Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 00:32:18 (2755)


[00:32]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um samhengið á milli lögmáls bókarinnar og stefnuskrár Kvennalistans. En vegna þess að hv. þm. spurði beint að því hvort ekki væri enn tilefni til fyrirhyggju eins og á dögum Móses, þá tek ég undir þau sjónarmið enda er ekkert í þessu frv. sem mælir á móti því. Ég þykist líka vita að hagfræði hinnar hagsýnu húsmóður geti mætavel gengið fyrir sig með fyrirhyggjusemi án þess að hún sé lögþvinguð. Á sama hátt geta stjórnendur og starfsmenn í sjávarútvegi sýnt fyrirhyggju án þess að nákvæmlega sé mælt fyrir um það með lögum frá Alþingi á hvern veg það skuli gert.
    Vissulega hefur verðjöfnun í sjávarútvegi, með þeim hætti sem við höfum ákveðið með lögum, bæði haft kosti og galla. Ég tók fram í máli mínu í upphafi að hún hefði vissulega haft kosti í för með sér á ákveðnum sviðum, en á hinn bóginn hafa gallarnir verið ríkari. Nú er ekki lengur samstaða innan greinarinnar um þetta. Það hefur reynst mjög erfitt að viðhalda sveiflujöfnun þegar verðlag hefur verið hátt og mælt fyrir um inngreiðslu á sama tíma og aðrar ástæður hafa leitt til tapreksturs í greininni og menn hafa setið inni með eignir í sjóðum, en barist samt við tap. Við slíkar aðstæður er nánast útilokað að tryggja samstöðu um verðjöfnun með þessum hætti og þess vegna er svo komið sem raun ber vitni um og tillögur liggja fyrir um að leggja þennan sjóð niður. En það þýðir á engan hátt að ekki sé ástæða fyrir sjávarútvegsfyrirtæki eins og aðra að sýna fyrirhyggjusemi í rekstri.