraði þeim. En það hefur reyndar vakið athygli mína að það er eins og hæstv. sjútvrh. sé alveg búinn að missa áhugann á stjórnmálum. Það er eins og hæstv. sjútvrh. telji það ekki lengur tilheyra starfi sínu að sinna skyldum sínum hér í þinginu með þeim hætti að svara fyrir þau mál sem hann fer með og ég endurtek: Ég hef þó ekki vitað betur fram að þessu en að sjútvrh. væri sjútvrh. En eitthvað virðist það vera að skolast til. A.m.k. er áhugi hæstv. sjútvrh. á því að svara fyrir sínar embættisskyldur og sín verk orðinn harla lítill. Satt best að segja er sérkennilegt að heyra sjútvrh. þjóðarinnar koma hér í ræðustól --- ekki til að svara og ekki til að halda ræðu heldur í skætingslegum andsvörum og hafa það eitt fram að færa gagnvart yfirvofandi allsherjarverkfalli í flotanum að ráðherra hafi strax í vor látið það koma fram að hann væri tilbúinn til að tala við sjómenn. Síðan bætti ráðherrann við: Það tilboð hefur hins vegar ekki verið þegið og það var eins og það væri pínulítið sár broddur í orðum hæstv. sjútvrh. að sjómenn hefðu bara ekki virt hann viðlits og ekki viljað tala við hann og þó hefði hann boðið þeim þetta í vor, hvorki meira né minna en boðið þeim að tala við þá í vor. Og síðan hefur ekkert gerst.

Það var ekki að heyra.
    Þetta er satt best að segja harla sérkennilegt og ekki von á því að málin séu í góðum farvegi ef samskiptin eru með þeim hætti að sjútvrh. lét það fara frá sér í vor þau merku tíðindi að hann væri tilbúinn til þess að tala við sjómenn og reyndar þess vegna útvegsmenn, sagði hann, en því hefur ekki verið tekið og við það situr og það er að skella á verkfall. Og það er lítið við því að gera, sagði hæstv. sjútvrh. í Dagblaðinu í dag.
    Það er auðvitað svo, hæstv. forseti, að það er mikil ógæfa fyrir þjóðina að ekki skuli hafa náðst meiri sátt um sjávarútvegsmálin á undanförnum missirum og árum. Það er ekkert annað hægt að gera en horfast í augu við að það er auðvitað ógæfulegt fyrir þessa þjóð að hafa þau mál í þeim farvegi að logandi deilur eru innan hagsmunahópa, milli hagsmunahópa og milli landshluta um þessi mál. Það lá ljóst fyrir þegar skýrsla tvíhöfða nefndar kom fram að um þá niðurstöðu sem þar væri boðuð yrði engin sátt, ekki við sjómenn, ekki við byggðarlögin og ekki við fiskverkafólkið í landi. Hluti útgerðarinnar í landinu tók þessu að vísu vel en þó voru flestir með hundshaus út í einhver atriði, meira að segja stórútgerðarforustan. Það ættu því ekki að vera nein ný tíðindi fyrir menn hvaða staða er hér upp komin. Það væri fróðlegt fyrir menn til að mynda og hv. 1. þm. Vestf. ekki síst að rifja upp viðbrögð Vestfirðinga, svo dæmi sé tekið, við boðskap þeirra tvíhöfðanna þegar þeir komu vestur og ýmis ummæli sem tæplega verða eftir höfð hér nema fá á sig stanslausan bjölluklið um það hvaða erindi þeir tvíhöfðar ættu vestur á firði til að kenna mönnum um sjávarútveg. En það er það sem sjútvrh. leggur hér fram hafandi ekkert aðhafst í málunum að því best verður séð síðan í fyrravetur til þess að reyna að vinna í þessu. Í hvað fór sumarið? Í hvað fór haustið? Og í hvað hafa vetrarmánuðirnir farið? Í ekki neitt. --- Í ekki neitt og loksins þegar nokkrir dagar eru til jóla kemur þetta óbreytt frá ríkisstjórninni og er hent inn í þingið. Ég fullyrði að það er vegna þess að ríkisstjórnin er að gefast upp í þessum málum og hún hefur ákveðið og valið þann kost að sulla þessu inn í þingið meira og minna með fyrirvörum í allar áttir. Einstakir þingmenn stjórnarinnar og einstakir ráðherrar stjórnarinnar lýsa sig með fyrirvörum gagnvart málinu. Síðan á að sjá til, sjá hvað setur eftir áramótin.
