Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 23:51:38 (2752)


[23:51]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. 1. þm. Vestf. þá er ráðgert í þessu frv. að meginhluti af þeim fjármunum sem enn eru inni í Verðjöfnunarsjóðnum renni til Hafrannsóknastofnunar. Það er rétt, eins og fram kom hjá hv. þm., að það er auðvitað í ljósi þeirrar þröngu fjárhagsstöðu sem við búum við í dag. Ég get tekið undir þær athugasemdir sem hv. þm. gerði um sérstöðu rækjuiðnaðarins og get fyrir mitt leyti fallist á að þeirri takmörkuðu fjárhæð sem hann nefndi yrði varið til sérstaks átaks í markaðsmálum þessarar atvinnugreinar sem lengi hefur verið í undirbúningi og þar hefur einnig verið hugað að samstarfi með öðrum Norðurlandaþjóðum, en úr því varð ekki á sínum tíma. Ég tek því undir það með hv. þm. að það getur farið mjög vel á því að hv. nefnd taki einmitt þessa hugmynd til athugunar við meðferð málsins.