Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 23:17:39 (2749)

[23:17]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um afnám laga nr. 39/1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.
    Kerfisbundin verðjöfnun sjávarafurða hófst með stofnun Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins með lögum nr. 72 21. maí 1969, en sá sjóður tók til starfa í ársbyrjun 1970. Lögin um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og starfsemi sjóðsins árabilið 1970 til 1990 voru afar umdeild. Síðustu fimm starfsár sjóðsins varð hann tilefni mikilla umræðna og athugana. Þetta tímabil störfðu ekki færri en þrjár stjórnskipaðar nefndir hver á fætur annarri sem allar höfðu það verkefni að meta starfsemi sjóðsins og þörf fyrir verðjöfnun sjávarafurða.
    Hin fyrsta þessara nefnda gerði ráð fyrir að sjóðurinn yrði starfræktur áfram, en lagði til að gerðar yrðu nokkrar breytingar á starfsháttum og voru þær lögfestar árið 1986. Önnur nefndin komst að þeirri niðurstöðu að leggja bæri sjóðinn niður þar sem forsendur fyrir starfsemi hans væru brostnar í veigamiklum atriðum. Þriðja nefndin var skipuð undir lok ársins 1989. Hún lagði til að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins yrði lagður niður í þáverandi mynd. Hins vegar skyldi lögboðinni verðjöfnun sjávarafurða fram haldið og í því skyni stofnaður verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins sem starfa skyldi eftir öðrum reglum en þá giltu. Á grundvelli þessara tillagna lagði sjútvrh. fram frv. sem Alþingi samþykkti með nokkrum breytingum og varð að lögum nr. 39/1990.
    Í ársbyrjun 1990 tók markaðsverð sjávarafurða að hækka úr þeim öldudal sem það fór í á árinu 1988. Verðið hækkaði stöðugt á árinu 1990 og í árslok var það um fjórðungi hærra en á sama tíma árið áður. Sú verðlagsþróun varð þess valdandi að er Verðjöfnunarsjóður tók til starfa um mitt árið 1990 kom þá þegar til inngreiðslu í botnfiskdeild hans. Inngreiðslan nam í fyrstu 1% af fob-verði botnfiskafurða en fór næst í 5% í apríl 1991, en lækkaði eftir það smám saman og endaði loks í 1,5% í desember 1991 þegar tekið var fyrir inngreiðslur í sjóðinn með sérstökum lögum. Er enginn vafi á því að inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð á þessu tímabili höfðu veruleg áhrif í þá átt að draga úr þensluáhrifum uppsveiflu í útflutningsverði sjávarafurða á árunum 1990--1991.
    Vorið 1992 samþykkti Alþingi sérstök lög um útgreiðslur úr Verðjöfnunarsjóði, enda þótt verðþróun gæfi þá ekki tilefni til útborgunar samkvæmt almennum ákvæðum verðjöfnunarsjóðslaganna. Ástæða þess var sú að afkoma sjávarútvegsins hafði versnað mjög, fyrst og fremst vegna þess að nauðsynlegt reyndist að minnka mjög sókn í þorskstofninn. Var megninu af eignum Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins samkvæmt þeim lögum varið til greiðslu á skuldum einstakra framleiðenda sjávarafurða og til lífeyrissjóða sjómanna. Alls hefur verið varið 2,5 milljörðum kr. til greiðslu skulda einstakra framleiðenda og 347 millj. kr. til lífeyrissjóða sjómanna. Samtals nema útgreiðslur því 2.875 millj. kr.
    Á fskj. með frv. fylgir sérstök greinargerð um framkvæmd þessarar útgreiðslu.
    Í árslok 1991 var skipuð nefnd undir formennsku Hallgríms Snorrasonar til að endurskoða gildandi lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Skilaði nefndin áliti í árslok 1992 og er álitið einnig birt sem fskj. með frv. Er meginniðurstaða nefndarinnar sú að með hliðsjón af aðstæðum í sjávarútvegi, andstöðu hagsmunaaðila við áframhaldandi starfsemi sjóðsins og af stöðu sjóðsins þegar fjármunir hans eru upp urnir eftir að hafa verið nýttir til að bæta stöðu sjávarútvegsfyrirtækja séu raunhæf skilyrði fyrir því að verðjöfnunarsjóður starfi áfram ekki lengur fyrir hendi. Því sé eðlilegt að lögin um Verðjöfnunarsjóð verði afnumin og sjóðurinn lagður niður. Er 1. gr. frv. í samræmi við þá niðurstöðu nefndarinnar.
    Eins og áður hefur komið fram hefur megninu af innstæðum Verðjöfnunarsjóðs þegar verið ráðstafað. Inni í sjóðnum standa þó enn ríflega 330 millj. kr. Þar af eru 15 millj. kr. á reikningum skráðum á nafn einstakra framleiðenda. Er með 2. gr. frv. lagt til að þær innstæður séu greiddar viðkomandi framleiðanda en að aðrar eignir sjóðsins, eða nálægt 215 millj. kr., renni til reksturs Hafrannsóknastofnunar.

    Frú forseti. Ég legg síðan til að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.