    Þetta er því auðvitað uppgjöf af hálfu ríkisstjórnar. Og síðan kemur hæstv. sjútvrh. og segir: Það er ekkert hægt að gera. Ég segi: Þetta er mikið ábyrgðarleysi. Það er að skella á verkfall sem mun hafa mjög alvarleg áhrif á a.m.k. hluta flotans og hluta greinarinnar. Ég nefni þar loðnuveiðarnar og síldveiðarnar, þar sem hver vika er dýrmæt sem líður án þess að síld komi til vinnslu. Ég nefni rekstur vinnsluskipanna og ég nefni tvöföldun á línuveiðum sem er mikið hagsmunamál margra útgerða og menn geta eingöngu nýtt sér yfir vetrartímann. Allt þetta er mjög viðkvæmt gagnvart því að einhverjar vikur eða ég tala nú ekki um mánuðir tapist af árinu í verkföll fyrir utan öll almenn áhrif af slíku, atvinnuleysi í landi o.s.frv. Og hafa svo hér sjútvrh. sem ekki hefur sig í ræðustólinn til þess að svo mikið sem svara aukateknu orði hvað ríkisstjórnin hyggst gera gagnvart þessu máli. Og að bera það á borð fyrir menn að það sé ekki hægt að koma að þeim hlutum af því að deilan sé komin til sáttasemjara er eins og hver annar þvættingur. Það er ekki verið að biðja um að málið sé tekið af sáttasemjara. Hitt er annað mál að ríkisstjórnin getur kannað hvort einhver grundvöllur sé til að leggja því lið að deilan leysist. Eða vita menn ekki hvar sáttasemjari er til húsa? Hann er inni í Borgartúni. Og vita menn ekki símanúmerið hjá deiluaðilum? Það mætti ætla að þessir samningar færu fram á annarri plánetu undir forustu einhvers sáttasemjara sem tali óskiljanlegt tungumál og þess vegna sé ekki hægt að komast að málinu. Auðvitað er það með ólíkindum hvernig hér er um málin fjallað.
    Þetta er hin mikla alvara þessa máls, hæstv. forseti, og af því að hér er annað mál á dagskrá sem fjallar um sjávarútveg og mér gefst e.t.v. tóm til að ræða á eftir, þá læt ég þetta nægja um þennan þátt málsins að sinni. En ég tel það ekki eftir mér að fara nokkrar ferðir í ræðustólinn í viðbót fyrir áramótin og særa hæstv. sjútvrh. gagnvart því hvað ríkisstjórnin hyggist fyrir í þessu því hæstv. sjútvrh. er sjútvrh. hvort sem honum líkar betur eða verr. Og að vísa málinu endalaust frá sér með þessum hætti sæmir ekki manni sem er tilbúinn til að axla embættisskyldur og ábyrgð starfa síns, nema hann sé að gefa okkur til kynna með óbeinum hætti að hann sé að segja af sér innan fárra daga og komi það ekki við hvernig sjávarútveginum á Íslandi reiðir af þegar frá líður eftir áramótin.
    Að lokum um ummæli hæstv. sjútvrh. um Alþb. Hæstv. sjútvrh. hefur gert það að dálítilli íþrótt að fjalla um Alþb. og viðhorf þess til sjávarútvegsmála, gjarnan stillt hlutum þannig upp að allir flokkar á Íslandi hafi alveg eldklár og engilhrein 100% samstæð viðhorf til sjávarútvegsmála nema einn flokkur og það sé Alþb., svo ekki sé talað um að í þjóðfélaginu ríki alger samstaða um sjávarútvegsmál og þetta sé allt í fínu lagi að öllu leyti nema því að það sé þarna einn flokkur, Alþb., sem sé eitthvað sérkennilegur í þessum málum. Og er þetta svona? Er þetta veruleikinn? Er þetta málflutningur sem sæmir manni sem vill láta taka sig alvarlega sem við skulum vona að hæstv. sjútvrh. geri? Ég held ekki. Ég held að hæstv. sjútvrh. væri t.d. hollt að líta sér nær og spyrja sig að því: Hvernig er andrúmsloftið í Sjálfstfl. gagnvart sjávarútvegsmálunum? Hver er hrifningin á Vestfjörðum í dag um ástand sjávarútvegsmála? Er hv. 1. þm. Vestf. tilbúinn til að koma hérna í ræðustólinn og lýsa yfir ánægju sinni með framgöngu hæstv. sjútvrh. og þá sjávarútvegsstefnu sem er rekin? Dagana þegar sjálfur bjargvætturinn á Flateyri er að gefast upp á fiskvinnslu á Íslandi og er að loka sinni starfsemi af því að hann getur ekki lengur rekið starfsemi í sjávarútvegi á Íslandi. Er þá ástandið þannig í Sjálfstfl. að þeir hafi efni á því að kasta steinum í aðra? Er t.d.

andrúmsloftið þannig í þeim herbúðum að þeir geti hönd í hönd komið hér hvor á fætur öðrum, sjútvrh. og hv. 1. þm. Vestf. og lýst yfir hamingju sinni með ástandið? Er það svo? Er Guðjón A. Kristjánsson, varaþm. Sjálfstfl., sem núna er að hvetja sjómenn til verkfalla gegn þessu ástandi, hugsanlegur framtíðarþingmaður og foringi sjálfstæðismanna á Vestfjörðum, tilbúinn til að koma hér þegar hann er inni á Alþingi og lýsa ánægju með þetta ástand? Það er ólíklegt. Hann mundi væntanlega ekki haga orðum sínum við sjómenn með þeim hætti sem hann gerir ef svo væri. Ég held því að þetta séu ómagaorð hjá hæstv. sjútvrh. og tek ég mér þá í munn það sem hæstv. landbrh. sagði um starfsbróður sinn, núv. hæstv. umhvrh.